03.12.1952
Sameinað þing: 20. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 71 í D-deild Alþingistíðinda. (2423)

114. mál, hafrannsóknaskip

Flm. (Pétur Ottesen):

Það er augljóst mál, hver höfuðnauðsyn það er Íslendingum, að framkvæmdar séu á vísindalegan hátt rannsóknir á lifnaðarháttum nytjafiska hér við land, jafnframt því sem haldið yrði uppi rannsóknum í þá átt að leita nýrra fiskimiða. Rannsóknir þær, sem við nú framkvæmum á varðskipinu Mariu Júlíu, eru taldar mjög ófullkomnar, m. a. af því, hvað skipið er lítið til slíkra rannsókna. Til dæmis er það svo, að því er mér er tjáð, að það sé ekki hægt á svo litlu skipi að hagnýta nema að nokkru þá nýjustu tækni, sem fyrir hendi er á þessu sviði, þ. á m. mjög þýðingarmikið tæki, svo nefnt asdictæki, sem nauðsynlegt er að nota jafnhliða dýptar- og fiskimagnsmæli. Við höfum að sjálfsögðu nokkur not af fiskirannsóknum útlendinga, sem uppi er haldið í námunda við Ísland, eftir því sem okkur berast fregnir um niðurstöður af þeim, og samvinna er nokkur með Íslendingum, Norðmönnum og Dönum um síldarrannsóknir í hafinu austan við Ísland, en sú samvinna er eingöngu tengd við það svæði. Íslendingar standa því einir að rannsóknum umhverfis landið og í hafinu sunnan, vestan og norðan við Ísland. Á þessu svæði öllu er mikið verk að vinna, eins og gefur að skilja, í þessu efni og þýðingarmikið, að rannsóknarframkvæmdir á þessu svæði þurfi ekki að dragast vegna þess, að okkur skorti skip af hæfilegri gerð til þessara nauðsynlegu framkvæmda. — Till. þessi miðar að því, að rannsakaðir verði möguleikar á því að fá úr þessu bætt. Mér er bent á það af fróðum mönnum um þessa hluti, að varðskipið Ægir mundi t. d. hvað stærð snertir vera hentugt til þessara rannsókna, en að sjálfsögðu yrði að gera þar einhverjar breytingar, svo að fyrir hendi væru starfsskilyrði fyrir þá vísindamenn, sem standa fyrir þessum rannsóknum. Sjálfsagt er, að n. á Alþingi fjalli um þetta mál, og vil ég þess vegna gera það að minni till. að, að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til 2. umr. og fjvn.