05.11.1952
Sameinað þing: 10. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 99 í D-deild Alþingistíðinda. (2492)

57. mál, bátaútvegsgjaldeyrir

Stefán Jóh. Stefánsson:

Herra forseti. Ég skal nú ekki blanda mér mjög mikið inn í þær lögfræðilegu hugleiðingar, sem hér voru bornar fram í upphafi þessarar umr., annars vegar af flm. málsins og hins vegar af hæstv. viðskmrh. Ég vildi segja það aðeins sem mitt álit, að grundvöllurinn undir bátagjaldeyrisskipulaginu eða „vanskapnaðinum“ eigi sér a. m. k. mjög veika stoð í l. og um það megi mjög deila. En það er ekki aðalatriði, og það varð ekki til þess, að ég kvaddi mér hljóðs, heldur ætlaði ég með nokkrum almennum orðum að minnast að gefnu þessu tilefni og framkomu þessarar þáltill. á það, hversu mér finnst það rangt, hvernig hefur verið haldið á þessum málum frá upphafi. En áður en ég vík að því, vildi ég segja það, að eins og ég tel og mun reyna að rökstyðja síðar, að framkvæmdin með þeim vafasama eða kannske engum lagastuðningi, sem við er höfð í þessum efnum, sé óþingleg, eins og ég mun nánar koma að síðar, þá er líka þessi till., sem hér liggur fyrir, mjög óþingleg og hefur í raun og veru ekkert að segja. Ef bátagjaldeyrisfyrirkomulagið á stoð í l., þá er samþykkt till. einskis virði og getur ekki við því raskað. Ef bátagjaldeyrisfyrirkomulagið á ekki stoð í l., þá verður þessi till. ekki heldur, eins og hún er formuð, til þess að afnema þetta skipulag, sem búið er að koma á. Till. er því út í hött varðandi sjálft málið og er að mínu viti ákaflega óþingleg líka. En þá ætla ég að víkja að ástæðunum fyrir því, að þessi till. er fram komin, og þar er ég að verulegu leyti sammála hv. 2. þm. Reykv.

Hvað sem líður því, hvort nægilegur lagagrundvöllur í löggjöfinni um fjárhagsráð sé fyrir hendi til að koma á því skipulagi, — ég vil aftur segja þeim óskapnaði, sem í daglegu tali er nefndur bátagjaldeyrir, eða ekki, þá veit ég hitt með vissu, og það verður ekki umdeilanlegt, að framkvæmd hæstv. ríkisstj. á þessu máli er mjög óþingræðisleg og ólýðræðisleg. Ætti þetta skipulag stoð í l., þá eru, eins og hv. 2. þm. Reykv. tók fram, því eiginlega engin takmörk sett, hvað hægt væri að gera í þessum málum að Alþ. fornspurðu. Það mætti raunverulega tolla eða setja sérstaka skatta á meginhluta alls innflutnings til landsins, ef menn sæju ástæðu til þess að beita sömu starfsaðferðinni eins og hæstv. ríkisstj. hefur gert. Nú stendur svo á, að hæstv. ríkisstj. hefur ákaflega sterkt þingfylgi og ég býst við nokkuð samstæða flokka að baki sér, svo að það var engin ástæða fyrir hana að leggja inn á þessar óskemmtilegu brautir með stjórnarframkvæmdum án þess að afla sér um þetta öryggjandi grundvallar í l. og reglum frá Alþ. Það varðar löggjafarvaldið ekki litlu, hvort ríkisstj. tekur upp á því að segja, að á þessar vörutegundir, — ja, svo að segja takmarkalaust, — megi leggja ákveðið gjald, og ef það væri ekki fyrir því almenn heimild, sem ég álít ákaflega vafasamt, þá er hér farið inn á svo háskalegar slóðir, að ég vildi fyrir mitt leyti vara hæstv. ríkisstj. við því að halda áfram göngu sinni á þessari braut. Ríkisstj., hver sem hún er, á alltaf að reyna að afla sér á löggjafarþinginu fullra heimilda til að framkvæma málefni, og ekki sízt er til þess brýn nauðsyn, þegar framkvæmd málefnanna hefur það í för með sér, að lagðir eru stórkostlegir skattar á meginhluta þjóðarinnar, en það er gert með bátagjaldeyrisskipulaginu. Það er líka — vil ég segja — ólýðræðislegt eins og það er óþingræðislegt að fara inn á þessar brautir, og ég vildi nú mega vænta þess, hvort sem hæstv. ríkisstj. heldur áfram á þessari götu eða ekki eða jafnvel gerir meira að því en áður hefur verið gert í þessum efnum, að hún sæi sér fært eða réttara sagt teldi það rétt, teldi það óhjákvæmilegt, að Alþ. Íslendinga fjallaði um þessi mál og gæfi ríkisstj. fulla heimild til þess að framkvæma það, sem hún hefði í huga í þessum efnum. Á meðan svo er ekki gert, þá getum við átt von á öllu. Ef hæstv. ríkisstj. sér sér þörf á því að fá í staðinn fyrir 50 millj. í bátagjaldeyri til bátaútvegsins 100, 150, 200 millj. og jafnframt slíkan gjaldeyri til togaraútvegsins, þá gæti hún á sama hátt eins og hún hefur gert áður farið inn á það og sett meginhlutann af öllum innflutningi til landsins á sérstakan lista, sem farið er með á líkan hátt eins og farið er með bátagjaldeyrislistann. Þar að auki hefur komið fram við framkvæmd þessa máls, af því að um það gilda engar ákveðnar, skýrar reglur, ýmislegt, sem er að mínu viti talsvert óheillavænlegt.

