21.01.1953
Sameinað þing: 31. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 56 í D-deild Alþingistíðinda. (2404)

206. mál, Norðurlandaráð

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Sú till. til þál., sem hér liggur fyrir á þskj. 544, er flutt af meiri hl. utanrmn. Þar sem fulltrúi Sósfl. í utanrmn. var veikur þann dag, sem n. tók fyrir, hvort flytja ætti þessa till., og ég mætti þar sem varamaður og var á móti því að orða þessa till. á þennan hátt, þá ætla ég nú að leyfa mér að gera nokkra grein fyrir því, hvað hér er á ferðinni með þeirri till., sem meiri hl. utanrmn. hér flytur.

Í fyrsta lagi mun ég ræða form þessara kosninga, sem hér eiga að fara fram. Það er lagt til, að þegar Alþingi Íslendinga á að kjósa fimm menn í Norðurlandaráð, þá skuli Ed. kjósa tvo fulltrúa og Nd. þrjá. Í fyrsta lagi er lagt til í fyrsta skipti, að sá kosningaháttur sé viðhafður á Alþ., þegar kosnir eru fulltrúar fyrir Alþ. í heild, að hvor d. um sig kjósi fulltrúa. Það hefur aldrei þekkzt áður í sögu Alþ. Í öðru lagi er lagt til, að þegar kosnir séu fulltrúar, þá skuli þeir raunverulega kosnir að meiri hl. á þinginu í hvorri d. fyrir sig, m. ö. o. hlutfallskosning skuli afnumin. M. ö. o., í fyrsta lagi er hlutfallskosningu útrýmt úr Sþ. í þessu máli, þar sem það eðlilega eftir öllum venjum Alþ. ætti að fara fram. — Í öðru lagi er ákveðið, að kosning skuli fara fram í tveim deildum og án þess að þar sé einu sinni viðhöfð hlutfallskosning. Ég veit ekki, hvort þessi kosningaháttur, sem hér er lagður til, er tilkynning Sjálfstfl., Framsfl. og Alþfl. um, hvers konar kosningaaðferðir það séu, sem þessir flokkar óska eftir á Íslandi. Það hafa heyrzt úr flokkum ríkisstj. nokkrar óskir um það, að það yrði farið að útrýma hlutfallskosningum í fyrsta lagi við kosningar til Alþ. Hér virðist eiga að gera eina fyrstu tilraunina í því efni að tryggja meiri hl. allt vald. Og Alþfl. gengur inn á þetta, eins og til þess að gefa íhaldinu eða Framsókn ádrátt um, að það sé óhætt að fara t. d. út í einmenningskjördæmi og afnema hlutfallskosningu, það sé einmitt það, sem nú sé verið að byrja á, á Alþ. Á mjóum þvengjum læra hundarnir að stela. Og ef byrjað er að svipta minni hl. sínum rétti hér á Alþ., þá er hægur vandi að halda því áfram, þegar kemur út til fólksins.

Við skulum alveg gera okkur það ljóst og tala um það fullkomlega hreinskilnislega, hver ástæðan er til þess, að þessi till. er fram borin. Það er ekki af sérstakri löngun til þess að lýsa því yfir, að það sé „princip“ þessara flokka að afnema hlutfallskosningar. Ég býst við, að þeir séu of klókir til þess að byrja á því á þennan hátt. Það er gert í alveg ákveðnum tilgangi. Það er gert í þeim tilgangi að útiloka stjórnarandstöðuna og þá fyrst og fremst Sósfl. frá því að hafa fulltrúa í ráði, sem hann hefur þinglega og þjóðlega styrk til þess að hafa. Það er gert til þess að útiloka stjórnarandstöðuna frá því að hafa fulltrúa í ráðinu að svo miklu leyti sem hún hefur styrk til þess, en gera stjórnarandstöðunni, að svo miklu leyti sem ríkisstj. kynni að hafa velþóknun á henni, fært að koma biðjandi til ríkisstj. og betlandi um sinn rétt. Og það mun nú meiningin, þegar Alþfl. stendur með því að flytja þessa till., að hann muni eins og við sumar aðrar kosningar hér á Alþ. hafa beðið stjórnarflokkana um að fá að hafa fulltrúa, enda skuli hann þá hjálpa þeim til að innleiða rangláta kosningu á Alþ., sem geti verið síðan góð fyrirmynd fyrir stjórnarflokkana við ranglátar kosningaaðferðir hjá þjóðinni. M. ö. o., hér er þrennt að gerast: Í fyrsta lagi, að það er verið að taka upp aðferð á Alþ., sem var útrýmt fyrir mörgum áratugum við kosningar, og verið að gefa þannig fyrirmynd fyrir, hvernig megi haga kjöri til þings. Og það er í öðru lagi verið að grípa til alveg sérstakra aðgerða á Alþ. til þess að útiloka stjórnarandstöðuna, að svo miklu leyti sem ríkisstj. ekki hefur velþóknun á henni, frá þeim rétti, sem hún annars á. Og ég mun nú koma nánar inn á það, hvers vegna stjórnarflokkarnir og hæstv. ríkisstj. gerir nú þessa undarlegu tilraun til þess að útiloka Sósfl. frá því að geta átt fulltrúa í Norðurlandaráðinu og brýtur þannig í bág við allan þann tilgang, sem vakti fyrir þeim mönnum, sem ákváðu að stofna þetta Norðurlandaráð.

