23.10.1952
Neðri deild: 13. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 121 í B-deild Alþingistíðinda. (241)

5. mál, Búnaðarbanki Íslands

Frsm. minni hl. (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. Ég hef ekki getað orðið sammála hv. meiri hl. fjhn. um afgreiðsluna á þessu máli og þess vegna gefið út sérstakt nál. og legg þar til, að frv. verði samþ. með þeirri breyt., sem felst í till. á þskj. 74, sem borin er fram af hv. 5. landsk. þm.

Það, sem greinir á málefnalega milli mín og meiri hl., er raunverulega eftirfarandi: Svo framarlega sem ríkisstj. er heimilað að taka lánið með þeim hætti, sem lagt er til í frv. stj., og lána það aftur með sömu kjörum og hún tæki það, þá mætti ætla, ef um samsvarandi lánskjör yrði að ræða eins og síðast, t.d. þegar tekið var lán hjá Alþjóðabankanum, að slík lán yrðu til t.d. 20 ára og a.m.k. með 41/2% vöxtum, eða ef ríkisstj. síðar endurlánar Búnaðarbankanum með þessum sömu kjörum, þá þýðir það, að þessar deildir Búnaðarbankans, Byggingarsjóður og Ræktunarsjóður, verða að lána þetta fé aftur út, Ræktunarsjóðurinn til 20 ára með 21/2% vöxtum og Byggingarsjóðurinn til 42 ára með 2% vöxtum. Þennan vaxtamísmun, sem í þessu felst í fyrsta lagi, yrðu þá þessir sjóðir að greiða, og það gengi aftur út yfir möguleika þessara sjóða til þess að veita fé að láni. Enn fremur hvað Byggingarsjóð snertir, sem lánar út til 42 ára, en fær að láni til 20 ára, þá skapar þetta náttúrlega á vissu tímabili mjög mikil vandræði í lánastarfsemi hans. Ég álít eðlilegt, að meðan ríkið með lögum fyrirskipar Búnaðarbankanum að lána fé sitt út með 21/2% vöxtum og með 2% vöxtum og ýmist til 20 ára eða til 42 ára, þegar þessir tveir sjóðir eiga í hlut, þá verði það sama ríki sem tekur sér vald til að fyrirskipa þessa útlánastarfsemi með þessum kjörum að bera tjónið af því að lána með kjörum, sem eru orðin svona óeðlileg með tilliti til hins svo kallaða frjálsa lánsfjármarkaðar. Svo fremi sem ríkið breytir þarna út af og lánar sjálft þessum sjóðum með miklu verri kjörum, en þeir eiga að lána út, þá er ríkið að kippa grundvellinum undan þeirri starfsemi þessara sjóða, sem þeir hafa haft með höndum fram að þessu, því að það mun þá varla liða á mjög löngu, ekki sízt með þessum vaxandi kröfum um, að allt eigi að vera fjármálalega og ákaflega heilbrigt og allt eigi að bera sig eins og kallað er, — það mun þá varla líða á löngu þangað til það koma fram brtt: um að hækka vextina frá Ræktunarsjóðnum og frá Byggingarsjóðnum út til bænda. Ég vil minna hv. þm. á, að það voru á síðasta þingi hækkaðir vextir, sem Alþ. hafði áður með lögum fyrirskipað að skyldu vera 21/2%, upp í 51/2%, og það er stór hætta á, að það yrði fyrr eða síðar farið inn á sömu brautina viðvíkjandi Ræktunarsjóði og Byggingarsjóði, ef það á að lána þessum sjóðum féð, sem þeir eiga að nota til starfsemi sinnar, með 41/2% eða jafnvel með hærri vöxtum. Ég held þess vegna, að ef á að svipta Ræktunarsjóð og Byggingarsjóð, eins og raunar ýmsa aðra sjóði lands okkar, sem eiga að hjálpa til þess að byggja landið upp, þeim raunverulegu möguleikum til þess að lána út með 21/2 % vöxtum, þá fari svo, áður en langt um líður, að vextirnir verði hækkaðir og þar með grundvellinum kippt undan þeirri þjóðþrifastarfsemi, sem þessir sjóðir hafa með höndum, því að hvorki landbúnaðurinn né raforkuframkvæmdirnar né verkamannabústaðirnir og aðrar slíkar nauðsynjaframkvæmdir á Íslandi bera til lengdar þá háu vexti, sem nú er verið að reyna að innleiða. Ef ríkið þess vegna viðurkennir, að það sé nauðsynlegt að halda því, sem upphaflega var ákveðið um útlánsvexti Ræktunarsjóðs og Byggingarsjóðs, þá á ríkið þess vegna að lána þessum sjóðum með sömu vöxtum og ætlazt er til að þeir láni út á, en ekki með tvöfalt hærri vöxtum, og ég álít þess vegna, að Alþ. eigi að láta í ljós vilja sinn nú um það, að það sé ríkið, sem tekur á sig kostnaðinn af þessum vaxtamismun, en að því sé ekki skellt yfir á þessa sjóði. Það er þess vegna þannig, að það er ríkið, sem tekur lán, og það er ríkið, sem ræður þeirri lánsfjárstarfsemi, sem gerir það að verkum, að tekið er lán með svona háum vöxtum, og það á þess vegna að láta þennan mun lenda á ríkinu sjálfu. Og ég vil alvarlega vara þá við, sem núna hefðu annars tilhneigingu til að greiða atkv. móti brtt. á þskj. 74, að afleiðingin af því að fella hana er ég hræddur um að yrði sú innan ekki langs tíma, að útlánsvextir frá Ræktunarsjóðnum og Byggingarsjóðnum yrðu hækkaðir. Það er þess vegna till. mín, að þetta frv. sé ekki afgr. óbreytt, eins og hv. meiri hl. leggur til, heldur afgr. þannig breytt, að samþ.till. á þskj. 74, sem mælir svo fyrir, að lánið skuli endurlána þessum sjóðum Búnaðarbankans með sömu kjörum og lögum samkvæmt gilda um útlán þessara sjóða.