04.02.1953
Sameinað þing: 36. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 68 í D-deild Alþingistíðinda. (2416)

73. mál, rannsókn á jarðhita

Frsm. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Allshn. hefur tekið þessa till. til allýtarlegrar meðferðar, en hún fjallar um rannsókn á jarðhita og undirbúning almennrar löggjafar um hagnýtingu hans, svo sem segir á þskj. 81.

N. leitaði álits jarðboranadeildar raforkumálaskrifstofunnar og fékk frá deildinni allýtarlegt álit um málið, þar sem bæði er frá því skýrt, hvað gert hafi verið í þessu máli, og jafnframt bent á nauðsyn þess, að enn meira verði aðhafzt í málinu.

Það kemur í ljós, svo sem einnig hv. þm. mun kunnugt, að töluvert hefur verið að því gert að rannsaka jarðhita hér á Íslandi, en hins vegar tekur raforkumálaskrifstofan fram, að mikla nauðsyn beri til þess að haga þessum rannsóknum skipulegar, en gert hefur verið og kortleggja jarðhitasvæði landsins einmitt á svipaðan hátt eins og gert er ráð fyrir í þessari till., þannig að teknar verði 2–3 sýslur á ári hverju og þær kortlagðar nákvæmlega, hvar jarðhita er í þeim að finna. Deildin telur, að það muni að vísu hafa í för með sér nokkurn kostnað, en þó muni sá kostnaður ekki verða yfir 75 þús. kr. á ári, og virðist það ekki vera ýkjamikið, miðað við þá miklu nauðsyn, sem er á því að kanna til hlítar, hvar þessar mikilvægu orkulindir er að finna í landinu. Jafnframt hefur raforkumálaskrifstofan tekið fram, að nokkuð hafi verið unnið að því að undirbúa heildarlöggjöf um jarðhita, svo sem gert er ráð fyrir í þessari till., og tekur fram, að það sé einmitt mjög knýjandi nauðsyn, að það verði gert og samræmd þau lagaákvæði, sem um þetta efni gilda.

Þar sem þessar upplýsingar benda í senn til þess, að mikil nauðsyn sé á að láta hraða ýtarlegum athugunum á jarðhita og nýtingu hans og jafnframt að hraða undirbúningi á setningu heildarlöggjafar um jarðhita, þá hefur n. samhljóða mælt með því, að till. þessi verði samþ. með þeirri smávægilegu breytingu, að þar sem upplýst er frá raforkumálaskrifstofunni, að þegar hefur allmikið verið unnið að þessum málum, þá verði breytt orðalagi upphafslínu till. þannig, að í stað þess, að þar er talað um að láta fram fara víðtæka rannsókn, þá verði sett þar: „að láta hraða sem mest“ — og er þá átt við framhald þeirra rannsókna, sem gerðar hafa verið.

Ég sé ekki ástæðu til þess að orðlengja frekar um þetta. Ég geri ráð fyrir, að allir hv. þm. séu sammála um mikilvægi þess fyrir þjóðarbúskapinn í heild, að sem allra hraðast verði að því gengið að nýta þessar orkulindir landsins, sem má segja að jafngildi því, að við ættum hér kola- og olíulindir í landi okkar, ef þær eru nýttar til hlítar, og auk þess eru möguleikar til þess að nýta þessar lindir á margvíslegan annan hátt, svo sem hv. þm. er einnig kunnugt, og hefur þegar verið samkvæmt upplýsingum raforkumálaskrifstofunnar nokkuð að því unnið að kanna, hvort hagkvæmt væri að nýta jarðhita t. d. til ýmiss konar iðnaðar, en raforkumálsskrifstofan telur, að það sé mikil nauðsyn að gera þær athuganir víðtækari og láta kanna fleiri möguleika í því efni.

Það er því skoðun allshn., að rétt sé til þess að greiða fyrir framkvæmdum í þessu máli að samþ. þessa till. með þeirri breytingu, sem ég gat um.