23.10.1952
Neðri deild: 13. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 127 í B-deild Alþingistíðinda. (248)

5. mál, Búnaðarbanki Íslands

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Það voru aðelns örfá orð í sambandi við ræðu hv., 5. landsk. þm., að ég vildi vekja athygli á því, hvað sú upphæð er mikil, þessi vaxtamunur, sem um er að ræða hér. Það er að vísu ekki vitað, með hvaða kjörum þetta lán fæst, hvort það verður með 3% vöxtum eða 41/2%, eins og hv. 2. þm. Reykv. var að tala um. Ef þetta lán fengist nú með 31/2%, þá væri undir flestum kringumstæðum aðeins um 1% að ræða í vaxtamismun, og það, sem lánað væri með 2%, eins og úr Byggingarsjóði, þá væri um 11/2 % að ræða, — og þá væri hér um að ræða 200–300 þús. kr. í vaxtamismun af þessari upphæð, sem gert er ráð fyrir að taka til láns samkv. frv. Það er náttúrlega ákaflega slæmt fyrir Búnaðarbankann að eiga við þann vaxtamismun, en ég hélt, að þessi upphæð, í augum hv. 5. landsk. og hv. 2. þm. Reykv., væri ekki stór, eða manni hefur a.m.k. stundum heyrzt það, þegar þeir hafa talað hér um fjármál og annað þess konar, að svona smáupphæðir væru yfirstíganlegar og viðráðanlegar. En það er alveg rétt, sem hefur verið sagt hér, að þetta er vandamál, sem þarf að yfirstíga, bæði með mismunandi lengd á lánstíma og vaxtamismun. En það er, eins og sagt hefur verið hér, algerlega ástæðulaust að vera að blanda því saman við þetta mál, við lántökuheimildina. Lausn þess máls hlýtur að verða að koma fram hér í öðru formi. Það er rétt, sem hv. 5. landsk. sagði hér áðan, að það væri eðlilegt, að ríkissjóður hætti við að innkalla a.m.k. eitthvað af því, sem Búnaðarbankanum hefur verið látið í té sem lán frá ríkissjóði, og ef það væri gert, þá væri það náttúrlega bezta lausnin, en eins og á hefur verið bent hér, þá er þetta mál löngu komið á dagskrá, og hefur verið bent á það sem lausn málsins. Annars er gott að heyra það hér í hv. Alþ., hvað áhugi manna er mikill fyrir því, að Búnaðarbankinn megi eflast, og að hér er skilningur líka hjá sósíalistum í þessu máli, því að það varðar vitanlega alþjóð, að sú stofnun megi blómgast og hafa fjárráð til handa landbúnaðinum.