14.01.1953
Sameinað þing: 28. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 51 í D-deild Alþingistíðinda. (2391)

157. mál, smíði fiskibáta innanlands

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Ég vil segja það fyrst um fram komna brtt., að það liggur nú náttúrlega í augum uppi, að ef ekki yrði fært að leysa hina brýnu þörf fyrir fiskibáta með aukinni nýsmíði í íslenzkum skipasmíðastöðvum, þá yrði auðvitað að gera það með innflutningi. En að svo miklu leyti sem málið hefur verið leyst, þá hefur það verið gert með innflutningi. Mér finnst þess vegna ekki nein þörf sérstakrar ábendingar um það, nema þetta ætti að vera vinsamleg áminning til fjárhagsráðs um að greiða betur fyrir þeim möguleika í lausn málsins, en það hafi gert hingað til, og má vel vera, að það sé ætlunin með till. einmitt frá fjárhagsráðsmanni.

Hv. þm. N-Þ. taldi, að ég hefði kveðið of fast að orði, þegar ég sagði, að íslenzkur skipasmíðaiðnaður væri samkeppnisfær við erlendan skipasmíðaiðnað að því er vélbátasmíði snerti. Þó tók hann strax fram, að hann viðurkenndi, að íslenzkur skipasmíðaiðnaður væri samkeppnisfær við erlendan að því er styrkleika og gæði slíkra báta snerti, og það held ég að séu nú langstærstu atriði þessa máls. M. ö. o., í meginatriðum viðurkennir hann, að það sé rétt, að við séum samkeppnisfærir við útlendinga á þessu sviði. En þá er það verðlagið. Það er alveg rétt; víst er það nokkuð þýðingarmikið atriði, og það verður mjög á það að líta, að vélbátaútvegurinn berst í bökkum og á jafnvel við neyðarástand að stríða fjárhagslega. En ég held, að þar sem kunnátta og vinnubrögð í íslenzkum skipasmíðastöðvum standa sízt að baki vinnubrögðum í sams konar stöðvum erlendis, þá sé ekki mismunandi verðlag innanlands og utan öðru að kenna en því, að svo hefur verið haldið á stjórnarháttum í þessu landi, að allt verðlag er hér hærra, en í nágrannalöndunum. En væri hér sams konar verðlag og í Noregi, Svíþjóð og Danmörku, þá er alveg áreiðanlegt, að íslenzkur skipaiðnaður væri einnig að því er verð snertir samkeppnisfær við skipasmíðar í þessum löndum. Og þá er að athuga, hvort hægt sé að gera ráðstafanir, að því er þennan merkilega undirstöðuiðnað sjávarútvegsins snertir, til þess að gera hann samkeppnisfæran við erlendan að því er verðlaginu viðkemur.

Ég tel, að það sé hægt að stíga stórt spor að minnsta kosti í þá átt með því að samþ. frv. sem færi í þá átt, sem ég hef lagt til með mínu frv., að fella niður tolla og skatta af öllu efni og vélum til þeirra báta, sem smíðaðir væru í íslenzkum skipasmíðastöðvum. Það mundi alltaf nema rúmum 1.000, ef ekki 1.100 kr. á tonn, eins og reiknað hefur verið út af Fiskifélagi Íslands að þessir tollar og skattar nemi. Það fer nokkuð langt til þess að brúa það bil, sem er á kostnaðarmismuninum. Spurningin er svo, hvort ríkið gæti veitt aðra aðstoð til að gera þann mismun, sem þá er eftir, svo smávægilegan, að menn vildu heldur fá þessa vinnu unna innanlands og þá öllu traustari og betri skip í staðinn, úr því að það er viðurkennt. Þess ber líka að gæta, að það hefur fjárhagslega þýðingu að endurvekja starfsemina í innlendu skipasmiðastöðvunum. Þar verða tugir manna betri skattborgarar til ríkisins og betri skattborgarar við sitt sveitarfélag, og það nemur ekkert smáum upphæðum, sem þar er um að ræða. Það er á fleira að líta, en eingöngu kostnaðarmismuninn á tonn, og er vel hugsanlegt, að velviljuð ríkisstj. gæti veitt aðstoð, sem gerði það að verkum, að einnig kostnaðarhliðin við smíði innlendra báta gæti orðið fyllilega samkeppnisfær. Það er fyrst og fremst hlutverk stjórnarvaldanna í þessu máli að athuga þessa hlið málsins, því að allt annað tel ég liggja augljóslega skjalfest með skýrslum, bæði um hvað skarðið er stórt og hvaða möguleikar eru fyrir smíði innlendra báta. Það er eingöngu þetta, sem er verkefni stjórnarvaldanna að ráða fram úr, og það held ég að hljóti að vera gerlegt með góðum vilja.

Hv. frsm. allshn. viðurkenndi, að það væri nokkru vægara að orði kveðið í till. sjálfri, eins og n. leggur til að hún verði orðuð, heldur en hann gerði í sinni framsögu og það gæti réttlætzt af því, að þeir hefðu í n. skírskotað til skilnings hæstv. ríkisstj. í þessu máli. En mér finnst, að hún hafi til þessa sýnt fremur daufan skilning á málinu, þar sem hún hefur ekki beitt sér fyrir neinum aðgerðum því til lausnar. Hins vegar má ve1 vera, að hv. n. hafi sérstaka ástæðu til að treysta, að þarna sé glöggum skilningi að mæta, og það ætti virkilega að vera glöggum skilningi að mæta hjá hvaða ríkisstjórn sem er í slíku stórmáli sem þessu. Ég verð því að vona, að hinn glöggi skilningur og hinn mikli vilji, sem hv. n. miðar sitt væga orðalag í brtt. við, verði henni ekki til skammar, þegar til framkvæmda kemur.