14.01.1953
Sameinað þing: 28. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 45 í D-deild Alþingistíðinda. (2386)

157. mál, smíði fiskibáta innanlands

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Ég hef flutt á þessu þingi frv. til l. um niðurfellingu á öllum tollum og sköttum, sem nú verður að borga af efni til skipa, sem smíðuð eru innanlands. — Samkvæmt skýrslum og upplýsingum frá Fiskifélagi Íslands er það augljóst mál, að hver sá, sem kaupir fiskibát, 60 tonn að stærð, smíðaðan í íslenzkri skipasmíðastöð, verður að borga a. m. k. 70 þús. kr. í tolla og skatta í sambandi við efni til slíks báts. Hins vegar er skip, sem keypt er utanlands frá, flutt inn tollfrjálst. Það er samkvæmt l. heimilt að taka 2% toll af slíku skipi, en það hefur í framkvæmdinni alltaf verið fellt niður. Hins vegar hefur ekkert verið eftir gefið af þeim lögboðnu tollum og sköttum, sem greiða ber af efni til fiskibáta, smíðaðra í innlendum skipasmíðastöðvum. Þetta virðist vera ákaflega óheppilegt lagaákvæði, fyrirgreiðsla fyrir því, að skipin, sem við þurfum að nota við okkar fiskveiðar, séu byggð erlendis, vinnan, sem við það gæti fallið innlendum mönnum í skaut, verður vinna fyrir útlendinga, og almennt er álitið, að með þessu háttalagi sé að því stuðlað, að við fáum ekki eins vönduð og góð skip, miðað við íslenzk skilyrði, eins og við fengjum, ef við styddum að því með löggjafarákvæðum m. a., að okkar fiskibátar væru smíðaðir innanlands. Því ber að fagna, að þetta frv. mitt fékk góðar undirtektir, þegar það var lagt hér fram tiltölulega snemma á þessu þingi. En mér þykir því því miður — seinka í n. og vildi nú vænta, að Alþ. sæi þörf á því, að greitt yrði fyrir skipasmíðum innanlands með því að samþ. það frv. í einhverri mynd, með þeim breyt. þá, sem hv. Alþ. kynni að telja nauðsynlegt að á því yrðu gerðar. Þar með væri veitt aðstoð til innlenda skipasmíðaiðnaðarins, sem gæti létt 70–80 þús. kr. óþarfri byrði af bátum, sem smíðaðir væru hér innanlands. Að vísu mundi það kosta íslenzkan ríkissjóð nokkra fórn, en ég hygg, að sú fórn mundi borga sig í auknu starfi innanlands og þannig, að betur væri séð fyrir miklu nauðsynjamáli, sem er viðhald fiskibátaflotans, heldur en nú er gert.

Ég þarf því naumast að taka það fram, að ég væri mjög ánægður með það, ef þáltill. hv. þm. Siglf. (ÁkJ) á þskj. 257 um smíði 10 fiskibáta innanlands yrði samþ., helzt óbreytt. Mér er að vísu ljóst, að ef menn sæju það, að ekki væru möguleikar til þess að smíða þessa tölu fiskibáta, þá erum við engu bættari með því, þó að stærri orð séu um höfð í ályktunartill. frá hv. Alþ. Og hefðu menn gert sér það ljóst, að möguleikarnir væru ekki svona stórfelldir, heldur einhverjir minni, þá hefði ég fyllilega að framkomnum rökum þar um getað sætt mig við breyt. á till. í þá átt, að hún væri sem allra líklegust til að geta orðið að raunveruleika — komizt í framkvæmd.