Þetta skipulag eða skipulagsleysi er svo flókið, að það tekur langan tíma að reyna að setja sig inn í það. Það eiga að gilda varðandi útflutning á bátafiski mismunandi reglur eftir því, hvort bátafiskurinn er seldur til þeirra landa, sem eru í greiðslubandalagi Evrópuþjóðanna, til dollarasvæðisins eða til clearing-landanna svo kölluðu. Það gilda þrjár mismunandi og nokkuð ólíkar reglur — eða regluleysi — um þetta atriði. Ég tel alveg lífsnauðsynlegt og ekki sæmandi annað, en að meiri hluti Alþ., og hann á að ráða á hverjum tíma, setji um þetta skýrar og ákveðnar reglur. Nú er ég fyrir mitt leyti — og minn flokkur — andvígur þessu skipulagi eða skipulagsleysi, og ég vænti þess, að áður en langt um líður getum við borið fram í lagaformi breytingar hvað varðar þetta atriði, sérstaklega út af bátaútveginum, svo að Alþ. verði þá gefinn kostur á því að setja um þetta reglur, sem séu óvefengjanlegar, og ríkisstj. hafi þá óumdeilanlegt vald til að framkvæma þessar reglur. En sem sagt, það hefði verið ástæða til þess að fara inn á bátagjaldeyrisaðferðina, reyna að skýra hana nokkuð, en það yrði svo langt mál, að ég vil ekki gera það í sambandi við þessa einkennilegu tillögu, en þess mun gefast kostur síðar hér á Alþ. að fara nokkru nánar inn á málið sjálft. Hitt vil ég segja hæstv. ríkisstj., þótt ég sé í ákveðinni andstöðu við hana, að ég vildi gefa henni þau góðu ráð og mælt af heilum hug að halda ekki áfram á þessari braut með bátagjaldeyrinn með þeim hæpnu, vafasömu eða engum lagaheimildum, sem fyrir hendi eru. Það kann að koma önnur stjórn, sem jafnvel gæti verið verri en þessi stjórn, — það kann að geta komið fyrir, ekkert getur maður útilokað, — og hefði þá fengið slíkt fordæmi, að hún mundi óhikað fara inn á líkar brautir og núverandi hæstv. ríkisstj. og taka þá 90% af öllum innflutningi til landsins, leggja á hann þunga skatta og byrðar án þess að hafa nokkra almenna eða sérstaka heimild í l. um þetta atriði. Hæstv. ríkisstj. ætti ekki að gefa eftirkomendum sínum slíkt fordæmi og slíkt vopn í hönd, óvönduðum mönnum, sem einhvern tíma kynnu að komast í ríkisstj. og vitnuðu til þessarar hæstv. ríkisstj., þeirrar ríkisstj., sem hefur haft einna sterkastan þingmeirihluta á bak við sig, og segðu, að þetta gerði hún og ekki sögðu fylgismenn hennar á Alþ. neitt, þeir vissu um þetta, þeir gerðu þetta samt í ríkisstj., — því megum við þá ekki gera það, úr því að þeir gerðu það? Það er aðeins stigmunur, en ekki eðlismunur, þó að í staðinn fyrir 50 milljónir komi 150 milljónir, en þá sjá allir, hversu komið er inn á háskasamlega braut.

Ég vildi aðeins vekja athygli á þessari afstöðu minni til málsins, sem hér um ræðir, þótt tillagan, sem fyrir liggur, sé, eins og ég sagði áðan, ekki sérstaklega þingleg og ekki til þess löguð að ná þeim árangri, sem kann að hafa vakað fyrir hv. flm.