23.10.1952
Neðri deild: 13. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 130 í B-deild Alþingistíðinda. (250)

5. mál, Búnaðarbanki Íslands

Stefán Jóh. Stefánsson:

Herra forseti. Ég hafði ekki ætlað mér að taka þátt í þessum umr. Ég fylgi frv. því, sem hér liggur fyrir, eins og komið hefur í ljós með undirskrift minni undir nál. meiri hl. fjhn., en það voru hinar almennu umr., sem sprottið hafa upp í sambandi við þetta mál, sem gefa mér tilefni til þess að minnast með örfáum orðum á sambærilega sjóði, að ef ríkið ætti að fara að greiða vaxta- og við skulum segja lánslengingarmismun á útveguðu fé til Byggingarsjóðs Búnaðarbankans, þá fyndist mér sjálfsagt, að sama yrði látið gilda um annan líka mjög merkan sjóð, sem er Byggingarsjóður verkamanna. Hann hefur líka fengið að láni af hagnaði bankanna í sambandi við gengisbreytinguna hluta af rekstrarafgangi ríkisins árið 1951, en verður að greiða í vexti af þessum lánum miklu hærra, en nemur þeim vöxtum, sem samkv. l. um verkamannabústaði eiga að greiðast til hans fyrir þau útlán, sem hann veitir til byggingar verkamannabústaða. Ég sá ekki ástæðu fyrir mitt leyti að taka Byggingarsjóð Búnaðarbankans út úr og með því móti fylgja brtt., sem hér hefur verið til umr., en ég er mjög til umræðu um það, ef farið yrði inn á breyttar leiðir í þessu efni, að þá teldi ég alveg sjálfsagt, að það sama yrði látið gilda um sambærilega útlánasjóði eins og Byggingarsjóð verkamannabústaðanna. Og þegar hæstv. fjmrh. minntist á það, að hans ágæti flokkur hefði, að mér skilst á seinasta flokksþingi, talað um það, að ein leiðin til þess að greiða fyrir meira rekstrarfé, m.a. til Byggingarsjóðs Búnaðarbanka Íslands til bændanna, væri sú, sem hv. 5. landsk. minntist á, að geta eftir þau lán, sem ríkissjóður hefur veitt bankanum eða sjóðnum í þessu skyni, þá vildi ég mega vænta, að lítið yrði þá líka til Byggingarsjóðs verkamanna og ekki yrði beitt einni aðferðinni gagnvart Byggingarsjóði bænda og annarri aðferð gegn Byggingarsjóði verkamanna. Ég er sem sagt mjög til viðræðu um það atriði, ef það ætti að fara að breyta út af þessu, og teldi þá alveg sjálfsagt, að Byggingarsjóður verkamanna nyti þess ekki síður, en Byggingarsjóður bændanna. Hvor tveggja er mjög nytsamur sjóður og hefur greitt fyrir því, að alþýðan, bæði í kaupstöðum og kauptúnum annars vegar og sveitum landsins hins vegar, hefur átt þess kost að reisa sér býli með lánsfé, sem veitt hefur verið með tiltölulega hagkvæmum kjörum. Ég vildi mega vænta þess, að það væri hægt að halda þessum kjörum enn þá betri, bæði til bænda og verkamanna, en ég vildi alveg sérstaklega drepa á það nú í þessu sambandi, að það eru fleiri en alþýðan í sveitunum, sem eiga við örðugleika að búa varðandi lánsfé til nauðsynlegra íhúðarhúsabygginga. Það er kannske ekki síður alþýðan í kaupstöðum og kauptúnum, og þá fyndist mér rétt, að ekki yrði látið á hallast, og vildi ég mega vænta þess, þegar hæstv. fjmrh. kemur í ríki sitt og fer nánar að íhuga þessi mál, að hann muni ekki einungis eftir bændunum, heldur hugsi hann til þess líka, að það er til önnur stór stétt í landinu, sem heitir verkamenn, og þeir eiga líka ekki síður rétt, en blessaðir bændurnir.