23.10.1952
Neðri deild: 13. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 123 í B-deild Alþingistíðinda. (242)

5. mál, Búnaðarbanki Íslands

Ásmundur Sigurðsson:

Herra forseti. Ég ætla aðeins að segja örfá orð út af þessari brtt. á þskj. 74, þó að það þurfi ekki að vera mikið, vegna þess að hv. 2. þm. Reykv. hefur þegar gert vel grein fyrir henni. Ég ætla aðeins að undirstrika það, sem hann var að tala um, hvert stefnir, ef haldið verður áfram að láta Búnaðarbankann fá það fjármagn, sem hann hefur til umráða, með mun lakari kjörum, en hann þarf að lána það út. Nú er því t.d. þannig varið, að lán úr Byggingarsjóðnum þarf að lána út til 42 ára, en þau lán, sem Búnaðarbankinn hefur fengið undanfarin ár, sem hafa verið þrjú, þ.e. lán af gengishagnaði bankanna samkv. gengisskráningarlögunum, lán til Ræktunarsjóðs og Byggingarsjóðs af greiðsluafgangi ríkissjóðs árið 1951 og sömuleiðis hið erlenda lán, sem tekið er á þessu ári samkv. sérstökum l. frá Alþ., þau eru öll lánuð bankanum með miklu lakari kjörum en hann þarf að lána þau út; þau eru lánuð yfirleitt til 20 ára, en verulegan hluta þeirra þarf hann að lána út aftur til 42 ára. Það er ómögulegt að reka bankastarfsemi á þennan hátt. — Ég þarf ekki að fara fleiri orðum um þetta. Það hlýtur hver maður að sjá, sem athugar það, að það verður að breyta til frá þessu fyrirkomulagi og hætta að láta Búnaðarbankann fá það fé, sem hann fær til útlána, með svo miklu lakari kjörum, en hann er skyldugur lögum samkvæmt að lána það út aftur.