Sósfl. hefur, frá því að það kom yfirleitt til nokkurrar umr., hvort Ísland ætti að halda áfram samstarfi við Norðurlönd, verið eindregið því fylgjandi. Samstaða og samstarf við Norðurlönd hefur okkur Íslendingum verið svo sjálfsagður hlutur, að við höfum lengst af ekki þurft að ræða þann hlut. Það var ekki fyrr, en á þeim árum, sem við vorum að undirbúa lýðveldisstofnunina, að það kom fram í vissum blöðum Sjálfstfl., að við þyrftum ekki lengur að hirða um frændsemisböndin við Norðurlönd, okkur stæði leiðin opin til vesturs, þar væri okkar beðið með opnum örmum. Og það var ekki sízt blað núverandi hæstv. menntmrh. og viðskmrh., sem kvað upp úr með það að skera á þau tengsl.

Einmitt sú n., sem hér í hv. Sþ. hafði með að gera skilnað við Danmörku, áleit það skyldu sína að taka það skýrt og skorinort fram, þegar sá skilnaður var framkvæmdur, að við vildum halda áfram norrænni samvinnu. Ég átti ásamt öðrum hv. þm. Sósfl. sæti í þeirri n., og við fluttum allir saman, n. sem heild, svo hljóðandi þáltill., sem var samþ. einróma í marz 1944, með leyfi hæstv. forseta:

„Um leið og Alþ. gerir ráðstafanir til þess, að aldagömul frelsishugsjón þjóðarinnar um stofnun íslenzks lýðveldis rætist, ályktar þingið að senda hinum Norðurlandaþjóðunum bróðurkveðjur og óska þeim frelsis og farsældar og að lýsa yfir því, að það telur sjálfsagt, að íslenzka þjóðin kappkosti að halda hinum fornu frændsemi- og menningarböndum, er tengt hafa saman þjóðir Norðurlanda, enda er það vilji Íslendinga að eiga þátt í norrænni samvinnu að ófriði loknum.“

Allir flokkar á Alþ. hafa tekið af allan efa um það, að þeir vilji viðhalda og efla norræna samvinnu, og ég hirði ekki hér að fara að rekja nánar þá sögu. Hún er öllum hv. þm. kunn. En ég mun nú hverfa að því að athuga sögu þessa máls, sem hér liggur fyrir.

