10.12.1952
Sameinað þing: 24. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 21 í D-deild Alþingistíðinda. (2338)

158. mál, lögsagnarumdæmi Akureyrarkaupstaðar

Flm. (Bernharð Stefánsson):

Herra forseti. Með þeirri þáltill., sem ég hef leyft mér að flytja á þskj. 259, er farið fram á það, að Alþ. skori á félmrh. að beita sér fyrir samningum milli bæjarstjórnar Akureyrarkaupstaðar og hreppsnefndar Glæsibæjarhrepps í Eyjafjarðarsýslu um, að Glerárþorp verði sameinað Akureyrarkaupstað, og leggja síðan frv. um sameininguna fyrir næsta Alþingi, ef samningar hafa þá tekizt.

Eins og menn sjá, er hér ekki um stórmál að ræða og a. m. k. mál, sem öllum er meinlaust og ég fæ ekki séð að neinn geti haft á móti, því að ekki er hægt að sjá, að samþykkt þessarar till. mundi skaða neinn. Ég býst við, að hv. alþm. séu flestir það kunnugir á landinu, að þeir hafi komið m. a. til Akureyrar og þá séð það, að það er rétt, sem í grg. till. stendur, að Glerárþorp er að legu til alveg greinilega úthverfi Akureyrar. Og ég hef orðið var við það, að margir ókunnugir, sem til Akureyrar koma, álíta, að þorpið tilheyri Akureyrarkaupstað. Þorpið liggur alveg við Akureyri, og skilur ekki annað en lítil á, Glerá, þorpið og bæinn. Akureyrarbær á landið, sem Glerárþorp hefur vaxið upp á. Bæjarstjórn Akureyrar hefur leigt þar byggingarlóðir og bletti til ræktunar og ber að því leyti siðferðislega ábyrgð á því, að þetta þorp hefur vaxið þarna upp. Á hinn bóginn njóta þorpsbúar vitanlega ekki sömu réttinda hjá Akureyrarkaupstað eins og bæjarbúar um ýmsar framkvæmdir, sem gerðar eru í bænum sjálfum, jafnvel þó að bærinn eigi landið, enda er bærinn ekki skyldur til þess að inna slíka þjónustu af hendi í öðrum hreppi, þó að hann eigi landið.

Íbúar Glerárþorps byggja tilveru sína hreint og beint á atvinnu á Akureyri eða þá að nokkru leyti á atvinnu við fyrirtæki, sem Akureyrarkaupstaður rekur í Glæsibæjarhreppi rétt við þorpið.

Þetta mál, að sameina þorpið Akureyrarkaupstað, hefur verið mjög rætt bæði í Akureyrarkaupstað sjálfum, þ. á m. af bæjarstjórninni þar, og í Glerárþorpi, og ég hef ekki fyrirhitt neinn, sem ekki telur það eðlilegt og sjálfsagt, að þorpið sameinist bænum í framtíðinni. En þó hefur það nú farið svo, að af samningum um þetta efni hefur ekki orðið enn sem komið er, þó að þeir hafi stundum verið komnir nokkuð á veg.

Ég hygg, að það séu einkum tvö atriði, sem hefur staðið á, að Akureyrarkaupstaður vildi að svo stöddu taka við Glerárþorpi, og það er, að bærinn vill hafa það tryggt, að brúin yfir Glerá verði byggð á þann hátt, sem ráðgert hefur verið í fjárlögum í fyrra og eins á fjárlagafrv. nú, þannig að ríkissjóður leggi fram helming til brúarbyggingarinnar. Í öðru lagi er það, að þegar búið er að byggja brúna, munu flestir telja hentugra að leggja þjóðveginn þannig, að hann komi á þá nýju brú, en sé þá færður af gömlu brúnni á Glerá. Akureyrarkaupstaður vill vera laus við að leggja veg í gegnum þorpið, þó að af sameiningunni yrði.

Ég álít, að það geti ekki verið neitt kostnaðarmeira fyrir ríkið, þó að það leggi sinn skerf til brúarinnar, jafnvel þó að búið væri að sameina þorpið bænum, og ekki heldur neitt dýrara fyrir ríkið að leggja þennan veg, þó að sameiningin sé komin á. Brúna þarf að byggja, og hún verður byggð. Og þegar búið er að byggja brúna, þá mun vegamálastjórn landsins þykja alveg nauðsynlegt og óhjákvæmilegt að leggja veginn frá brúnni, þannig að ég teldi það engin útlát fyrir ríkið að ganga inn á það, að vegurinn yrði lagður af ríkinu eins fyrir því., þó að búið væri að sameina þorpið bænum.

