04.02.1953
Sameinað þing: 36. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 73 í D-deild Alþingistíðinda. (2427)

114. mál, hafrannsóknaskip

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Ég sé það, að hv. fjvn. ætlast til þess, að till. sú til þál., sem ég flutti á þskj. 182, um fiskileitarskip á djúpmiðum, verði afgreidd með þeirri brtt., sem hún flytur við 114. mál og frsm. af n. hálfu hefur nú nýlega gert grein fyrir.

Ég skal segja það, að ég tel, að fjvn. hafi ekki viljað verða við þeirri málaleitun, sem í minni till. felst, nema að mjög litlu leyti. Að vísu viðurkennir hún með þessu nauðsyn málsins og vill stuðla að því, að fram fari athugun á því verkefni, sem í minni till. var lagt til að unnið yrði að, en á allmikið annan veg en ég hafði gert hér grein fyrir og kemur fram í grg. minnar till. að ætlazt var til. Mín till. var um það, að nú þegar yrði hafizt handa um að gera út fiskileitarskip — ekki um það, að íslenzka ríkið léti byggja eða kaupa hafrannsóknaskip eða fiskirannsóknaskip. Ég geri mér það fyllilega ljóst, að það er ákaflega æskilegt og gott mál að berjast fyrir því, en það tekur langan tíma, þarf allmikinn undirbúning og kostar talsvert mikið fé að koma því máli fram. En hitt atriðið, að ríkið beiti sér fyrir því, að tekið sé skip á leigu um stundarsakir og það gert út í því sérstaka augnamiði að kanna betur fiskislóðir í kringum landið á óathuguðum fiskimiðum og að þá séu sérstaklega athuguð fiskimiðin á djúpmiðum í kringum landið, er í rauninni hægt að framkvæma fljótlega, að vísu með nokkrum tilkostnaði, en ég er ekki viss um, að sá tilkostnaður þurfi að vera mjög mikill.

Eins og ég sagði hér á sínum tíma um þetta mál, er það orðið mjög almennt álit t. d. skipstjóra á íslenzka togaraflotanum, að þetta sé orðið mjög aðkallandi málefni. Íslenzku togararnir eru svo dýr skip í rekstri og mönnuð svo mörgum mönnum, að það er ekki hægt að halda þeim þann veg úti að láta þá leita að nýjum fiskimiðum allt í kringum landið. Til þess eru þeir of kostnaðarsamir, þó að skipin séu á allan hátt hentug og góð sem veiðiskip. Hins vegar er það, að það hefði verið hægt að gera út á ódýrari hátt skip, sem leitaði í kringum landið á líklegum stöðum að nýjum veiðisvæðum, og á þann hátt hefði slíkt fiskileitarskip getað borgað sig þjóðhagslega og það fljótlega með því að greiða síðan götu veiðiskipaflotans inn á þessi nýju fiskimið. Nokkrir togarar úr íslenzka flotanum hafa unnið talsvert mikið að þessu á undanförnum árum og bætt allstórum veiðisvæðum við þau, sem kunn voru áður, en hins vegar sýnir reynslan, að það er of kostnaðarsamt fyrir skip, sem er í gangandi rekstri, að stunda þessar athuganir, og oft vill líka fara svo, að einstakir skipstjórar, sem komast á hin nýju mið, vilja búa að þessu einir sér og halda þessu mjög fyrir utan þekkingu annarra, en fram hjá öllu slíku yrði vitanlega siglt, ef efnt væri til þessarar almennu fiskileitar af hálfu ríkisins.

Ég skal ekki fara um þetta miklu fleiri orðum, því að ég þykist vita, að hv. alþm. viti í aðalatriðum, hvað hér er um að ræða. Það hefur verið vakin athygli á þessu máli nú. Hv. fjvn. hefur tekið undir þessa nauðsyn, vill greiða götu þess, en hefur samt talið óhjákvæmilegt, eins og sakir standa nú, að hengja þetta aðkallandi vandamál, sem ég kalla, aftan í hið stóra vandamál okkar að eignast hafrannsóknaskip, sem vitanlega kemur ekki í okkar þjónustu fyrr en eftir allmörg ár.

Ég hefði sem sagt kosið hina leiðina, eins og lagt var til í minni till., að það yrði hafizt handa sem allra fyrst um þetta sérstaka verkefni, sem ég lagði til, en mun eftir atvikum eigi að síður samþ. till. fjvn., því að hún vekur fyllilega athygli á málinu og ýtir því nokkuð áleiðis, en það er það lengsta, sem mér sýnist, að á þessu þingi sé hægt að komast í sambandi við þetta mál.