Ég var einn af fulltrúum Alþ. á þeim fundi í norræna þingmannasambandinu í Stokkhólmi, sem undirbjó ákvarðanirnar um Norðurlandaráð í ágúst 1951. Ég var eins og aðrir fulltrúar Alþ. sammála því, að það gæti verið spor áfram til frekara menningarlegs, efnahagslegs, yfirleitt alhliða samstarfs Norðurlanda að stofnsetja Norðurlandaráðið. Ég hef alltaf álitið, að ekki sízt gagnvart þeirri hættu, sem yfir Íslandi vofir nú menningarlega séð frá þeirri ómenningu og spillingu, sem ameríska hernámið veldur hér á Íslandi, þá gæti það verið okkur stoð og stytta að tengja böndin nánar við þjóðirnar á Norðurlöndum. Ég hef átt tal við marga þm. frá öllum þingum Norðurlanda, ekki sízt Danmörku, um þetta vandamál, og ég hef mætt skilningi hjá flestum þessara þm. á okkar aðstöðu. Ég hef sagt við þá, ekki sízt á fundi norræna þingmannasambandsins í Stokkhólmi 1951, að hafi Ísland nokkurn tíma gert Norðurlöndum greiða, svo að vægt orð sé viðhaft, sem ef til vill væri endurgjalda verður, hafi Ísland einhvern tíma gefið Norðurlöndum menningu og menningararf, sem þau geta verið stolt af, þá þurfi Ísland nú á því að halda, að Norðurlöndin muni það, þá þurfi Ísland nú á því að halda, að Norðurlandaþjóðirnar sýni það, að þær vilji styðja Ísland, standa með Íslandi í þeirri erfiðu baráttu, sem okkar þjóð á í fyrir sinni menningu, fyrir sinni arfleifð, gagnvart því flóði frá amerísku ómenningunni, sem nú flæðir hérna yfir. Ég hef aldrei ætlazt til þess, að Norðurlönd gætu stutt okkur í þeirri pólitísku frelsisbaráttu, sem við hér verðum að heyja. Það erum við einir, sem verðum að gera það. En hitt er öllum ljóst, að þótt okkar þjóð hafi á undanförnum þúsund árum staðizt tvær öldur erlendrar menningar, sem yfir Norðurlönd hefur skolað, þeirrar latnesku fyrr á tímum, á dögum kirkjuvaldsins, og þeirrar þýzku, sem breytti tungum annarra Norðurlanda en okkar, á 15. öld, þá er hættan af þeirri þriðju öldu, sem nú skolar yfir okkur, þeirri engilsaxnesku, meiri fyrir okkur Íslendinga, en nokkur menningarleg hætta, sem áður hefur yfir okkur dunið, vegna þess að tæknin, sem sú menning hefur til að bera í sínum áróðri, með kvikmyndum, útvarpi og öðru, og sakir þeirrar nálægðar, sem hún nú er komin í við okkur, þá er okkar þjóðerni og okkar þjóðmenning í meiri hættu, en nokkru sinni fyrr. Og það er í því að vernda hana, sem einu sinni gaf Norðurlöndum svo mikið, sem við hefðum vissulega þurft samstarf.

Þess vegna stóð Sósfl. með því, að til Norðurlandaráðsins yrði stofnað, í þeirri trú, að það væri hlutverk þessa ráðs að efla efnahagslega og andlega velferð Norðurlandaþjóðanna, styðja þeirra samvinnu, gera þær sterkari með því, að þær geti staðið saman.

Ég varð var við það, þegar þetta mál var tekið til umr. og ályktana á þingmannafundi í þingmannasambandi Norðurlanda hér í þessum sal, að þá væri lítill áhugi hjá stjórnarflokkunum fyrir stofnun Norðurlandaráðs. Ég býst við, að ég þurfi ekki annað, en vitna til minnis hv. þm. um þann þingmannafund, sem ákvað að undirbúa þessa þátttöku. Það var samþ. á þeim þingmannafundi með tæpum helmingi atkv. þm. að taka þátt í þessu. Allmargir voru á móti og allmargir sátu hjá. Og hverjir voru mennirnir, sem greiddu atkv. með því, að Ísland tæki þátt í og undirbyggi stofnun Norðurlandaráðs? Það voru allir þm. Sósfl., allir þm. Alþfl. og — ef ég man rétt — líklega 8 eða 9 af fylgismönnum ríkisstj. Það var Sósfl., sem reið baggamuninn um, að ákveðið var á þeim þingmannafundi í hinni íslenzku deild úr þingmannasambandi Norðurlanda að undirbúa að taka þátt í þessu. Andúðin, bæði innan ríkisstj. og innan stjórnarliðsins, var auðsæ og það mikil, að Sósfl., ef hann hefði ekki verið eins fylgjandi norrænni samvinnu og hann var, hefði getað fellt þetta mál.

Þetta var áhuginn hjá þeim meiri hl., hjá því stjórnarliði, sem nú ber fram till. um að brjóta allar reglur Alþ. Íslendinga og allar venjur um hlutfallskosningar á Alþ. til þess að útiloka Sósfl. frá því að hafa fulltrúa í Norðurlandaráði, sem hann hefur þinglegan styrkleika til. Þetta var áhuginn þá.