Nú mætti spyrja: Liggur þá á þessu máli? Má ekki þessi sameining bíða eftir því, að þessar framkvæmdir séu gerðar? Mér er óhætt að fullyrða, að af ýmsum ástæðum liggur Glerárþorpsbúum á, að þetta mál komist í kring. Bæði er það, eins og ég nefndi áðan, að það eru ýmsar framkvæmdir, sem þarf að gera í Glerárþorpi og ekki er von til að hreppurinn geri, en mundu verða gerðar þegar sameiningin væri komin á. Í öðru lagi er það, eins og ég líka hef áður nefnt, að lífsafkoma íbúanna í þorpinu byggist að miklu leyti á atvinnu á Akureyri. En meðan þorpið er í öðrum hreppi, má alltaf búast við því, að t. d. Verkalýðsfélag Akureyrar amist við því, að þorpsbúar vinni í bænum. Þó að ekki hafi borið mikið á því hingað til, þá getur það orðið þegar fer að þrengjast um atvinnu.

En þó að þetta sé nauðsynjamál fyrir Glerárþorp, þá er það ekki einhlítt, ef það er þýðingarlaust fyrir Akureyri. En ég álít, að þetta sé líka hagsmunamál fyrir bæinn. Eins og ég nefndi, þá á bærinn verksmiðju rétt norðan við þorpið og rekur hana. Hann mundi vera frjálsari með þann rekstur og hafa greiðari aðgang að honum með því, að það væri samfellt bæjarland að verksmiðjunni og öllu umhverfi hennar. Og þar að auki álít ég, og ég hugsa, að fleiri Akureyringar líti svo á, að það væri í sjálfu sér eðlilegra, þegar brú er komin á Glerá, að aukin byggð á Akureyri yrði þar, sem Glerárþorp er, að það byggðist mikið þar, í staðinn fyrir að byggðin virðist nú vera að teygjast upp undir fjall. Það yrði áreiðanlega ódýrara að auka byggðina í Glerárþorpi, en upp um brekkur og uppi undir fjalli.

Akureyrarbær á jörð þarna í nágrenninu, sem heitir Mýrarlón. Þar fer fram venjulegur sveitabúskapur, en eðlilegt teldi ég, að sú jörð fylgdi þá og yrði sameinuð Akureyrarkaupstað, þar sem hún er eign bæjarins, ef af þessari sameiningu yrði.

Þessir samningar um sameininguna hafa sem sagt strandað, þrátt fyrir það þó að ég álíti, að vilji sé fyrir henni á báðum stöðunum. Þess vegna er farið fram á það í þessari till., að félmrh. beiti sér fyrir samningunum. Að sjálfsögðu er ekki átt við það, að hann þurfi endilega að gera það persónulega, hann getur að sjálfsögðu sett einhvern undirmann sinn til þess, eins og t. d. skrifstofustjórann í félmrn.

Eins og kunnugt er, ganga samningar oft betur og komast frekar á, ef þriðji aðili, sem er óhlutdrægur og hvorugum samningsaðila háður, tekur þátt í samningum sem málamiðlari. Ég álít aðeins greiðasemi, að þetta sé gert. E. t. v. hefði ekki þurft að bera fram þáltill. um það. Það má segja, að þar sem ég er flokksbróðir hæstv. félmrh., þá hefði ég getað beðið hann að gera þetta, án þess að nokkur alþingissamþykkt lægi fyrir. Hins vegar stendur félmrh. eða hans ráðuneyti betur að vígi að snúa sér til aðilanna, ef fyrir liggur alþingissamþykkt.

Þetta er svo einfalt mál og þar að auki mál, sem ekki getur á neinn hátt skert rétt nokkurs eða skaðað á nokkurn hátt, að ég sé enga ástæðu til þess að biðja um, að umr. verði frestað og málið sett í n. Ég álít, að hið háa Alþingi sé alveg fært um að greiða atkvæði um svo einfalda till. sem þetta er, án þess að n. hafi um það fjallað.