10.12.1952
Sameinað þing: 24. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 89 í D-deild Alþingistíðinda. (2480)

136. mál, strandferðir m/s Herðubreiðar

Flm. (Ásmundur Sigurðsson):

Herra forseti. Þessi till. er flutt hér á þinginu vegna erfiðleika, sem hafa verið á því að fá nægan skipakost til flutninga til Austur- og Norðausturlandsins.

Það er kunnugt öllum, að á stríðsárunum var hafizt handa um að endurskipuleggja strandferðir við Ísland og byggja ný strandferðaskip til þess að annast strandferðirnar eftir hinni nýju skipulagningu. Til þess voru byggð 3 ný skip, hið stóra og stærsta strandferðaskip okkar, Hekla, og eins hin tvö minni, Herðubreið og Skjaldbreið. Þá var út frá því gengið sem sjálfsögðu, að yfirleitt yrði ferðum minni skipanna, Herðubreiðar og Skjaldbreiðar, þannig háttað, að annað skyldi annast strandferðir frá Reykjavík vestur um land og norður, en hitt skyldi aftur annast ferðirnar austur og norður. Og í samræmi við það var gert ráð fyrir því, að Herðubreið yrði Austurlandsskipið, en aftur á móti yrði Skjaldbreið Vesturlandsskipið. Sérstaklega var fyrir því gert ráð, að þessi skip yrðu til þess að koma á smærri hafnir, þar sem stærri skipin gætu síður komið, og losuðu þannig stærri skipin frá smásnatti, sem þau annars hefðu þurft að hafa.

Nú hefur mjög borið á því, að það skipið, sem upphaflega var ætlað til þess að annast strandferðir austur um land, hefur ekki verið haft í þeim ferðum nærri því að öllu leyti, heldur mjög mikið einnig verið látið vera í strandferðum vestur og norður, þrátt fyrir það þó að hitt skipið, Skjaldbreið, hafi svo að segja eingöngu annazt strandferðir á þann hluta landsins og aðeins borið við, að það hafi komið austur fyrir land í algerum forföllum. Þetta hefur valdið mjög mikilli óánægju um Austurland og Norðausturland, og það hefur þrásinnis verið óskað eftir því við Skipaútgerð ríkisins og sömuleiðis samgmrn., að þessu yrði breytt í það horf, sem fyrirhugað var upphaflega, en hefur ekki fengizt gert, og þess vegna flytjum við flm. þessa till. hér.

Til rökstuðnings þessu frekar vil ég benda á upplýsingar, sem við höfum fengið frá Skipaútgerð ríkisins um strandferðir strandferðaskipanna allra bæði síðastliðið ár og það sem liðið var af þessu ári, þegar till. var flutt, og sú skýrsla lítur í stórum dráttum þannig út :

Árið 1951 fór Herðubreið 22 ferðir austur, Skjaldbreið eina, Esja 12 og Hekla 10. Samtals voru þetta 45 ferðir. En vestur fór Herðubreið 14 ferðir, Skjaldbreið 41, Esja 15 og Hekla 12, þannig að samtals voru þetta 82 ferðir. Hér er geysimikill munur á, þar sem í aðra áttina eru 45 ferðir allra skipanna, en í hina áttina eru 8 ferðir.

Það sem af var liðið þessu ári, þegar till. var flutt og við fengum þessa skýrslu, hafði strandferðum verið hagað þannig, að ferðir vestur voru 52, en ferðir austur voru samtals 28.

Ég fer ekki að lesa upp tölur um það, hvað af þessum ferðum eru hringferðir. Það er í báðar áttirnar dálítið, en það skiptir ekki máli. Þetta eru heildarniðurstöðurnar, sem sýna það, að hvað strandferðirnar snertir hafa mun fleiri ferðir verið farnar vestur heldur en austur, og það er full ástæða til þess að athuga þetta betur.

Till. felur aðeins það í sér, að strandferðir Herðubreiðar verði eingöngu hafðar við Austur- og Norðurland, þ. e. a. s. austur um til Norðurlandsins. En hins vegar felur hún ekki í sér neinar breytingar á strandferðum Heklu og Esju, og er þess vegna alveg óhætt að fullyrða, að þó að till. yrði samþ. og framkvæmd, þá muni sú framkvæmd síður en svo gera meira, en að bæta úr því, sem við teljum vera nokkurt ranglæti í þessu efni gagnvart þeim landshlutum, sem áttu að njóta strandferða Herðubreiðar.

Þó að ég sé ekki með skýrslur um það núna, þá get ég bent á það í sambandi við þetta og fullyrt, að það er rétt, að ferðir Eimskipafélagsskipanna eru líka miklu meiri vestur en austur, og það ætti náttúrlega að gefa þeim mun minni aðstæðu til þess að láta ferðir strandferðaskipanna vera svo miklu meiri vestur en austur sem skýrslurnar sýna.

Nú vil ég taka það skýrt fram, að ég er ekki að gefa það í skyn, að flutningaþörf þess fólks, sem býr á vestur- og norðvesturhluta landsins, sé óþarflega vel leyst með því fyrirkomulagi, sem verið hefur, það er fjarri því. En ég bendi aðeins á þetta til þess að sýna það, að hér er um svo mikinn mun að ræða, að það verður tæplega við unað af því fólki, sem býr á austurhluta landsins, þegar gætt er þess einnig, að Eimskipafélagið annast mun betur flutninga vestur, og auk þess er það alkunnugt, að til Vestur- og Norðurlands eru bílaflutningar mjög miklir, en til Austur- og Norðausturlands engir.

Ég sé ekki ástæðu til þess að hafa miklu fleiri orð um þetta, en vildi leggja til, að umr. yrði frestað og till. yrði vísað til allshn.