Við sósíalistar unnum í samræmi við þann tilgang, sem yfirlýstur var af hálfu þeirra, sem gengust fyrir því og ræddu um það á þingmannafundinum að stofna þetta ráð. Og það er engum efa bundið, að á þeim þingmannafundi og í öllum þeim skjölum, sem komu frá þeim n., sem í sambandi við hann störfuðu, var það tilgangurinn, að einmitt í Norðurlandaráðinu skyldu hinar ýmsu skoðanir, sem uppi væru í hinum ýmsu löndum í hinum ýmsu flokkum, koma fram. Það var hugmyndin, að Norðurlandaráðið ætti að vera rétt spegilmynd af vilja þjóðanna í þessum löndum, en ekki ráð, þar sem fyrirskipað væri utan frá, hvaða menn fengju leyfi til að sitja þar og hvaða skoðanir fengju leyfi til að koma þar fram. Það átti að byggjast á því frelsi, sem við Norðurlandabúar höfum löngum talið eitt af okkar einkennum og við Íslendingar sérstaklega. Þess vegna mótaðist líka allt, sem rætt var, og allt, sem fram var lagt, af ákvörðununum um, að hinar ýmsu skoðanir skyldu í þessu ráði geta komið fram.

Í starfsreglum Norðurlandaráðsins stendur í 2. gr., þar sem fjallað er um, hverjir eiga sæti í því: „16 fulltrúar fyrir hvort ríkisþing Dana og Svía og fyrir Stórþing Norðmanna, og séu þeir kjörnir úr ýmsum stjórnmálaflokkum af ríkisþingunum og Stórþinginu úr hópi þingmanna, ásamt nægilegri tölu varamanna“. Strax í reglunum sjálfum er gengið út frá því, að það séu hinir ýmsu stjórnmálaflokkar, sem þarna eigi fulltrúa. Í mótívinu í grg., sem ráð þingmannasambands Norðurlanda samdi með starfsreglunum, á bls. 17 — ég hef það því miður aðeins á sænskunni — segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Parlamentens ombud böra utses så, att de representera olika meningsriktningar. Av sårskild betydelse torde det få anses vara, att härigenom öven oppositionspartierna fá tillfölle till aktiva insatser“. Og svo segir: „Man måste kunna rökna med att rådet kan ge ett något sá nör tillförlitligt uttryck åt betraktelsesötten inom olika grupper í parlamenten; rådets ståndpunktstagande í en fråga, som sedermera skall förelöggas parlamenten, bör sålunda kunna giva klar vögledning om hur dessa komma att bedöma den.“

Það þýðir, illa þýtt:

„Fulltrúa þinganna ber að kjósa þannig, að þeir séu fulltrúar fyrir ýmsar mismunandi skoðanir. Sérstakt gildi verður það að álítast hafa, að með þessu fái stjórnarandstaðan einnig tækifæri til að koma virkt fram. Menn verða að geta gengið út frá því, að ráðið gefi nokkurn veginn hugmynd um skoðanirnar í hinum ýmsu flokkum þinganna. Afstaða ráðsins í sérhverju vandamáli, sem síðar kunni að leggjast fyrir þingið. þarf að gefa nokkurn veginn vísbendingar um, hvernig þingið kemur til með að dæma það mál.“

Það er sem sé alveg greinilega gengið út frá því, að fulltrúar stjórnarandstöðunnar og hinar ýmsu skoðanir skuli koma fram í Norðurlandaráðinu og það sé þannig álitið hafa sérstakt gildi fyrir samstarfið í Norðurlandaráði, að allir þeir aðilar, sem hafa aðstöðu til þess að hafa áhrif síðar meir á slíkar gerðir og láta í ljós sínar skoðanir, hafi þarna fulltrúa. Enn þá greinilegar kemur þetta fram í þeim mótívum í þeirri grg., sem gerð er fyrir hverri af einstökum greinum í starfsreglum Norðurlandaráðsins, og það er samkv. einmitt 2. gr., eins og til er vitnað í grg. þessarar þáltill., sem kosið er. Þar segir, í grg. Norðurlandaráðsins fyrir grein nr. 2, með leyfi hæstv. forseta, en það er því miður líka á sænsku:

