29.10.1952
Sameinað þing: 8. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 93 í D-deild Alþingistíðinda. (2489)

57. mál, bátaútvegsgjaldeyrir

Flm. (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. Ég vil strax taka það fram til þess að fyrirbyggja allan misskilning, að þessi till., sem hér liggur fyrir, hljóðar aðeins um það, að Alþ. lýsi auglýsinguna frá 7. marz 1951 um innflutningsréttindi bátaútvegsmanna eða það, sem kallað er bátaútvegsgjaldeyrir, ólöglega.

Það, sem ég hér segi, á ekki við og ég ætlast satt að segja ekki til þess, að það sé rætt, hvort það að leggja sérstakan skatt eða sérstakan toll á vörur, sem fluttar eru inn í landið, til þess að greiða síðan til sjávarútvegsins, sé hentugt fyrirkomulag, hvort það sé réttlátt fyrirkomulag eða ranglátt fyrirkomulag. Ég vil með þessari þáltill. ekki gefa tilefni til þess að ræða það. Það eina, sem ég álít að hér liggi fyrir og ég óska eftir að rætt sé, er, hvort bátaútvegsgjaldeyririnn sé löglegur eða ekki.

Ég vil í því sambandi fyrst og fremst leggja mikla áherzlu á, að það er frumréttur þinga að leggja gjöld á almenning og að ríkisstj. hefur ekki neinn lagalegan rétt, eins og ég veit að öllum ríkisstjórnum er ljóst, til að leggja gjöld á almenning án laga frá Alþ. Það, sem deilan lengst af stóð um, meðan þing þjóðanna voru að berjast fyrir þingræði, var rétturinn til þess, að þingin ein gætu lagt gjöld á, en ríkisstjórnirnar gætu það ekki. Þetta var, eins og allir hv. þm. vita, baráttumál við konungsvaldið, baráttumál við ríkisstjórnir þess, og þessi réttur þingsins er þess vegna hornsteinn í okkar þingræði og okkar réttarfari, enda er 40. gr. stjórnarskrárinnar alveg ákveðin í því efni.

Ég hef á tveim undanförnum þingum, sérstaklega þó á síðasta þingi, nokkrum sinnum reynt að fá upplýsingar um það, á hvaða lagafyrirmælum ríkisstj. byggði auglýsingu fjárhagsráðs um innflutningsréttindi bátaútvegsmanna. Hæstv. viðskmrh. færðist lengi vel undan að svara því, en benti svo almennt á fjárhagsráðslögin sem grundvöll. Hæstv. atvmrh. svaraði hins vegar síðast á síðasta þingi því, að það væri 11. og 12. gr. fjárhagsráðslaganna, sem þetta væri byggt á. Ég tók þetta mál þá nokkuð fyrir í þeim umræðum, sem fram fóru út af þessu, og skal nú taka þetta nánar.

Það, sem hæstv. ríkisstj. vísar til eftir miklar spurningar, er, að það sé 11. og 12. gr. í lögunum um fjárhagsráð, sem hún byggi sína heimild á til handa fjárhagsráði um að gefa út auglýsinguna um innflutningsréttindi bátaútvegsmanna. Hvað segir nú í 11. og 12. gr. fjárhagsráðslaganna? Í 11. gr. segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Engar vörur má flytja til landsins nema að fengnu innflutnings- og gjaldeyrisleyfi. Frá þessu getur fjárhagsráð gefið undanþágu með auglýsingu, að fengnu samþykki ríkisstj.

