26.11.1952
Sameinað þing: 16. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 27 í D-deild Alþingistíðinda. (2358)

112. mál, greiðslugeta atvinnuveganna

Flm. (Sigurður Bjarnason):

Herra forseti. Ég hef leyft mér ásamt 5 öðrum hv. þm. að flytja hér till. um rannsókn á greiðslugetu atvinnuveganna í samvinnu við samtök atvinnurekenda og launþega.

Efni þessarar till. er að fela ríkisstj. að láta fram fara rannsókn á greiðslugetu og afkomu aðalatvinnuvega þjóðarinnar með það fyrir augum að fá úr því skorið, hversu hár rekstrarkostnaður atvinnutækjanna megi vera, til þess að þeim verði haldið í gangi sem lengstan hluta hvers árs og þeir veiti sem varanlegasta atvinnu. Enn fremur er lagt til í till., að ríkisstj. leiti aðstoðar og samvinnu við samtök launþega og atvinnurekenda um framkvæmd þessarar rannsóknar, sem skal vera lokið fyrir 1. nóv. næsta árs.

Það er megintilgangur þessarar þáltill. og þeirrar rannsóknar, sem hún gerir ráð fyrir, að komast að niðurstöðu um það, á hvern hátt megi tryggja öllum almenningi í landinu næga atvinnu, þannig að slíkt samræmist jafnvægi í þjóðarbúskapnum. Til þess að svo megi verða, má rekstrarkostnaður fyrirtækjanna ekki verða svo hár, að taprekstur hljótist af, því að af taprekstri hlýtur að leiða stöðvun framleiðslunnar, atvinnuleysi og vandkvæði. Með rannsókninni er m. ö. o. ætlað að sýna, hvern framleiðslukostnað hinar einstöku greinar atvinnulífsins geta borið. Ef hún leiðir það í ljós, að tap er á einstökum greinum atvinnulífsins eða mörgum þeirra, þá leiðir af því, að nauðsyn bæri til þess að láta fara fram framhaldsrannsókn, sem hefði það markmið að finna leiðir til þess að koma í veg fyrir slíkan taprekstur. Ef hins vegar rannsóknin leiddi það í ljós, að um mjög verulegan hagnað væri að ræða, þá kæmi til athugunar, hvernig auka mætti hlut vinnunnar í arði framleiðslunnar.

Því miður er það þannig í okkar þjóðfélagi í dag, að líkurnar eru mjög litlar fyrir því, að þær atvinnugreinar muni finnast margar, sem skili miklum arði. Hitt mun algengara, að atvinnutækin séu rekin með halla, að stöðugur lánsfjárskortur þröngvi hag þeirra og jafnvel stöðvi rekstur þeirra um lengri eða skemmri tíma. Ég hygg, að ekkert sé nauðsynlegra í raun og veru í okkar efnahags- og atvinnulífi í dag, en að þjóðin geri sér það fyllilega ljóst, hvar hún er á vegi stödd með rekstur bjargræðisvega sinna, og geri sér það enn fremur ljóst, hvað hún hefur til skipta, því að laun fólksins í hverri einstakri atvinnugrein hljóta að verulegu eða öllu leyti að byggjast á þeim arði, sem atvinnufyrirtækin gefa. Meiru er ekki hægt að skipta upp. Lánsstofnanir kunna að vísu að geta tekið skakkaföllin af atvinnutækjunum um skamma stund, einstakar vertíðir t. d. í sjávarútveginum. En til lengdar verður engin atvinnugrein rekin með tapi. Þjóðin verður að miða kröfur sínar til framleiðslunnar við hinn raunverulega arð á hverjum tíma.

Ef til vill er slík rannsókn sem gert er ráð fyrir í þessari till. aldrei tímabærari, en einmitt nú. Ég skal ekki fara út í að rekja viðhorfin í íslenzku efnahags- og atvinnulífi í dag. En það veit hver einasti hv. þm. og hver einasti skyni borinn maður, sem fylgist með gangi atvinnulífsins, að þar eru horfur mjög óvænlegar, svo að ekki sé meira sagt.

Það er skoðun okkar flm. þessarar till., að það sé mjög mikils virði, að launþegar og atvinnurekendur viti sem gleggst um, hvar þeir eru á vegi staddir í þessum efnum. Það hefur sýnt sig á liðnum tíma, að einmitt vanþekkingin á raunverulegu ástandi í atvinnulífinu hefur leitt til tortryggni, úlfúðar og illinda milli þessara stétta, sem að okkar áliti verða að vinna saman og eiga sameiginlegra hagsmuna að gæta, en ekki andstæðra.

Ég sé ekki ástæðu til að lengja mikið mál mitt og flytja fram fleiri rök fyrir þessari till. En ég vil að lokum segja það, að það hlýtur að vera sameiginleg skoðun allra þeirra manna, sem í raun og veru vilja, að afkoma almennings sé sem bezt og þjóðarheildarinnar sé sem tryggust, að atvinnulífið starfi jafnan á sem öruggustum grundvelli.

Ég leyfi mér svo að óska þess, að þessari till. verði vísað til hv. allshn.