„Det har ansetts viktigt att fastslå, att ombuden skola representera olika meningsriktningar. Häri ligger icke, att varje parti, oavsett dess styrka, skulle öga anspråk pá representation. Närmast hava vi tånkt oss ett sådant urval, att partierna bliva representerade í förhållande till sin styrka. En direkt föreskrift om uppdelning enligt proportionella grunder hava vi dock ej ansett böra meddelas.“

Á slæmri íslenzku þýðir þetta:

„Við höfum álitið það mikilvægt að ákveða, að mennirnir í ráðinu skuli vera fulltrúar fyrir mismunandi skoðanir. Í þessu felst þó eigi, að hver flokkur án tillits til styrkleika síns eigi kröfu á fulltrúa. Við höfum sem næst hugsað okkur slíkt úrval eða slíka kosningu, að flokkarnir hafi fulltrúa í hlutfalli við sinn styrkleika. Bein fyrirmæli um kjör samkvæmt hlutfallskosningunum höfum við þó ekki álitið að bæri að gera.“

Með öðrum orðum: Í grg. fyrir þessari 2. gr. um, hvernig kjósa skuli, liggur það alveg í orðum þeirra, sem mæla með Norðurlandaráðinu, að hver flokkur skuli eiga kröfu á fulltrúa, þó ekki ef hann er of veikur til að geta komið fulltrúa að. Það skilur hver þm., eins og ég vil vona, þegar sagt er: „Häri ligger icke, att varje parti, oavsett dess styrka, skulle äga anspråk på representation.“ Það þýðir, að sá flokkur, sem hefur styrkleik til þess að hafa fulltrúa, skuli hafa hann. Þeir flokkar, hins vegar, sem ekki hafa styrkleik til þess, eiga sína siðferðislegu kröfu, og þá er spursmálið, hve gott samstarf sé um það að verða við henni. Það er m. ö. o. alveg skýrt og ótvírætt, að af hálfu þeirra manna, sem undirbjuggu og gengu út frá starfsreglum og greinargerð um Norðurlandaráð, var gengið út frá því, að í þessu Norðurlandaráði skyldu hinir ýmsu flokkar og hinar ýmsu skoðanir á Norðurlöndum eiga sína fulltrúa, a. m. k. svo framarlega sem þeir hefðu styrkleika til þess á hverju þingi. Það þarf því ekki að fara í neinar grafgötur um, hvað vakað hefur fyrir þeim mönnum, sem gerðust brautryðjendur Norðurlandaráðsins. Enn þá skýrar kemur þetta fram í því nál., sem prófessor Nils Herlitz, fulltrúi sænsku þingmannanna á fundi þingmannasambands Norðurlanda í Stokkhólmi í þeirri nefnd, sem undirbjó stofnun Norðurlandaráðsins, gaf til nefndarinnar í heild. Prófessor Nils Herlitz, þ. e. aðalmaður ríkisþings Svía við að undirbúa Norðurlandaráðið, segir í þessari greinargerð sinni einmitt í kaflanum um samsetningu ráðsins þessa setningu:

„Väsentligt är givetvis och, att valen reellt, om end ej formelt, äro proportionella.“

Hann segir: „Aðalatriðið er að sjálfsögðu, að kosningarnar í rauninni, þótt máske ekki formlega, séu hlutfallskosningar.“

M. ö. o.: Það er alveg ótvírætt og ómótmælanlegt, að af hálfu allra þeirra, sem hafa undirbúið þetta Norðurlandaráð, var gengið út frá því að skapa þetta Norðurlandaráð til samstarfs hinna ýmsu Norðurlandabúa og þeirra fulltrúa á þeirra þjóðþingum í hlutfalli við þeirra styrkleika og þó helzt þannig, að jafnvel enn fleiri aðilar, enn fleiri flokkar á þingum hefðu fulltrúa í þessum ráðum, en hefðu styrkleika til þess. En lýðræðishugmyndin var Norðurlandabúunum svo í blóð borin, að þeim fannst það sjálfsagt, það þyrfti ekki að tala sérstaklega mikið um það, það væri „givetvis“, eins og prófessor Nils Herlitz segir, að kosningarnar til Norðurlandaráðsins í hverju þingi væru hlutfallskosningar. Það er þess vegna ekki um neitt að efast viðvíkjandi þessum málum, hvað vakað hefur fyrir, hvað verið hefur tilgangurinn og hvað er í anda norrænnar samvinnu.

