04.02.1953
Sameinað þing: 36. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 74 í D-deild Alþingistíðinda. (2428)

114. mál, hafrannsóknaskip

Frsm. (Pétur Ottesen):

Það eru aðeins örfá orð út af ræðu hv. 2. landsk., sem ég vildi bæta hér við framsöguræðu mína. — Ég held, að hv. þm. geri of mikið úr þeim mismun, sem er á hans till. og þeirri afgreiðslu á henni, sem fjvn. leggur til. Í till. hans felst, að ríkisstj. sé falið að efna til skipulagðrar fiskileitar með vel útbúnu skipi, en það er vitanlega mjög þýðingarmikið atriði í þessu máli að það sé að vel yfirlögðu ráði gert, hvernig hér er að vikizt og á stað farið.

Í þeim bendingum, sem n. fékk frá þeim aðilum, sem ég nefndi hér áðan, komu fram nokkur mismunandi sjónarmið á þessu atriði. Sumir bentu á það, eins og fram kom hjá hv. ræðumanni, að e. t. v. mundi heppilegast að fá leigðan einn eða fleiri af nýsköpunartogurunum til þess að framkvæma þetta verk. Aðrir lögðu til, að yfirleitt mætti samrýma þetta þeirri starfsemi, sem það væntanlega hafrannsóknaskip hefði með höndum. Var af einhverjum aðilanum, sem tillögurnar voru sendar til, — ég ætla, að það hafi verið af Fiskifélagi Íslands, — á það bent, að e. t. v. væri hér fyrir í landhelgisgæzlunni nú skip, sem væri ekki óhentugt til hafrannsókna, þ. e. varðskipið Ægir. Lagði fiskimálastjóri, sem reit bréf um þetta efni, á það áherzlu, að hvað stærðina snertir mundi þetta skip vera hæfilegt til þess, og gerði þá jafnframt ráð fyrir, að e. t. v. gæti það að einhverju leyti innt af hendi þetta fiskileitarstarf, þó að aðaltillaga hans væri sú, að tilraun þessi yrði gerð með því að leigja til þess nýsköpunartogara.

Nú er það ekki svo í raun og veru, að þessi till. sé hengd, eins og hv. þm. orðaði það, aftan í till. um hafrannsóknaskip, því að hvert atriði í till. n., athugun á hafrannsóknaskipi, athugun á fiskileit á djúpmiðum og athugun á síldarleit, er sjálfstætt atriði út af fyrir sig, þannig að það er ekkert bundið hvað við annað, heldur kemur það fram sem sjálfstætt rannsóknaratriði hvert um sig. Það er aðeins af því að n. fannst réttara að hafa þetta form á því, þar sem málin eru skyld, að sameina þetta í eina till., en alls ekki binda það þannig saman, að ekki væri hægt að skila áliti eða gera ráðstafanir um hvert atriði út af fyrir sig, þó að öll atriðin í þessu efni fylgdust ekki að. Þannig ber að líta á þessa till., og þegar það er athugað, þá held ég, að það sé ekki í rauninni mikið, sem hér ber á milli, því að það er vissulega hjá fjvn. fullur skilningur á nauðsyn þessa máls og ríkjandi áhugi fyrir því, að ríkisstj. hefjist handa til úrbóta um þessi atriði öll.