04.02.1953
Sameinað þing: 36. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 78 í D-deild Alþingistíðinda. (2442)

143. mál, Flóa- og Skeiðaáveiturnar

Frsm. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Fjvn. hefur haft þessa till. til athugunar og sent hana til umsagnar til Búnaðarfélags Íslands, og hefur búnaðarmálastjóri fyrir hönd félagsins sent n. umsögn sína, sem birt er hér sem fskj. á þskj. 722.

Þáltill., eins og hún er borin fram á þskj. 221, ætlast til þess, að Alþ. feli ríkisstj. að skipa 3 manna n. til þess að rannsaka, hvernig hagfelldast sé að hafa framræslu á Flóaáveitusvæðinu með sérstöku tilliti til þurrkunar landsins og hinna ýmsu jarða svæðisins til túnræktar og með hliðsjón af viðhaldi áveitunnar á jörðum, sem hennar hafa veruleg not. Einnig ætlast till. til þess, að gerð sé athugun sérstaklega, hvort nauðsynlegt sé að breyta l. um Flóaáveituna, og síðan er tekið fram í till., hvernig n. skuli skipuð. En enn fremur fer till. fram á það, að ríkisstj. heimilist að ábyrgjast fyrir hönd ríkissjóðs 100 þús. kr. lán, er stjórn áveitnanna kunni að taka innanlands til framkvæmda umbóta á áveitusvæðinu þegar á næsta sumri, og fari þær framkvæmdir eftir till. n.

Fjvn. athugaði mjög rækilega allt þetta mál og ræddi um það við hv. flm. till. Hún kynnti sér m. a. löggjöfina um Flóaáveituna og Skeiðaáveituna. Þar kemur fram, að l. um Flóaáveituna eru frá 1917, en 1926 eru gerðar breytingar á þeim l., sem heimila ríkisstj. að láta fara fram og framkvæma umbætur á Flóaáveitunni, sem nauðsynlegar séu til þess, að verkið komi að notum eins og hugsað hafði verið í upphafi. Það var því mjög til umr. í n., hvort hægt væri að fela hæstv. ríkisstj. að framkvæma þetta verk eftir þeim lagafyrirmælum, sem gilda enn um þessi mál. En með því að ekki lágu fyrir upplýsingar um það, hversu víðtækar þær framkvæmdir kynnu afi vera og hversu mikilla umbóta er þörf á þessu svæði, til þess að þær mættu koma að fullum notum, og þá ekki heldur vitað, hvort hægt er að skipta þeim kostnaði niður á líkan hátt og gert var í upphafi, þegar til áveitnanna var stofnað, þá þótti fjvn. ekki rétt að afgreiða till. þannig. Henni er hins vegar fullkomlega ljóst, að hér er um mjög aðkallandi þörf að ræða að fá rannsakað ástand Flóa- og Skeiðaáveitnanna og fá um það till., hvaða umbætur eru nauðsynlegar til þess, að þetta verk komi að fullum notum, og einnig samtímis að athuga, hvort slíkar framkvæmdir heyri ekki að einhverju leyti undir jarðræktarl. eins og þau eru nú, því að vitanlega hafa þau tekið mjög miklum breytingum frá árinu 1926. M. a. þarf að athuga, hvort þann skurðgröft, sem nauðsynlegt kunni að vera að gera, sé ekki hægt að framkvæma undir þeim lagaákvæðum, sem gilda um skurðgröfur og skurðgröft í landinu, svo og ef farið er að breyta einhverjum hluta áveitusvæðisins í túnrækt, eins og e. t. v. hefur komið til athugunar hjá viðkomandi aðilum, hvort ekki sé þá hægt að framkvæma slíka túnrækt undir ákvæðum hinna almennu jarðræktarlaga.

N. leit svo á, að allt þetta þyrfti að rannsaka mjög gaumgæfilega, og því leggur hún til, að till. verði breytt á þann hátt, sem gert er ráð fyrir á þskj. 722, en það er þannig, með leyfi hæstv. forseta, að tillgr. orðist svo:

Alþ. ályktar að fela ríkisstj. að skipa 3 manna n. til þess að athuga gildandi lagaákvæði um Flóa- og Skeiðaáveiturnar og gera till. til breytinga á þeim, ef nauðsynlegt þykir, til tryggingar því, að mannvirki þessi komi að fullum notum, miðað við þær breytingar, sem orðið hafa síðan l. voru sett, enda fari samtímis fram athugun á öllu ásigkomulagi áveitnanna. Skal n. skipuð þannig: Einn samkv. sameiginlegri till. frá stjórnum áveitnanna, einn samkvæmt till. frá Búnaðarfélagi Íslands og einn án tilnefningar, og er hann formaður n. — Nefndin skal hafa lokið störfum og skilað till. sínum til ríkisstj. fyrir 1. sept. n. k.“

Er hér gert ráð fyrir, að stjórnir beggja áveitnanna komi sér saman um mann til þess að gæta hagsmuna sinna. Það þótti heppilegra en að skipta um mann í n. til athugunar við hvert landsvæði um sig, og taldi n., að á þessu mundu ekki verða nein vandkvæði, að þeir sameiginlega kæmu sér saman um einn fulltrúa. Þá þótti og sjálfsagt, að Búnaðarfélag Íslands hefði fulltrúa af sinni hálfu í sambandi við þessa rannsókn. Þarf að vera að minnsta kosti einn maður, sem mjög er kunnugur þessum málum. Og síðan skipaði hæstv. landbrh. einn mann sem formann n.

N. leggur áherzlu á, að þessari athugun verði lokið eins og tiltekið er í till. og ef nauðsynlegt þykir að gera lagabreytingar, til þess að hægt sé að framkvæma þessar umbætur, þá leggi hæstv. ríkisstj. þær fyrir næsta Alþ., svo að Alþ. fái þá tækifæri til þess að athuga málið og gera till. um það og þá að ákveða, hvort það vill leggja út í þann kostnað, sem því kann að verða samfara. En fjvn. vill ekki á þessu stigi málsins hvorki gefa neitt fyrirheit um það né yfirleitt segja neitt um það, á meðan málið er ekki rannsakað.

Ég vil vænta þess fyrir hönd n., að till. verði samþ. og að hv. flm. geti fellt sig við þá afgreiðslu, sem n. hefur lagt til að verði á málinu.