20.10.1952
Neðri deild: 11. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 34 í B-deild Alþingistíðinda. (25)

19. mál, tekjuöflun til íþróttasjóðs

Viðskmrh. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Frv. þetta er til staðfestingar á brbl., sem gefin voru út 16. júní þ. á. Það hefur legið fyrir hv. Ed. og verið samþ. þar breytingalaust. Ástæðan fyrir því, að þessi lög voru gefin út, er sú, að rn. notaði heimild í l. nr. 84 frá 1940 um tekjuöflun til íþróttasjóðs, og sú heimild er þess efnis, að íþróttasjóði er gefið leyfi til þess að stofna til veðmálastarfsemi. Þessi heimild var gefin í vor, en þegar til framkvæmda átti að koma, var sýnilegt, að starfsemin mundi ekki verða rekin með neinum hagnaði, nema því aðeins að hún hefði sömu fríðindi og happdrætti háskólans og happdrætti ríkissjóðs, eða með öðrum orðum, að vinningar í veðmálastarfseminni væru skattfrjálsir á því ári, sem þeir falla til útborgunar, að öðru leyti en því, að greiddur er af vinningunum eignarskattur, eins og er um þau happdrætti, sem ég hef nefnt.

Það kom til tals, þegar þessi heimild var gefin, sem ég nú hef minnzt á, að nokkuð af þeim hagnaði, sem kæmi af þessari starfsemi, rynni til annarra þjóðnytjafyrirtækja en íþróttasjóðs eða íþróttastarfseminnar í landinu, og var þar meðal annars talað um, að eitthvað af hagnaðinum rynni til vísindastarfsemi. Þetta tíðkast nú orðið á Norðurlöndum, að hagnaði af þessari starfsemi þar sé skipt á milli íþróttastarfseminnar og vissrar vísindastarfsemi. Hins vegar þótti ekki fært að setja þessi skilyrði hér þegar í byrjun, að nokkuð af hagnaðinum skyldi renna til annars, en íþróttastarfseminnar, fyrr en fengin væri nokkur reynsla af því, hversu mikinn hagnað þessi starfsemi gæfi. Með það fyrir augum var heimildin gefin til 3 ára og gert ráð fyrir því, að á þessu 3 ára tímabili mundi koma í ljós, hvort hagnaður væri svo mikill, að ástæða væri til að skipta honum. Þessi hlið málsins var nokkuð rædd í Ed. Hv. 4. þm. Reykv. kom þar með till. um, að 3/4 hlutar hagnaðarins gengju til byggingar sjúkrahúsa, en d. féllst á, að sanngjarnt væri, að nokkur reynsla fengist fyrir þessari starfsemi og hvað mikið hún gæfi af sér, áður en hagnaðinum væri ráðstafað öðruvísi, en í öndverðu var gert ráð fyrir. — Að lokinni þessari umr. legg ég til að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. menntmn.