04.02.1953
Sameinað þing: 36. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 72 í D-deild Alþingistíðinda. (2426)

114. mál, hafrannsóknaskip

Frsm. (Pétur Ottesen):

Það var nokkuð snemma á þessu þingi vísað til fjvn. þremur þáltill., sem að efni til voru allar mjög skyldar. Það voru till. um hafrannsóknaskip, á þskj. 158, till. um fiskileitarskip á djúpmiðum, sem er á þskj. 182, og loks till. um síldarleit fyrir Norður- og Norðausturlandi, sem er á þskj. 71.

Fjvn. sendi allar þessar till. til umsagnar til þeirra aðila, sem telja má að sjálfsögðu að beri að leita til um tillögur og álit um slík mál sem þessi, sem sé Fiskifélags Íslands, fiskideildar Atvinnudeildar háskólans og forstjóra íslenzku landhelgisgæzlunnar. Umsagnir frá öllum þessum aðilum bárust svo n. nokkru síðar, og voru þær allar jákvæðar að því leyti til, að þessir aðilar töldu það efni, sem í till. þessum felst, mjög mikilsvert og að full ástæða væri til, að gerðar væru ráðstafanir, sem stefndu í þessa átt. Hins vegar kom það fram í till. þessara aðila, að þeir voru ekki allir á einu máli um það, hvernig haga skyldi úrbótum í þessu efni. Þannig voru svörin nokkuð mismunandi um það, hvernig bezt yrði fyrir komið endurbótum á hafrannsóknum hér við land, þó að allir mæltu mjög eindregið með því, að undinn yrði bráður bugur að því að bæta þar úr, svo að hafrannsóknir af hálfu okkar Íslendinga kæmust sem fyrst á svipað stig og nú er hjá Norðmönnum, sem eru mjög framarlega í þessari grein og telja sig hafa borið mjög mikið úr býtum fyrir það, hvað þeir hafa lagt mikla áherzlu á hafrannsóknirnar. Enn fremur voru að því er síldarleitina snertir einnig nokkuð skiptar skoðanir um, hvernig henni bæri að haga, og sömuleiðis um fiskileit á djúpmiðum.

Af öllu þessu er það ljóst, að hér er fullkomin ástæða til, að gerð sé gaumgæfileg rannsókn á þessum atriðum öllum, hvernig endurbótum á þessu verði bezt fyrir komið, þannig að líklegt sé til skjóts árangurs fyrir sjávarútveg landsmanna.

Það kom einnig fram í viðræðum um þetta í fjvn., að það voru ekki allir á sama máli um það, hvernig þessu yrði bezt fyrir komið. Hins vegar var n. mjög einhuga um að ýta undir, að rannsókn þessi færi fram og að hún tæki sem skemmstan tíma, svo að hægt væri að hefja sem fyrst endurbætur á þessu sviði, en þar sem hér var um svo skyld mál að ræða, þá varð að samkomulagi í n. að sameina þessar till. í eitt, og var þá lögð til grundvallar till. á þskj. 158 og orðuð um með tilliti til þess, að hún grípur nú yfir stærra svið en henni hafði upphaflega verið ætlað að gera.

Till. um síldarleit á þskj. 71 var einskorðuð við síldarsvæðin fyrir Norður- og Norðausturlandi. Hins vegar felst í brtt. n., að því er hún kemur inn á þetta atriði, vitanlega það, að síldarleitinni sé hagað þannig, að hún fari fram hvarvetna kringum strendur landsins og á djúpmiðum, eftir því sem menn álíta hagkvæmast á hverjum tíma.

Þá hefur n. einnig gert það að till. sinni, að um þau atriði, sem í ályktun þessari greinir, skuli ríkisstj. kveðja sér til aðstoðar sérfróða menn á þessum sviðum. Það er t. d. að því vikið í þáltill. á þskj. 182, um fiskileit á djúpmiðum, sem hv. 2. landsk. þm. flytur, að þar sé haft samráð við starfandi togaraskipstjóra, og fellur það alveg saman við það, sem n. leggur áherzlu á, að hvarvetna séu til kvaddir sérfróðir menn í þessum málum og þeir, sem langa reynslu hafa, þegar ríkisstj. fer að athuga þau.

Ég held, að það sé ekki fleira í sambandi við þessa till. n., sem ástæða sé fyrir mig fyrir hönd n. að taka frekar fram um þetta, nema tilefni gefist til þess, en fjvn. leggur áherzlu á það, að till. þessi verði samþ., samtímis því sem hún leggur á það megináherzlu, að ríkisstj. hefjist hér handa og greiði sem fyrst götu þeirra umbóta, sem nauðsynlegt er að gerðar verði á þessu sviði og að er stefnt með tillögunni.