Það er gefið, að með þessari auglýsingu, sem fjárhagsráð geti gefið, er átt við almenna undanþágu, sem sé þá undanþágu, er hæstv. ríkisstj. notaði sér, þegar hún gaf frjálst svo og svo mikið af innflutningi vara til landsins. 11. gr. ákveður, að það þurfi innflutnings- og gjaldeyrisleyfi fyrir öllum vörum. En með þessari setningu: „Frá þessu getur fjárhagsráð gefið undanþágu“ — er átt við, að fjárhagsráð geti gefið almenna undanþágu, þ. e. sagt, við skulum segja: „Matvörur eru frjálsar til að flytja inn“ — og sú undanþága var hagnýtt í fyrra, þegar frjálsa verzlunin svo kallaða var sett á laggirnar. Ég býst við, að það geti enginn maður haldið því fram, að í þessu orðalagi fælist, að fjárhagsráð hefði rétt til þess að gefa ákveðnum mönnum í landinu þann rétt að mega selja gjaldeyrisleyfi eða leggja sérstaklega á gjaldeyrisleyfi. Þessi setning hefur aldrei verið skilin öðruvísi en þannig, að það væri hægt að gefa innflutning ákveðinna vörutegunda frjálsan. Þá er 12. gr., með leyfi hæstv. forseta:

„Hlutverk innflutnings- og gjaldeyrisdeildar er að framkvæma í umboði fjárhagsráðs og í samráði við það heildaráætlun þá, er gera ber samkv. 3. gr., þar í innifalið 1) Að úthluta til innflytjenda innflutnings- og gjaldeyrisleyfum á þeim vörum, sem háðar eru leyfisveitingum, og setja þau skilyrði um hann, sem nauðsynleg kunna að vera vegna viðskiptasamninga eða af öðrum ástæðum.“ — Og svo heldur áfram: „Sé úthlutun leyfanna við það miðuð, að verzlunarkostnaður og gjaldeyriseyðsla verði sem minnst. Reynt verði, eftir því sem frekast er unnt, að láta þá sitja fyrir innflutningsleyfum, sem bezt og hagkvæmust innkaup gera og sýna fram á, að þeir selji vörur sínar ódýrast í landinu. Skal þetta gilda jafnt um kaupmannaverzlanir og samvinnuverzlanir og miðað við það, að neytendur geti haft viðskipti sín þar, sem þeir telja sér hagkvæmast að verzla.“

M. ö. o.: Að svo miklu leyti sem gjaldeyrisleyfi eru í umferð, þá er mælt fyrir í 12. gr., 1. kaflanum í henni, alveg nákvæmlega, til hvaða aðila þeim gjaldeyrisleyfum skuli úthlutað og hvaða skilyrði skuli fylgja fyrir úthlutun gjaldeyrisleyfa.

Nú segir í upphafi auglýsingarinnar um innflutningsréttindi bátaútvegsmanna, sem birt er í Lögbirtingablaðinu frá 8. marz 1951:

Samkvæmt ósk ríkisstj. og með tilvísun til samkomulags, er hún hefur gert við Landssamband ísl. útvegsmanna hinn 24. febr. s. l., er hér með birt eftirfarandi auglýsing.“

Í reglugerðum eða slíku er vaninn að auglýsa: „Samkvæmt heimild í l. nr. þetta og þetta er hér með ákveðið.“ Þessi ákvörðun byrjar ekki þannig. Nei, hún byrjar: „Samkvæmt ósk ríkisstj.“ Ég veit ekki, hvort hún byrjar þannig vegna þess, að þeim, sem hafa samið þetta, hafi e. t. v. ekki verið allt of ljóst, í hvaða grein þeir ættu að vitna.

Síðan er haldið áfram:

„Við afhendingu gjaldeyris fyrir útfluttar bátaafurðir framleiddar á árinu 1951, að undanteknu þorskalýsi, síld og síldarafurðum, fær útflytjandi hjá hlutaðeigandi banka innflutningsskírteini, sem heimilar innflutning á þeim vörum, sem taldar eru á hinum skilorðsbundna frílista, sem prentaður er hér á eftir.“