Ég tel það og mjög nauðsynlegt, að gerðar væru af ríkisstj. ráðstafanir til að greiða fyrir lánveitingum til stofnlána út á slíka báta, sem smíðaðir væru innanlands, en um það fjallar síðari hluti þessarar þáltill., sem hér er til umr. — Nú heyrði ég meginhluta af ræðu frsm. hv. allshn. og hefði gjarnan viljað halda þá ræðu sjálfur. Ég heyrði ekki betur, en hann undirstrikaði af glöggum skilningi og staðgóðri þekkingu öll þeim meginatriði, sem blasa við í þessu máli, að fiskibátafloti okkar er að ganga úr sér, það eru engin skilyrði, eins og nú standa sakir, til þess, að skipasmíðaiðnaðurinn rísi við aftur, og það er staðreynd, að það hafa ekki verið smíðaðir fiskibátar í innlendum skipasmíðastöðvum nú síðast liðin ár og gengið með mestu hörmungum að fá leyfi til þess að bæta í skörðin fyrir þá báta, sem hafa tapazt með einum og öðrum hætti, með því að sækja um innflutning á þeim frá útlöndum, sem þó er að mínu áliti mikið neyðarúrræði.

Nú sé ég, að hv. n. hefur mjög haft vaðið fyrir neðan sig, áreiðanlega viljað sýna þessu þýðingarmikla máli velvild, en þá ekki viljað þrengja um of að hæstv. ríkisstj. um að binda hana skyldu í þessu máli á þann veg, að hún hlyti á næsta ári að gera betur fyrir þetta mál, en nú hefur verið gert. Því að nú flytur hv. n. brtt. við þessa þáltill., sem ég hef gert grein fyrir að efni til, og vill nú aðeins, að samþ. sé að skora á ríkisstj. að láta athuga, hve mikið vélbátaflotinn hafi rýrnað á síðustu þremur árum. Þetta hygg ég að þurfi ekki að fela hæstv. ríkisstj. Ef hún hefur af alvöru hugleitt þetta mál, þá hlýtur hún að geta fengið hjá Fiskifélagi Íslands skýrslur, sem eru þar til og mér er kunnugt um að eru þar til, um það, hve mikið vélbátaflotinn íslenzki hefur rýrnað á síðustu árum. Það hafa ekki verið smíðuð mér vitanlega á síðustu þremur árum nema eitt eða tvö innlend skip, sem eru skrásetningarskyld, í íslenzkum skipasmíðastöðvum. Hins vegar eru skýrslur um það, hve stórt skarðið er á síðustu þremur árum, hve mörg skip hafa farið og farizt, brunnið og sokkið o. s. frv. og orðið ónýt. Og þetta skarð hefur ekki verið bætt með innlendum bátum nema að því er snertir tvö, þrjú skip. Og svo er aftur að draga frá þessari tölu þá báta, sem hv. fjárhagsráð hefur rausnazt til að veita innflutningsleyfi fyrir, og þannig liggur dæmið upp sett. Það er stórkostlegt skarð orðið í íslenzka vélbátaflotann á undanförnum þremur árum. Og skýrslurnar liggja fyrir hjá Fiskifélagi Íslands, það fullyrði ég. Ég tel því, að það sé búið að þynna það mikið út þessa þáltill. með fyrri hluta brtt., að mér finnst það allt of langt gengið og þetta form og innihald till. ekki samrýmast þeim glögga skilningi, sem hv. frsm. n. sýndi í ræðu sinni að hann hefur á þessu alvarlega máli fyrir atvinnulíf þjóðarinnar, fyrir aðalundirstöðuatvinnuveg þjóðarinnar, sjávarútveginn.

