09.10.1952
Sameinað þing: 4. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1 í D-deild Alþingistíðinda. (2293)

52. mál, hitaveita á Sauðárkróki

Jón Sigurðsson:

Herra forseti. Þann 31. jan. 1951 var samþ. hér á Alþ. till. frá okkur þm. Skagf. um, að ríkisstj. væri heimilt að ábyrgjast fyrir hönd ríkissjóðs allt að 2,8 millj. kr. af heildarstofnkostnaði hitaveitu Sauðárkrókskaupstaðar. Till. þessi var fram borin með hliðsjón af kostnaðaráætlun Gunnars Böðvarssonar verkfræðings, er gerð var í apríl 1950. Á þeim tíma, sem liðinn er síðan áætlunin var gerð, hefur kaupgjaldsvísitalan stórhækkað og sömuleiðis verð á byggingarefni til hitaveitunnar. Jafnframt hefur komið í ljós, að nauðsynlegt er að auka nokkuð vatnsmagnið frá borholunum með því að dýpka eða fjölga borholunum í og við Áshildarholtsvatn, til þess að vatnið verði nægilegt til fullrar upphitunar fyrir kaupstaðinn. Af þessu leiðir aukinn kostnað, sem ekki var tekið fullt tillit til í áætlun Gunnars Böðvarssonar. Með hliðsjón af því, sem hér hefur verið bent á, og reynslu bæjarstjórnar Sauðárkróks við framkvæmd verksins á yfirstandandi ári, telur Gunnar Böðvarsson, að gera verði ráð fyrir, að heildarbyggingarkostnaður hitaveitunnar á Sauðárkróki verði um 4½ millj. kr., en 80% af þeirri upphæð eru 3.600.000 kr. Skortir þannig 800.000 kr. til, að ábyrgð sú, sem Alþ. heimilaði í ársbyrjun 1951, hrökkvi fyrir 80% af áætluðum stofnkostnaði hitaveitunnar eins og nú standa sakir En þar sem það er ófrávíkjanlegt skilyrði fyrir lánveitingu til hitaveitunnar, að ríkisábyrgð sé fyrir hendi, þá flytjum við þm. Skagf. þáltill. þá, sem hér liggur fyrir, um viðbótarábyrgð ríkissjóðs vegna hitaveitu Sauðárkróks. Veltur það á undirtektum Alþ., hvort þessu þýðingarmikla verki verður lokið á áætluðum tíma eða það stöðvast sökum fjárskorts.

Ég skal geta þess, að vinna við lagningu hitaveitunnar hófst í vor. Það er nú lokið lagningu aðalæðarinnar til kaupstaðarins, og er langt komið með lögn bæjarkerfisins. Bæjarstjórnin gerir sér nú vonir um, ef engin ófyrirsjáanleg óhöpp steðja að, að verkinu verði lokið fyrir jól. Það er augljóst, að hér er að ræða um mjög mikilsverða framkvæmd. Jarðhiti, sem hægt er að nota með viðráðanlegum kostnaði, er betri en nokkur kolanáma, vil ég halda. Það er því sjálfsögð skylda ríkisvaldsins að stuðla af fremsta megni að nýtingu þessarar hitanámu.

Ég vil að svo mæltu leggja til, að málinu verði vísað til síðari umr. og fjvn., og vil mælast mjög til þess við fjvn., að hún sjái sér fært að hraða málinu, því að sem stendur er, eins og ég gat um áðan, loku skotið fyrir frekari lánveitingar fyrr en þessi ábyrgð er fyrir hendi.