M. ö. o.: Þarna er tekin sú ákvörðun, að það skuli gefið út innflutningsskírteini. Þó að notað sé orðið „innflutningsskírteini“, þá er gefið, að það er ekkert annað en ákveðið innflutningsleyfi, sama sem innflutnings- og gjaldeyrisleyfi. Og þó að banka sé falið þarna að gefa út þetta innflutningsskírteini, þá hefur enginn aðili rétt til þess að gefa nein innflutningsskírteini á Íslandi nema samkv. 11. og 12. gr. laganna um fjárhagsráð. Það er þá eingöngu vegna þess, að fjárhagsráð og ríkisstj. fela bönkunum að fara þarna með sitt vald, að bankarnir geta gert þetta. Sem sé, það er gefið þarna út innflutningsskírteini, sem er ekkert annað en innflutnings- og gjaldeyrisleyfi raunverulega. Hver fær þetta innflutnings- og gjaldeyrisleyfi samkv. þessari auglýsingu? Þar stendur: „fær útflytjandi“. Útflytjandi fær þetta innflutnings- og gjaldeyrisleyfi. Útflytjandi hefur eftir lögunum um fjárhagsráð, samkv. 12. gr., ekki neinn rétt til að fá nein innflutnings- og gjaldeyrisleyfi. Í lögunum stendur, að það skuli úthlutað til innflytjenda innflutnings- og gjaldeyrisleyfum. Það er ekki í lögunum um fjárhagsráð nein heimild til að úthluta til útflytjenda innflutnings- og gjaldeyrisleyfum. Þetta stangast sem sé á við sjálf lögin, sem fyrirskipa þarna að úthluta til innflytjenda.

Þá er enn fremur greinilegt og kemur strax fram í 4. gr. þessarar auglýsingar, hver tilgangurinn er með útgáfu þessarar auglýsingar. Þar stendur, með leyfi hæstv. forseta:

„Eigi skal heimilt, þar til öðruvísi er ákveðið, að tollafgreiða vörur, sem eru á skilorðsbundnum frílista, nema gegn B-skírteini. Innflutnings- og gjaldeyrisleyfi, sem nú eru í umferð fyrir þessum vörum, eru hér með felld úr gildi. Þó skulu þau halda gildi sínu, ef innflytjendur skuldbinda sig til þess að skila B-skírteinum innan 9 mánaða frá tollafgreiðslu vörunnar og setja tollstjóra tryggingu, sem nemi 25% af fob.-verðmæti pöntunarinnar, sé hún flutt inn frá clearing-landi, en 50% af fob.-verðmæti annars innflutnings.“

Síðan er í þessari auglýsingu útflytjendunum gefin heimild til að leggja eftir geðþótta, að því er virðist, eða a. m. k. án þess að ríkisstj. takmarki það, ákveðið gjald á þessi innflutnings- og gjaldeyrisskírteini, sem almennt er þetta frá 25% upp í 60%, eftir því sem mér er bezt kunnugt.

Það að gefa útflytjendum, sem eftir lögunum hafa ekki rétt til að fá úthlutað til sín innflutnings- og gjaldeyrisleyfum, rétt til þess að leggja ákveðið prósentmagn, t. d. upp undir 60%, á þessi innflutnings- og gjaldeyrisskírteini, þegar þeir selja þau áfram, er beinlínis á móti 12. gr. 4., 1. kafla hennar, þar sem segir:

„Sé úthlutun leyfanna við það miðuð, að verzlunarkostnaður og gjaldeyriseyðsla verði sem minnst. Reynt verði, eftir því sem frekast er unnt, að láta þá sitja fyrir innflutningsleyfum, sem bezt og hagkvæmust innkaup gera og sýna fram á, að þeir selji vörur sínar ódýrast í landinu.“

Það er beinlínis af bönkum úthlutað til útflytjenda innflutnings- og gjaldeyrisleyfum. sem þeim svo að segja er sagt að leggja á allt upp í 60%, sem stangast algerlega við allan tilgang laganna um fjárhagsráð, þar sem mælt er fyrir, að það skuli fyrst, og fremst úthluta til þeirra, sem selja vörur sínar ódýrast í landinu. M. ö. o.: Það er verið að láta þá fá einokun á innflutningi ákveðinna vara í þeim tilgangi, að þeir leggi svo og svo mikið á þær, jafnvel 60%, þ. e. selji þær dýrt í staðinn fyrir að selja þær sem ódýrast.

