22.10.1952
Sameinað þing: 6. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 13 í D-deild Alþingistíðinda. (2314)

16. mál, Norðurlandaráð

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Mál það, sem hér er lagt fram, er þm., a. m. k. flestum þeirra, nokkuð kunnugt, vegna þess að það var til umr. og ákvörðunar á fundi þm. á s. 1. vetri, að vísu utan reglulegs þingfundar, en þá var meiri hluti manna með því að gerast aðili þeirra samtaka, sem hér um ræðir. Reglum samtakanna hefur að vísu nokkuð verið breytt síðan, en þó aðeins lítillega, svo að hér er um sama málið að ræða.

Um þetta Norðurlandaráð er í sjálfu sér ekki mikið að segja umfram það, sem tekið er fram í grg. þáltill. Þessi hugmynd um Norðurlandaráð er sprottin af vilja og þörf Norðurlandaþjóðanna til þess að efla samtök sín og standa saman um þau málefni, er samstarf reynist heppilegt um. Við vitum, að þetta samstarf hefur verið allríkt á undanförnum árum, en átt sér stað með mjög mismunandi hætti. Nú hafa menn talið þörf á því að samræma þetta starf og færa það til einnar miðstöðvar, ef svo mætti segja, svo að jafnvel þó að hinar eldri greinar starfsins yrðu ekki afhöggnar, þá yrði betri heildarskipun í þessum efnum, en hingað til hefur verið. Það verður þó að segjast eins og er, að enn hafa menn ekki komið sér saman um eða fastákveðið einstök verkefni, sem fyrir þessu Norðurlandaráði eigi að liggja eða það að láta til sín taka. Það má því segja, að hér sé nánast um stefnuyfirlýsingu að ræða um það, að menn vilji láta það sjást gagnvart umheiminum, að þessar Norðurlandaþjóðir vilji vinna saman og hafa nánara samstarf sín á milli en yfirleitt gerist með öðrum þjóðum. Hér er því óneitanlega um tilraun að ræða, sem ekki er með vissu sýnt, hvernig takast muni, en ég tel þó rétt að Íslendingar taki þátt í ekki síður en Danmörk, Noregur og Svíþjóð. Finnlandi er einnig gefinn kostur á því að vera með í þessum samtökum, en á þessu stigi málsins hafa Finnar ekki talið rétt að vera með, svo að möguleikinn er einungis látinn standa opinn. En ætlunin er að efna til samtakanna, þó að úr þátttöku Finnlands verði ekki. Eins má segja að sé um Ísland, að það er ákveðið af hinum þremur skandinavísku þjóðum, að þær muni efna til þessara samtaka, hvort sem Íslendingar gerast þar þátttakendur eða ekki. Þetta er að vissu leyti eðlilegt, því að óneitanlega eiga þessar þrjár þjóðir margt sameiginlegt, og svipað stendur á um þeirra málefni að ýmsu leyti í þeim efnum, þar sem Ísland óneitanlega hefur sérstöðu. En þrátt fyrir þá sérstöðu hygg ég, að bæði samtökin og eins staða Íslands verði sterkari með því, að við gerumst aðilar, og þess vegna er það mín till., að svo verði gert.

Ég legg nokkra áherzlu á, að Alþingi taki sem fyrst afstöðu til þessa máls, vegna þess að nú þegar er farið að undirbúa fyrsta fundinn, sem ráðgert er að verði sem fyrst á næsta ári, og er því æskilegt, að það verði hið allra bráðasta úr því skorið, hvort Ísland endanlega ætlar að verða þarna þátttakandi eða ekki.