Nú er hér orðin alger breyting á. Nú koma þeir aðilar, sem upphaflega voru á móti því, að Ísland tæki þátt í stofnun þessa Norðurlandaráðs, — nú koma þeir fyrst og fremst og segja: Stjórnarflokkarnir eða meiri hlutinn skal á hverjum tíma ráða því, hverjir eiga fulltrúa í Norðurlandaráði. Það skulu ekki vera hinar ýmsu skoðanir hinna ýmsu manna, sem eru fulltrúar fyrir svo og svo stóra hluta þjóðarinnar. Nei, meiri hlutinn skal ákveða. Ef til vill þóknast honum að leyfa einhverjum úr einhverjum stjórnarandstöðuflokk, einhverjum manni þar, sem hann hefur velþóknun á í því bili, að fljóta með. En meiri hlutinn skal ráða. Ekkert með hlutfallskosningar, ekkert með fulltrúa fyrir mismunandi skoðanir, ekkert með neitt lýðræði, ekkert með nein norræn prinsip.

Hvernig stendur nú á þessari breytingu? Hvernig stendur nú á þeirri breytingu, að þeir menn, sem 1944 töluðu mest um það, að Ísland gæti skorið á Frændsemisböndin við Norðurlönd og leiðin stæði opin til vesturs, koma nú fram og standa að baki þeirri till., sem hér er flutt? Ég skal upplýsa, hvernig á þessu stendur. Það kom alveg greinilega fram á þeim utanríkismálanefndarfundi, sem haldinn var um málið. Það kom alveg greinilega fram frá fulltrúa meiri hl., að það var ætlazt til þess, að sósíalistar hefðu ekki fulltrúa þar í. Og við þurfum ekki langt að leita til þess að vita, hvaðan þær fyrirskipanir koma. Það er Bandaríkjastjórn, sem hefur blandað sér inn í þetta mál. Það er Bandaríkjastjórn, sem hefur snúið eins og vindhana þeim stjórnarliðum hér á Alþ., sem fyrir meira en ári síðan stóðu á móti því að vera í þessu ráði, þannig að þeir standa nú með því, en á þeim grundvelli, að það skuli vera stjórnarmeirihlutinn einn, sem ræður, hvernig íslenzka þjóðin velur fulltrúa í sameiginlegt ráð Norðurlanda. Það eru komin hér í ljós utan að komandi áhrif, sem hafa haft skoðanaskipti á þeim þingmönnum, sem næmastir eru fyrir hverjum vindi, sem að vestan blæs. Og við þurfum ekki að fara í neinar grafgötur um, hvað það er, sem fyrir þeim aðila vakir, sem nú fyrirskipar þennan hátt um kosningar á Alþingi Íslendinga. Það er sami aðilinn, sem heimtar það af Framsókn og íhaldinu núna, að þeir breyti kjördæmaskipulaginu á Íslandi. Það er sami aðilinn, sem hefur verið að knýja það í gegn á undanförnum árum, að kjördæmaskipulaginu væri breytt þannig í Frakklandi, Ítalíu og hverju landinu á fætur öðru, að lýðræðið væri meira og meira afnumið. Það er sami aðilinn, sem heimtar það, að áhrif verkalýðsins séu með ranglátri kjördæmaskiptingu meira og meira útilokuð úr Alþingi. Það eru áhrif Bandaríkjastjórnar, sem hér koma til greina og sýna sig, þótt í litlu sé, í þessu. En þó að þetta sé aðeins lítið, þá er það auðsjáanlega meira, sem á bak við býr. Það, sem hér er verið að gera, þegar amerísk stjórnarvöld blanda sér inn í og fara að skipta sér af ákvörðunum Íslendinga um þessi mál, er, að þar með er stefnt að því að reyna að fara að hagnýta Norðurlandaráðið sem vettvang fyrir amerísk áhrif á Norðurlöndum. Og af því að Sósíalistaflokkurinn á Íslandi er álitinn, eins og hann er, andstæður amerískum áhrifum hér, þá þykir rétt af stjórnarmeirihlutanum að þóknast sínum amerísku yfirboðurum með því að útiloka Sósfl. úr Norðurlandaráðinu og beita til þess þeim áður óþekktu bolabrögðum um kjör á Alþingi, sem lagt er til með þessari till. M. ö. o., það er verið að breyta þeirri hugsjón, sem fyrir þeim mönnum vakti, sem 1951 ákváðu að stofna Norðurlandaráðið með fulltrúum Norðurlandaþjóðanna og hinna ýmsu skoðana hjá þeim, eftir því sem þær skoðanir og þeir flokkar, sem væru fulltrúar fyrir þær, hefðu styrkleika til. Það er verið að breyta þessu amerískum yfirboðurum í vil til þess að þóknast þeim, til þess að fjarlægja úr þessu ráði okkar Norðurlandabúa þennan litla flokk, sem það volduga ameríska auðvald virðist hafa svo undarlega mikinn beyg af. Okkur hlægir það, að það skuli haft svona mikið við til þess að reyna að bola Sósfl. út úr fulltrúaráði, sem hann á rétt til þess að vera í. Það sýnir okkur, að fjandmenn okkar og íslenzku þjóðarinnar kunna að meta okkur. En okkur þykir það leitt vegna Norðurlandaráðsins og vegna þess, að við stóðum með þessari hugmynd. Og vegna þess að við komum henni í gegn, þegar ameríska afturhaldið hérna á Alþ. hafði fellt hana, þá þykir okkur það leitt, að það skuli takast fyrir þessu ameríska afturhaldi að snúa nú meiri hluta þm. hér á Alþingi Íslendinga á þann hátt, sem nú er gert með þeirri till., sem hér liggur fyrir Norðurlandaráðið átti upphaflega að vera fulltrúi fyrir hinar ýmsu skoðanir á Norðurlöndum. Nú er auðséð, að nú á Norðurlandaráðið eingöngu að hafa þá fulltrúa héðan frá Íslandi, sem standa með Atlantshafsbandalaginu, standa með hernámi Ameríkana á Íslandi og væntanlega, ef ekki fyrir, þá eftir kosningar í sumar, standa með íslenzkum her. Ég býst varla við, að Alþfl. komi til með að láta sitt eftir liggja eftir kosningar til að fara með inn í þá fylkingu og hlýða því, sem Ameríkaninn heimtar. Ég álít, að með þessum aðferðum, sem hér eru hafðar í frammi, sé verið að vega aftan að norrænni samvinnu, sé verið að eyðileggja þá hugsjón, sem vakti fyrir þeim, sem vildu stofna þetta Norðurlandaráð, og gera það þannig úr garði, að það sé hægt að hagnýta það fyrir frekari ameríska yfirdrottnun á Norðurlöndum, en nú þegar er. Og mér þykir leitt, að Alþingi Íslendinga, — ég veit, að þessi till. verður hér samþykkt, ég þekki það vel handjárnin á Atlantshafsflokkunum í þinginu, — mér þykir það leitt, að Alþingi Íslendinga skuli á þennan hátt ljá sig til þess að reka rýtinginn í bak þeirrar norrænn samvinnu, sem stofnað var til með Norðurlandaráðinu.

