15.10.1952
Sameinað þing: 5. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 33 í D-deild Alþingistíðinda. (2373)

14. mál, mannréttindi og mannfrelsi

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Till. sams konar að efni og þessi var lögð fyrir síðasta Alþingi, en var þá ekki útrædd. Ég orða það svo, að segja sams konar að efni, vegna þess að orðalaginu á samningnum, sem hér fylgir með sem fylgiskjal og er þáttur í till., hefur verið breytt að þessu sinni. Eins og menn vita, þá er oft erfitt að þýða slík skjöl, sem eru sérstaks efnis, fræðilegs, finna yfir það hin réttu heiti og nógu lipurt mál á íslenzkri tungu. Okkur var það ljóst þegar í upphafi, að samningurinn var ekki nógu lipurt þýddur. Þess vegna var þýðingin endurskoðuð og nú reynt að koma þessu í betra horf. Hvort svo hefur tekizt, er auðvitað alltaf álitamál, það er smekksatriði, sem erfitt er um að dæma, en mér sýnist þó, að þetta sé sýnu liprara nú, en þá var.

En efnið á auðvitað að vera alveg óbreytt frá því, sem þá var, og það er það, sem mestu máli skiptir. Ég gerði þá stuttlega grein fyrir þessu máli. Hér er um að ræða samning á milli þeirra þjóða, sem taka þátt í svo kölluðu Evrópuráði, um verndun mannréttinda og mannfrelsis. Fyrir okkur Íslendinga eru í sjálfu sér lítil nýmæli í þessu á þann veg, að efnisákvæðin um réttarvernd einstaklinganna eru yfirleitt öll nú þegar í íslenzkum lögum. Það kann að vera nokkuð öðruvísi til h áttað í einstöku atriðum, en yfirleitt má segja, að þær réttarhugmyndir, sem fram koma í þessum samningi, séu sameiginleg arfleifð hinna frjálsu vestrænu þjóða, þar með talinna Íslendinga, og er það auðvitað alveg gagnstætt því, sem er um þær þjóðir, sem háðar eru einræði og kúgun, hvers eðlis sem er, sem því miður eru allt of margar í heiminum, eins og við vitum. — Hitt er nýtt, að gert er ráð fyrir sérstökum alþjóðlegum dómstóli, sem geti með vissum nánar tilteknum skilyrðum kveðið upp dóm, ef sá réttur er brotinn, sem hér er veittur.

Það er enginn vafi á því, að þessi samningur er merkilegur ávöxtur samstarfs hinna frjálsu lýðræðisþjóða í Evrópu, og þess vegna ber því að fagna, að menn hafa komið sér saman um hann. Það eru ekki enn þá nema tiltölulega fáar þjóðir, sem hafa staðfest samninginn á þann veg, sem ætlunin er að fá nú heimild til að Íslendingar geri, en þær munu þó vera einar þrjár eða fjórar, og finnst mér sjálfsagt að fá á þessu þingi heimild til staðfestingar af hálfu Íslands, svo að Ísland verði ekki eftirbátur annarra um samþykki sitt á þessari frelsisskrá, slíkri frelsisskrá, sem er einn gleggsti munurinn á þeim ríkjum, þar sem segja má, að fólkið lifi frjálsu mannsæmandi lífi, og hinum, þar sem kúgun og ofbeldi á sér stað.