13.11.1952
Neðri deild: 25. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 29 í D-deild Alþingistíðinda. (2361)

112. mál, greiðslugeta atvinnuveganna

Frsm. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Allshn. hefur haft þessa till. til meðferðar og rætt hana nokkuð. Hefur n. mælt með, að hún verði samþ., en þó tóku 2 nm., hv. 1. þm. Árn. og hv. þm. V-Sk., ekki afstöðu til málsins, þegar það var rætt í n.

Þegar till. þessi var hér til fyrri umr., gerði 1. flm. hennar, hv. þm. N-Ísf., ýtarlega grein fyrir ástæðum þess, að hún er fram borin, og sé ég ekki ástæðu til þess að eyða um það mörgum orðum. Till. fylgir grg., þar sem meginatriði málsins eru dregin fram og getið þeirra helztu röksemda, sem liggja því að baki, að till. er flutt.

Ég geri ráð fyrir því, að allir hv. þm. séu sammála um, að mjög æskilegt væri að reyna að finna einhvern grundvöll, sem hugsanlega væri hægt að standa á og á þann hátt leysa á friðsamlegri hátt, en oft vill verða, þau átök, sem verða í þjóðfélaginu milli einstakra stétta varðandi tekjuskiptingu þjóðarbúsins. Það er sífelldur ágreiningur um það á milli hinna ýmsu stétta, hversu eðlilegt sé, að tekjur af atvinnurekstur þjóðarinnar skiptist. Það verður að sjálfsögðu alltaf erfitt mál að finna slíkan grundvöll, og ef til vill er það ógerlegt. En ég hygg, að það sé fyllilega þess vert vegna mikilvægis málsins að gera tilraun til þess að taka þetta mál til rækilegri meðferðar en gert hefur verið.

Í þessari till. er lagt til, að ríkisstj. hafi forgöngu um slíka athugun, en hún verði framkvæmd í náinni samvinnu við samtök launþega annars vegar og atvinnurekenda hins vegar, því að í þjóðfélagi, þar sem um er að ræða frjálsa samninga milli launþega og atvinnurekenda um kaup og kjör, er það að sjálfsögðu höfuðatriði, að sú rannsókn og sá grundvöllur, sem fenginn kynni að verða, væri fundinn með athugun og frjálsu samkomulagi þessara tveggja aðila. Það eru auðvitað ekki aðeins laun, sem hér koma til greina, heldur einnig margvíslegur rekstrarkostnaður atvinnuveganna og einnig það, sem þyrfti að grípa inn í þessa athugun, að hve miklu leyti rekstrarkostnaður einnar atvinnugreinar ætti þátt í rekstrarkostnaði annarrar atvinnugreinar og hvort hugsanlegt væri að létta þar eitthvað á hinum einstöku atvinnugreinum.

Það má auðvitað endalaust bollaleggja um þetta mál. Þetta er ákaflega fjölþætt, og það kann ef til vill sumum hv. þm. að þykja sem hér sé um svo stórt og yfirgripsmikið mál að ræða, að það verði erfitt um vík um framkvæmdir á því., Og ég skal fúslega játa það, að þetta er vandasamt mál, og ef til vill verður harla erfitt að finna í því viðunandi niðurstöðu. En ég álít og það er skoðun allshn., að það sé margt til þess vinnandi að leitast við að finna slíkan grundvöll og leitast við að nota öll hugsanleg ráð til þess á þennan hátt, ef auðið væri að skapa vinnufrið í þjóðfélaginu og losna við þær eilífu deilur, sem valda þjóðarbúinu í heild oft stórfelldu tjóni.

Það ætti að vera sameiginlegt áhugamál bæði vinnuveitenda og launþega og allra þjóðfélagsstétta yfirleitt, að slíkur grundvöllur gæti orðið fenginn. Og þar sem gert er ráð fyrir, að þessi athugun fari fram í samvinnu milli þessara aðila, þá ætti að vera fengin trygging fyrir því, að í þeirri athugun yrðu ekki fyrir borð borin sjónarmið aðila málsins.

Það liggja vitanlega fyrir ýmiss konar upplýsingar um afkomu einstakra atvinnugreina í þjóðfélaginu, en heildarathugun á þessu máli hefur ekki farið fram. Í sambandi við þá vinnudeilu, sem stendur, var vakið máls á því, að slík athugun yrði látin fara fram, en á það var bent, að það mundi taka langan tíma, og vitanlega er það rétt, að heildarathugun á þessu máli tekur mjög langan tíma, og þarf mjög rækilega og gaumgæfilega að kanna mörg atriði málsins, áður en þess er að vænta, að niðurstaða verði fengin.

Það hefur einu sinni áður verið gerð tilraun til þess að leysa efnahagsvandamál þjóðarinnar með samvinnu milli stétta, þar sem var stéttaráðstefna sú, sem boðað var til fyrir nokkru. Því miður varð ekki árangur af þeirri ráðstefnu. En ég vil þó vænta þess, og ég hygg, að um það muni aðrir hv. þm. vera mér sammála, að því aðeins fáist farsælleg lausn á efnahagsvandamálum þjóðarinnar, að reynt verði að finna sem víðtækastan samstarfsgrundvöll milli hinna einstöku stétta þjóðfélagsins. Af þeim sökum álít ég, að .það sé spor í rétta átt að samþ. þá till., sem hér liggur fyrir, og að lögð verði áherzla á, að reynt verði að finna einhvern slíkan grundvöll sem hér er að vikið. Vil ég því fyrir hönd n. mæla með því, að till. verði samþ. óbreytt.