Við sósíalistar höfum staðið með þessu máli frá því það kom fyrir, og ég segi þetta nú til þess, að þeir þingmenn, sem ef til vill hefur ekki verið fullkomlega ljóst, hvað hér væri að gerast bak við tjöldin, — og býst ég þó við, að flestum sé það ljóst, — fari ekki í neinar grafgötur um, hvað þeir væru að gera og hvernig þeir út á við, á Norðurlöndum og annars staðar í heiminum, væru að spilla fyrir lýðræðislegu samstarfi Norðurlanda með því að samþ. þá till., sem hérna liggur fyrir. Ég vil leyfa mér, til þess að gefa hv. þingmönnum möguleika á því að starfa í samræmi við þær starfsreglur, þá grg. og þann tilgang, sem fyrirhugaður var með stofnun Norðurlandaráðsins, þegar frá því var gengið, — ég vil gefa þeim tækifæri til að greiða atkv. með brtt., sem ég flyt. Hún hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta, að tillgr. orðist svo:

„Alþingi ályktar, að kjósa skuli á hverju reglulegu Alþingi, í fyrsta sinn nú þegar, 5 menn og 5 varamenn í Norðurlandaráð. Skulu þeir kosnir á fundi í Sþ. Fyrir fundinn skulu formenn allra flokkanna leitast við að ná samkomulagi um kosningu þessa, er tryggi, að allir flokkar þingsins eigi fulltrúa í ráðinu. Náist slíkt samkomulag ekki, skal kosið að viðhafðri hlutfallskosningu.“

