10.12.1952
Sameinað þing: 24. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 14 í D-deild Alþingistíðinda. (2316)

16. mál, Norðurlandaráð

Frsm. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Þessi till. til þál. hefur verið lögð fyrir hv. Alþ. að tilhlutun hæstv. ríkisstj. og er um það, að Ísland gerist aðili að stofnun Norðurlandaráðs.

Till. hefur verið rædd í utanrmn., en þangað hafði henni verið vísað, er till. var vísað til síðari umr., og hefur n. með nál. á þskj. 369 lagt til, að hún verði samþ. óbreytt. Einn nm., hv. 1. þm. N-M., var ekki á fundinum.

Eins og vitað er, hófst hreyfing um stofnun Norðurlandaráðs í sambandi við fund norræna þingmannasambandsins, sem haldinn var í Stokkhólmi 13. og 14. ágúst 1951, og átti að henni frumkvæðið, að því er virðist á því þingi, fyrrverandi forsrh. Dana, Hans Hedtoft, sem hv. þm. öllum og ég hygg mörgum öðrum Íslendingum er að góðu kunnur. Vitað er, að í því mikla máli, sem um þessar mundir er sérstaklega fjallað um í Danmörku, afhendingu íslenzku handritanna, er hann Íslendingum mjög innan handar.

Fyrir frumkvæði hans var þetta mál reifað á þingmannasambandsfundi þeim, er ég nefndi, og var þar skipuð n. til að athuga það, og skilaði hún áliti á fundinum og bar fram till., sem var algerlega jákvæð að því er það snerti, að Norðurlandaþjóðirnar, Danmörk, Noregur, Ísland og Svíþjóð, kæmu sér saman um að stofna til samvinnu, er bæri nafnið Norðurlandaráð.

Vissulega hefði verið æskilegt, að Finnar tækju líka þátt í þessum samtökum, en mér skilst, að fulltrúar Finna hafi talið, að eftir atvikum væri þeim ekki unnt að taka þátt í slíku ráði, og þess vegna er ekki við því búizt, að þátttaka Finnlands geti átt sér stað að svo stöddu. En vegna þess að öllum öðrum Norðurlandaþjóðum hlýtur að vera það mikið áhugamál, að einmitt Finnland gerist aðili að slíku Norðurlandaráði, hefur þeim reglum, er settar voru á árinu 1951, verið hagað þannig, að unnt er fyrir Finnland, þegar það sér sér fært og hefur til þess vilja, að taka þátt í Norðurlandaráði á sama hátt og aðrar Norðurlandaþjóðir.

Það frv. um starfsreglur, sem fylgir till. þeirri til þál., sem hér er til meðferðar nú, hefur verið athugað af hlutaðeigandi ríkisstj. Enn fremur hefur málið í heild sinni verið rætt og athugað af sérfræðingum frá þessum löndum. Mér er að vísu ekki kunnugt um, hvort sérfræðingur af Íslands hálfu hefur átt þátt í því verki, en ríkisstj. þær, sem hlut eiga að máli, hafa haft af því afskipti, og á fundi norrænu utanrrh., sem haldinn var í Kaupmannahöfn 15. og 16. marz 1952, en þar var sendiherra Íslands í Danmörku viðstaddur fyrir Íslands hönd, náðist samkomulag um þessar reglur nokkuð breyttar, en að öðru leyti var ákveðið, að þær skyldu verða lagðar með málinu fyrir þing hverrar þjóðar, annaðhvort sem frv. til l. eða sem þáltill., svo fljótt sem því yrði við komið. Þing Danmerkur, Noregs og Svíþjóðar hafa nú þegar samþ. að gerast aðilar að stofnun Norðurlandaráðs, og hér er þetta mál nú fyrir Alþ. borið fram af hæstv. ríkisstj., og mælir utanrmn. eindregið með framgangi þess.

Ég ætla ekki, að þess sé þörf, að ég hafi hér um fleiri orð að sinni. Hitt ætla ég, að öllum hv. alþm. muni vera ljóst, að þegar efnt er til slíkrar samvinnu með frændþjóðum Íslendinga á Norðurlöndum, muni það vera vel ráðið, að Íslendingar taki einnig þátt í þeirri samvinnu.