10.12.1952
Sameinað þing: 24. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 23 í D-deild Alþingistíðinda. (2339)

158. mál, lögsagnarumdæmi Akureyrarkaupstaðar

Jónas Rafnar:

Herra forseti. Í tilefni af till. þeirri til þál. um stækkun lögsagnarumdæmis Akureyrarkaupstaðar, sem hv. 1. þm. Eyf. flytur, tel ég ástæðu til að segja nokkur orð.

Um síðustu áramót barst bæjarstjórn Akureyrar bréf frá nokkrum mönnum í Glerárþorpi, sem kjörnir höfðu verið af þorpsbúum til þess að gangast fyrir atkvgr. um það, hvort íbúar Glerárþorps óskuðu eftir því, að þorpið yrði sameinað Akureyrarkaupstað.

Í nefndu bréfi var þess gefið, að atkvgr. hefði farið fram um þetta atriði meðal atkvæðisbærra manna í Glerárþorpi, og hafði 191 tjáð sig fylgjandi sameiningu, en 29 verið á móti. Var nú óskað eftir viðræðu við bæjarstjórnina. Bæjarráð svaraði þessari málaleitun fyrst í stað með því að biðja um ýmsar upplýsingar, m. a. um mannfjölda í þorpinu, útsvarsupphæð í Glæsibæjarhreppi og Glerárþorpi og kostnað við þurfamannaframfæri í hreppnum. Þá kom fram, að mannfjöldi í Glæsibæjarhreppi samkvæmt manntali 1950 var 866, þar af í Glerárþorpi 515. Niðurjöfnuð útsvör í hreppnum námu árið 1951 300 þús. kr. og þurfamannaframfæri alls 53 þús. kr. Rekstrarkostnaður við barnaskólann í Glerárþorpi var 27 þús. kr.

Eftir að þessar og aðrar upplýsingar lágu fyrir, samþykkti bæjarráð á fundi sínum 8. maí s. l. að leggja til, að bæjarstjórnin samþykkti, að Glerárþorp yrði sameinað Akureyrarkaupstað með eftirfarandi skilyrðum:

1) Að jarðirnar Ytra-Krossanes, Mýrarlón, Keppsá og allt land milli Glerár og þessara jarða verði lagt undir lögsagnarumdæmi Akureyrarkaupstaðar.

2) Yfirlýsing fáist frá yfirstjórn vegamála um það, að ríkissjóður kosti nýjan þjóðvegarkafla frá brú þeirri, sem er í smíðum, upp á núverandi þjóðveg og greiði að hálfu, eins og gert hefur verið ráð fyrir, kostnað við brúna, þótt umrædd stækkun bæjarfélagsins verði gerð.

Þrátt fyrir þessa afstöðu bæjarráðs gerðist það næst í málinu, að bæjarstjórn hafnaði á fundi sínum skömmu síðar sameiningartill. „að svo stöddu“, eins og orðað var í fundargerð bæjarstjórnarinnar, og við það stendur enn í dag.

Eins og réttilega er tekið fram í grg. hv. 1. þm. Eyf. fyrir till., má segja, að Glerárþorp sé úthverfi Akureyrar. Glerá skilur þar ein á milli og byggð að ánni beggja vegna. Það er því að sjálfsögðu einungis tímaspursmál, hvenær þorpið verði sameinað bæjarfélaginu. Mér skilst, að tvær ástæður mæli sérstaklega með sameiningu:

1) Að Glerárþorpsbúar stunda margir atvinnu á Akureyri, starfa við fyrirtæki, sem rekin eru af Akureyringum eða Akureyrarbæ, Má í því sambandi benda á togarana, sem gerðir eru út frá Akureyri, og Krossanesverksmiðjuna, sem er eign Akureyrarkaupstaðar og rekin af Akureyrarbæ.

2) Að við stækkun Akureyrar er mjög líklegt, að byggðin færist enn meir út fyrir Glerána og að kaupstaðurinn þurfi innan skamms að fá land í Glæsibæjarhreppi.

Afstaða meiri hluta bæjarstjórnarinnar í sumar til málsins markast tvímælalaust af því, að bæjarfélagið mundi taka á sig verulegan kostnað, ef sameining ætti sér stað eins og nú er háttað.

Eins og hv. 1. þm. Eyf. tók fram áðan, er ekki enn lokið við smíði nýju Glerárbrúarinnar, og í ráði er að leggja nýjan veg að norðan gegnum þorpið að brúnni. Það verður aðalsamgönguleiðin til og frá Akureyri. Þessar framkvæmdir kemur ríkið til með að kosta að langsamlega mestu leyti, eins og sakirnar standa í dag. Einnig verður óhjákvæmilegt að leggja í mikinn kostnað við skipulag þorpsins, eftir að sameining hefur átt sér stað. Má t. d. benda á gatnagerð, holræsagerð og margt fleira.

Eins og viðhorfið er í dag, þá verður því ekki neitað, að Glerárþorpsbúar hafa tvímælalaust sjálfir meiri ávinning af sameiningu en Akureyringar, þótt það eitt út af fyrir sig eigi ekki að ráða endanlega niðurstöðu málsins.

Fyrir mitt leyti sé ég ekkert athugavert við þessa till. hv. 1. þm. Eyf. Till. felur það eitt í sér, að leitað verði samninga milli Akureyrarkaupstaðar og hreppsnefndar Glæsibæjarhrepps um sameiningu hluta hreppsins við Akureyri. Eins og ég gat um áðan, þá er ég þeirrar skoðunar, að þessi sameining sé einungis tímaspursmál. Þegar þar að kemur, mun bæjarstjórn taka afstöðu til málsins og gera það eitt, sem hún telur bæjarfélaginu fyrir beztu. En sameining kemur að sjálfsögðu ekki til greina, nema bæjarstjórnin hafi áður samþykkt hana og með þeim skilyrðum, sem eðlileg mega teljast.