Enn fremur er lagt svo fyrir í lögunum: „Skal þetta gilda jafnt um kaupmannaverzlanir og samvinnuverzlanir og miðað við það, að neytendur geti haft viðskipti sín þar, sem þeir telja sér hagkvæmast að verzla.“

Það er sem sé mælt fyrir í lögunum, að kaupmannaverzlanir og samvinnuverzlanir skuli standa jafnt að vísi um innflutning og að fá innflutnings- og gjaldeyrisleyfi. Þarna hins vegar er beinlínis öðrum aðilum, sem hvorki tilheyra kaupmannaverzlun né samvinnuverzlun, úthlutað innflutnings- og gjaldeyrisleyfum í þeim tilgangi, að þeir leggi allmikið á þau, og kaupmannaverzlanir og samvinnuverzlanir sviptar möguleikanum til þess að flytja þessar sömu vörur inn og til að selja þær sem ódýrast í landinu og neytendurnir sviptir möguleikunum til þess að reyna að flytja þessar vörur inn og kaupa þær þar, sem þær eru ódýrastar, enda er það vitanlegt t. d., að allmikill hluti verzlunarinnar í landinu, t. d. mikið af samvinnuverzlunum, hefur beinlínis neitað að hafa með þessar vörur að gera nema að hverfandi litlu leyti.

M. ö. o.: Allt þetta kerfi, öll þessi auglýsing, er beint brot á 12. gr. laganna, og ég vil taka það fram, að ég er ekki með þessu að segja, að það geti ekki út af fyrir sig vel komið til mála, að Alþ. mundi setja lög, ef hæstv. ríkisstj. færi fram á það, sem legðu t. d. 60% gjald á ákveðnar vörur, sem fluttar eru inn í landið, og það gjald væri síðan notað til þess að greiða t. d. tap á bátaútvegi, hraðfrystihúsum eða öðru slíku. Það er sem sé allt annað mál.