Þessi brtt. mín gengur í fyrsta lagi út frá því að viðhafa lýðræði hér á Alþ. Hún gengur í öðru lagi út frá því að viðhafa þá hætti um kosningu hér, sem gengið var út frá sem sjálfsögðum, þegar stofnað var til Norðurlandaráðsins. Hún gengur í þriðja lagi út frá því að hafa þann hátt um kosningu á Alþ., sem alltaf hefur verið hafður. Og hún gengur í fjórða lagi út frá því, að reynt sé að ná samkomulagi um að gefa öllum flokkum þingsins, líka þeim, sem ekki hefðu atkvæðalegan styrkleik til þess, möguleika til að eiga fulltrúa í ráðinu. Ég setti þetta ákvæði um, að farmenn flokkanna skuli fyrir fund þann, sem kjósa á á, reyna að ná samkomulagi um fulltrúa, með sérstöku tilliti, eins og nú standa sakir, til Alþýðuflokksins. Það er vitað, að Alþfl. hefur eins og sakir standa ekki atkvæðamagn í Sþ. til þess upp á eigin spýtur að koma fulltrúa að.

Ég skal geta þess, að áður, þ. e. fyrir síðustu kosningar, þegar Sósfl. og Alþfl. höfðu næga þingmannatölu á Alþ. til þess, ef þeir ynnu saman, að koma fulltrúa að í 5 manna nefndir, þá bauð ég Alþfl. ég held við flest tækifæri, ef ekki öll, samstarf um það að tryggja honum fulltrúa í þær nefndir, þar sem kosnir voru 5 menn í einu, eins og Landsbankanefnd og aðrar slíkar, og með það sem bakhjarl gat hann venjulega tryggt sér, að þeir flokkar, sem hann ýmist starfaði með í stjórn eða voru í stjórnarandstöðu . . . . (Forseti: Má ég spyrja hv. ræðumann, 2. þm. Reykv., hvort hann á mikið eftir af ræðu sinni?) Nei, ég á mjög lítið eftir. — Þá gaf Sósfl. Alþýðuflokknum tækifæri til þess að geta eignazt mann í slíkar nefndir, eins og t. d. í landsbankanefnd, þegar kosnir voru 5 menn, og Alþfl. gat í rauninni alltaf tryggt sér mann í slíkt. Og það er algert óréttlæti og stafar af rangri og ólýðræðislegri kjördæmaskipun, sem við eigum við að búa, að Alþfl. skuli ekki hafa á þingi það marga þingmenn nú, að hann geti tryggt sér fulltrúa í hverja 5 manna nefnd, því að það á hann að hafa eftir sínu fylgi hjá þjóðinni. Eins og menn vita, þá höfum við og Alþfl. til samans um 3% þjóðarinnar, en höfum nú ekki nema 15 þingmenn. En Framsfl., sem hefur ekki nema 24,5% þjóðarinnar, hefur 18 þingmenn. Ég set þetta þess vegna þarna inn í til þess að undirstrika þá kröfu, sem þeir flokkar, sem hafa þó slíkt fylgi sem Alþfl. hjá þjóðinni, eiga á því að eiga sína fulltrúa líka í ráði eins og Norðurlandaráði, sem á að vera fulltrúi fyrir þær skoðanir, sem uppi eru hjá þjóðinni. Svo framarlega hins vegar sem ekki næst neitt samkomulag um slíkt, þá er auðvitað það skásta réttlæti, sem næst, að þarna séu viðhafðar hlutfallskosningar.

Ég vil nú leyfa mér að vona, að hv. þingmenn eftir þessa grg. mína fyrir þessari till. forði frá þeirri ósvinnu og þeim níðingsskap gagnvart norrænni samvinnu, sem fyrirhuguð er með till. meiri hl., með því að samþykkja mína till. Ég verð að biðja hæstv. forseta að óska eftir afbrigðum fyrir henni, svo framarlega sem ætti að bera hana upp núna. Hins vegar, svo framarlega sem þessari umr. verður frestað, þá hef ég líka lagt hana inn, þannig að þá yrði henni útbýtt prentaðri áður en umr. yrði fram haldið, ef nú yrði frestað. En ef þessum umr. nú yrði slitið, þá verð ég að biðja hæstv. forseta að leita afbrigða fyrir henni, af því að hún er of seint fram komin og skrifleg.