26.11.1952
Sameinað þing: 16. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 18 í D-deild Alþingistíðinda. (2329)

97. mál, fiskveiðar á fjarlægum miðum

Flm. (Sigurður Bjarnason):

Herra forseti. Það er alkunna, að vegna þverrandi afla á íslenzkum fiskimiðum hafa íslenzk fiskiskip neyðzt til þess að leita til fjarlægari miða. Aflaþurrðin á grunnmiðunum hefur orðið æ meira áberandi eftir því, sem árin hafa liðið, og þörfin fyrir að geta leitað á önnur mið stöðugt orðið ríkari. Þau mið, sem fyrst hafa orðið fyrir hinum íslenzka flota, eru hin auðugu fiskimið við Grænlandsstrendur. Þangað hefur mjög verulegur hluti íslenzka flotans sótt undanfarin ár. Tilraunir hafa verið gerðar með það að senda vélbáta á þessar slóðir, en þær hafa ekki gefizt vel. Má raunar segja, að við núverandi aðstæður sé ógerlegt að senda vélbáta svo langt frá heimahöfn.

Það, sem er aðalatriðið í þessu máli, ef íslenzk veiðiskip eiga að geta haldið áfram að sækja á þessi fjarlægu mið, er að fá aðstöðu þeim til handa í grænlenzkum höfnum til þess að geta lagt þar upp afla sinn. Þau þurfa enn fremur að fá leyfi til þess að afla sér þar nauðsynja sinna, svo sem salts, olíu, kola, vista o. s. frv. Á það má benda í þessu sambandi, að slíka aðstöðu hafa norsk fiskveiðiskip haft í Grænlandi um alllangt skeið. Hins vegar hefur ekki enn þá tekizt neitt samkomulag um slíka aðstöðu, er varanleg gæti kallazt, Íslendingum til handa. Á s. 1. sumri munu þó einhverjir hinna íslenzku togara hafa fengið einhverja aðstöðu, ekki samt fyrir milligöngu Grænlandsstjórnar, heldur í samvinnu við félagssamtök erlend, sem að fiskkaupum eða útgerð hafa staðið á þessum slóðum. Það er skoðun okkar flm. þessarar till., að ef samkomulag gæti tekizt við Grænlandsstjórn um slíka aðstöðu til handa íslenzkum fiskveiðiskipum, mundi af því leiða mjög aukna möguleika fyrir útgerðina í landinu. Við getum ekki gert okkur vonir um það, að þótt ráðstafanir hafi nú verið gerðar til aukinnar verndar íslenzkum grunnmiðum og fiskimiðum yfirleitt, þá muni þær bera svo skjótan árangur, að við munum ekki þurfa á því að halda á næstu árum að leita í fjarlæg mið. Þess vegna er það raunar óumflýjanlegt, að leitað verði slíkra samninga sem ég hér hef bent á.

Það er, eins og ég gat um í upphafi, tilgangur þessarar till. og meginefni, að það er lagt til, að ríkisstj. verði falið að athuga til hins ýtrasta möguleika til samkomulags um þessi mál. Þar sem svo stendur á, að hér er við norræna frændþjóð að eiga, Dani, ættu einnig að vera frekari möguleikar til þess að komast að jákvæðri niðurstöðu um þessi mál. Ég skal játa, að þær fregnir, sem nú fyrir skömmu hafa borizt um ráðagerðir Dana í þessum efnum, benda engan veginn til þess, að auðvelt muni vera að ná í skjótu bragði slíku samkomulagi. En það væri óverjandi af Íslendingum að gera ekki tilraunir til þess að bæta aðstöðu þess stóra flota, sem undanfarið og á næstu árum kemur til með að sækja á þessi fjarlægu mið. Og að sjálfsögðu kemur til greina sókn íslenzkra veiðiskipa á önnur mið, og nær till. að sjálfsögðu til þess að greiða einnig götu þeirra, í hvaða átt sem þau liggja og hvort sem fjarlægðin þangað er minni eða meiri.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fara fleiri orðum um þessa till. Hún skýrir sig sjálf og er sjálfsögð, og grundvöllur hennar er brýn nauðsyn íslenzks sjávarútvegs og raunar íslenzks atvinnulífs og efnahagslífs í heild.

Ég vil leyfa mér að leggja til, að umr. um till. verði frestað og henni vísað til hv. allshn.