Það, sem ég hér held fram, er, að ríkisstj. hafi lagt þetta gjald á í heimildarleysi og að bátaútvegsgjaldið hafi verið innheimt í trássi við lög, það sé ekki lagalegur grundvöllur fyrir því, og þess vegna beri að afturkalla þessa auglýsingu, sem auðvitað mundi þýða, að ríkisstj. gerði ráðstafanir til þess að leggja fyrir Alþ. ákveðnar till., sem hún áliti að væru skynsamlegar, um þessi mál. Það er sem sé ekki um það að ræða, hverjar þær till. væru, jafnvel þótt þær væru nákvæmlega það sama í „praksisnum“ eins og er í sambandi við bátaútvegsgjaldeyrinn. Það er annað mál. Hinu vil ég sem sé halda fram, að núverandi fyrirkomulag sé ólögmætt. Og þá vil ég um leið taka það fram, af því að ég er ekki lögfræðingur og margir betur að sér í þessum efnum en ég, að svo fremi sem til er einhver grundvöllur, sem ég a. m. k. hef ekki getað komið auga á með bezta vilja og hæstv. ráðherrar ekki upplýst mig um, þegar ég hef beðið þá um það, — svo framarlega sem einhver slíkur grundvöllur er til, sem hægt er að hengja sig á í þessum efnum, þá vil ég um leið benda á, að svo fremi sem hæstv. ríkisstj. og fjárhagsráð hafa heimild til að gefa útflytjendum þessara ákveðnu afurða þessi réttindi, þá hlýtur hæstv. ríkisstj. líka að hafa rétt til þess t. d. — við skulum segja — í fyrsta lagi að gefa S. Í. S. og öðrum þeim, sem flyttu út t. d. kjöt, ull, gærur eða annað slíkt, heimild til þess að flytja inn til landsins ein saman allar t. d. vefnaðarvörur, alla bíla og einhverjar fleiri vörutegundir og leggja á þetta, til þess t. d. að borga hallann — skulum við segja — af landbúnaði, 60% eða einhverja ákveðna upphæð. Það hlyti þá að vera nákvæmlega sama lagaheimildin til slíks eins og núna er til þess að leggja bátaútvegsgjaldeyrinn á. Enn fremur: ef hæstv. ríkisstj. og fjárhagsráð hafa rétt til að gefa hraðfrystihúsunum og bátaútvegsmönnunum rétt til þess að leggja á þessar ákveðnu vörutegundir, sem núna hafa verið á bátaútvegsgjaldeyrislista, þá hlýtur að vera sami réttur til þess að bæta á þann lista miklu fleiri vörutegundum og ef til vill öllum þeim vörutegundum, sem fluttar eru hingað til landsins. Ef hægt er að setja á bátaútvegsgjaldeyrislista helminginn af þeim vörutegundum með einhverjum lagagrundvelli, sem ég ekki þekki, þá hlýtur líka að mega setja ¾ af öllum vörutegundum, sem fluttar eru inn til landsins. Enn fremur, svo framarlega sem hæstv. ríkisstj. og fjárhagsráð hafa lagalegan rétt til þess að leyfa bátaútvegsmönnum eða eigendum gjaldeyrisins að leggja 60% á ákveðnar vörutegundir, þá hlýtur hún, ef slíkur lagagrundvöllur er til, að hafa sama rétt til þess að leyfa þeim að leggja 100% á eða 200%. M. ö. o., ef þessi lagagrundvöllur er til, sem ég þekki ekki og hef ekki getað komið auga á, þá hlýtur hæstv. ríkisstj. samkv. honum, ef hún hefur haft rétt í því, sem hún hefur gert undanfarið viðvíkjandi bátaútvegsgjaldeyrinum, að geta gefið þeim aðilum, sem hún álítur skynsamlegt eða frá einhverju sjónarmiði réttmætt, leyfi til að flytja inn til landsins einum saman, sem sé gefið þeim einokunarvald á innflutningi svo til allra vara, sem til landsins flytjast, og enn fremur að leggja á þær vörur ekki 60%, heldur líka jafnvel 100%, ef hún vill. M. ö. o. hefur hún rétt til að fella raunverulega gengi á íslenzkri krónu eins og henni þóknast. Og þá sé ég ekki, af hverju var verið að hafa á móti því í gengislækkunarlögunum hérna um árið að veita Landsbankanum þennan rétt til að breyta genginu, eftir því sem hann vildi, ef ríkisstj. hefur með þeim lagagrundvelli, sem kynni að fyrirfinnast viðvíkjandi bátaútvegsgjaldeyrinum, þennan rétt, sem nú hefur verið notaður. Ég nefni þetta aðeins vegna þess, að ég vona, að með þessum dæmum sé sýnt fram á, hvílík firra það væri, að nokkur ríkisstj. hefði rétt til þess að gera þetta. Ég hef ekki getað fundið þennan lagalega grundvöll. Ég álít, að hann sé ekki til. Væri hann til, þá væri það hættulegur lagagrundvöllur. Ég vonast til þess, að hæstv. ríkisstj. gefi nú sín svör við þessu og upplýsi, hvar þessi grundvöllur er. Það, sem fyrir mér vakir í þessu, er að tryggja þann rétt, sem Alþingi á og því er heimilaður í stjórnarskránni að það eitt saman hefur lagalega heimild til þess að leggja gjöld á almenning. En hér er einstökum mönnum í landinu gefinn réttur til að leggja gjöld á almenning án laga frá Alþingi. Það er samsvarandi réttur eins og vissir aðalsmenn höfðu forðum daga, samsvarandi réttur og öll þing hafa alltaf barizt á móti, að nokkur aðili utan þinganna hefði.