Einnig vill hv. n., að ríkisstj. verði falið að athuga möguleika á smíði vélbáta í íslenzkum skipasmíðastöðvum. Möguleikarnir eru alveg augljósir. Það eru til enn þá, sem betur fer, menn tengdir skipasmíðastöðvunum, sem hafa verklega þekkingu til að smíða fyrsta flokks fiskibáta fyrir Íslendinga. En það getur farið svo á næstu árum, að þessi fagþekking verði ekki fyrir hendi, og það kom hv. frsm. n. einmitt inn á. Skipasmíðastöðvunum er ekki fært að taka nemendur í skipasmíðum, meðan ekkert nýsmíði í skipasmiðum er mögulegt. Það er ekki hægt að taka nemendur upp á það, að þeir eigi eingöngu að vinna að viðgerðum meira og minna smávægilegum við gamla báta. Og sérþekkingunni, sem við nú höfum, fer nú hrakandi frá ári til árs. Þetta líta skipasmiðirnir í landinu á sem mjög alvarlegt ástand í iðninni. Það gæti því farið svo eftir nokkur ár, að við hefðum ekki þá sérþekkingu innanlands, sem okkur er lífsnauðsyn að hafa til þess að smíða hér traust og vönduð fiskiskip, og er illa farið, ef við glötum þeirri þekkingu fyrir það, að meira sé gert til þess að greiða fyrir aðflutningi skipa erlendis frá, en að þau séu fengin hér innanlands. Svo er það annað, að skipasmíðastöðvarnar hafa mjög mikla erfiðleika við að halda sínum skipasmiðum í sinni þjónustu, þegar þeir eiga ekki kost á nema hraflvinnu, meira og minna óstöðugri, þar sem hún er eingöngu háð þeim viðgerðum, sem þurfa einkanlega að fara fram í sambandi við vertíðaskipti á flotanum honum til nauðsynlegasta viðhalds. Og þá hverfa skipasmiðirnir, einmitt þeir beztu þeirra, margir að öðrum smiðum. Þeir eru nú austur við Sog. Þeir eru á Keflavíkurflugvelli. Og sú nauðsyn, sem þar þarf að vissu leyti að leysa í byggingarstarfsemi, er látin sitja í fyrirrúmi fyrir byggingu íslenzkra fiskiskipa, og það tel ég að fara öfugt að hlutunum og að hæstv. ríkisstj. megi ekki snúa sínu blinda auga að slíkri þróun.

Ég held, að það þurfi ekki langrar rannsóknar við til þess að komast að niðurstöðu um möguleika á smíði vélbáta í íslenzkum skipasmíðastöðvum. Fagþekkingin er ekki enn þá týnd, en hún er að týnast smátt og smátt, og skipasmíðastöðvarnar eru fyrir hendi, skortir verkefni og hafa öll tæki til þessara hluta. Við höfum haft samanburð á smíði innlendra og erlendra báta á undanförnum árum og áratugum og vitum, að íslenzkur skipasmíðaiðnaður er fyllilega samkeppnisfær við erlendan í nágrannalöndunum. Við höfum fengið sænska báta og danska báta og fylgzt með smíði báta, sem byggðir hafa verið fyrir Íslendinga í þessum löndum, einnig í Noregi, og vitum, að þessir bátar eru hvorki betri né traustari og smíði þeirra gengur heldur ekkert fyrr í þessum löndum, en hjá okkur. Og mér finnst þess vegna, að hv. n. hafi gert allt of mikið að því, jafnstaðgóða þekkingu og ég heyrði að n. hefur á þessu alvarlega máli, sem þróast nú í alveg öfuga átt viti það, sem þróunin þarf að vera og verða, — mér finnst hún hafa lagt allt of mikið á sig; til þess að tálga utan af þessari till., sem hér liggur fyrir og var sjálfsagt að samþykkja, að mínu áliti, með þeirri breyt. einni að miða töluna, sem til væri tekin í till., við þá tölu báta, sem öruggt mætti telja að hægt væri að koma fyrir nú þegar eða alveg á næstunni til smíða í þeim skipasmíðastöðvum sem eru reyndar að því að smíða vel íslenzka fiskibáta og vantar nú verkefni, og gera þannig raunhæfar ráðstafanir til að fylla það skarð, sem þegar er orðið og virðist ætla að verða enn þá stærra og ófyllt á næstunni. Ég vil því láta í ljós óánægju mína yfir því, að hv. n. skuli hafa þynnt svo mjög út efni þessarar till. sem raun er á orðin þrátt fyrir glöggan skilning á mikilvægi málsins. Ég held nærri því, að það væri nauðsynlegt að benda hæstv. ríkisstj. miklu ákveðnar og fastar á en í brtt. felst, að hér sé nauðsyn raunhæfra aðgerða til þess að vekja íslenzkan skipasmíðaiðnað aftur til lífsins og gera honum mögulegt að starfa í þjónustu sjávarútvegsins.