03.12.1952
Sameinað þing: 20. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 31 í D-deild Alþingistíðinda. (2367)

152. mál, verðmiði á vörum í sýningargluggum

Flm. (Rannveig Þorsteinsdóttir):

Herra forseti. Till. þessi, sem hér liggur fyrir á þskj. 242, er um það, að Alþ. skori á ríkisstj. að hlutast til um, að verzlanir verði skyldaðar til þess að hafa verðmiða á þeim varningi, sem settur er til sýnis í búðarglugga, sýningarkassa eða á annan hátt. Þetta virðist nú í fljótu bragði vera ákaflega lítið framkvæmdaratriði, sem hér er um að ræða, en einhvern veginn hefur það nú vafizt fyrir þeim aðilum, sem ættu að hafa með það að gera, að slíkir verðmiðar væru á vörum, hvort sem það hefur nú verið vilji fyrir því eða ekki. En mér er kunnugt um, að einhverjar umræður hafa orðið um það, t. d. meðal verzlunarstéttarinnar, að þetta væri rétt að gera, en það hefur þó aldrei komizt í framkvæmd. Um þetta eru, að því er ég bezt veit, engar reglur til eins og er. Það var til reglugerð. Hún var frá árinu 1939 og var byggð á l. frá 1937. En samkv. l. um fjárhagsráð, nr. 70 frá 1947, voru að vísu settar reglur um verðmerkingu vara, en þær reglur náðu einungis til þess varnings, sem hámarksverð var á. M. ö. o., þegar nú hefur verið fellt niður hámarksverð á miklum hluta af þeim varningi, sem til sölu er í verzlunum, þá gilda ekki þau ákvæði um verðmerkingu, sem voru í þeim reglugerðum, sem til voru samkv. þessum l. nr. 70 frá 1947, og er því full ástæða til þess, að sett verði slík reglugerð nú að nýju. En ég er ekki í nokkrum vafa um það, að í l. um fjárhagsráð er fullkomin heimild til þess að setja slíka reglugerð, og þess vegna taldi ég ekki, að þetta ætti heima sem lagafrv., aðeins sem áminning til hæstv. ríkisstj. um að setja reglugerð sem þessa.

Ég teldi að því mikið hagræði fyrir almenning og fyrir verzlunarfólk, ef þetta yrði regla, að vörur væru verðmerktar. Og í raun og veru, þó að till. gangi nú ekki lengra en svo, að talað sé um búðarglugga eða sýningarkassa eða á annan hátt, þar sem vörur eru til sölu, þá álít ég, að vörur ættu að vera verðmerktar svo víða eða á svo mörgum stöðum í verzlunum sem mögulegt er, þannig að fólk, þegar það kemur inn í verzlun, jafnt og þegar það athugar varning í búðargluggum, viti ævinlega, hvert verð er á þeim, án þess að gera um það fyrirspurnir til verzlunarfólksins. En þetta á þó alveg sérstaklega við um búðarglugga. Það er bara vegna þess, að þegar maður er á gangi um götu og sér hlut í búðarglugga, sem mann kannske langar til að eignast, þá er það önnur hliðin á því máli, hvað hluturinn kostar. Og það verður til þess, að ef verðið er þannig, að maður vill greiða það, þá fer maður að athuga nánar, hvort hluturinn er nothæfur. En ef hluturinn er á því verði, að maður ekki vilji greiða fyrir hann það, sem upp er sett, þá er það látið eiga sig. Enn fremur eru verðmerkingar ákaflega nauðsynlegar sökum þess, að nú er mjög misjafnt verð á vörum og það á algerlega sams konar varningi. Þetta gæti orðið til þess, að þeir, sem hafa ódýrar vörur á boðstólum, sem eru fullkomlega hliðstæðar við aðrar dýrari á öðrum stöðum, alveg án þess að hafa annað fyrir því, en að verðmerkja vörurnar greinilega og setja þær út í gluggana fái til sín verzlunina, sem og réttmætt er. Ég held þess vegna, að þessi litla þáltill. geti orðið til mikils hagræðis. Ég álít, að hún sé ekki einasta til hagræðis fyrir allan almenning, heldur líka fyrir verzlunarfólkið, sem þegar mikið er að gera getur ekki staðið í því að vera að svara því með hvern hlut, hvað hann kosti, í staðinn fyrir að vísa aðeins til verðmerkingarinnar.

Það tíðkast alls staðar erlendis eða víðast hvar, þar sem ég hef séð, að vörur séu verðmerktar, ekki einasta þar sem þær eru látnar til sýningar í búðargluggum og þess háttar, heldur inni í verzlunarhúsunum sjálfum. Það eru náttúrlega miklu stærri verzlunarhús þar víða, en hér gerist, en maður gengur þar bara um og veit strax á augnablikinu, hvort verðið er þannig, að maður vilji hafa viðskipti á þessum stað.

Ég held, að það geti engin andstaða orðið gegn till. sem þessari, hún sé svo sjálfsögð. Ég legg það undir vald hæstv. forseta, hvort hann álítur rétt að fresta umr. og vísa till. til n. Ég álit það ekki nauðsynlegt, en mun beygja mig algerlega fyrir vilja hæstv. forseta um það mál.