26.11.1952
Sameinað þing: 16. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 117 í D-deild Alþingistíðinda. (2501)

57. mál, bátaútvegsgjaldeyrir

Flm. (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. Þetta mál, sem hér um ræðir, er með öðrum orðum um það, hvort ríkisstj. hafi látið taka af almenningi yfir 100 millj. kr. án þess að hafa nokkurn lagabókstaf að styðjast við, og nú hafa hæstv. ráðh. í þessum umr., sem hér hafa farið fram, algerlega gefizt upp við að reyna að finna nokkurn lagagrundvöll fyrir þessum álögum á almenning. Fyrst hafði ríkisstj. sagt, að samkv. l. um fjárhagsráð, 11. og 12. gr., sem mæla fyrir um útgáfu gjaldeyrisleyfa, væri hægt að rukka þetta inn. Þetta hefur verið hrakið, vegna þess að það getur ekki verið um gjaldeyrisleyfi að ræða, sem væru veitt útflytjendum, af því að það má eingöngu veita þau innflytjendum, þannig að hæstv. ríkisstj. hefur ekki reynt að vitna lengur í 11. og 12. gr. fjárhagsráðsl. Þá kemur hæstv. viðskmrh. með það, að samkv. 13. gr. l. geti fjárhagsráð lofað útvegsmönnum að selja gjaldeyrinn. Ég las fyrir hann 13. gr. l., og í 13. gr. l. stendur berum orðum, að engir aðilar á Íslandi nema Landsbanki Íslands og Útvegsbanki Íslands h/f megi selja gjaldeyri. M. ö. o.: Sú yfirlýsing, sem hæstv. viðskmrh. gaf hér í umræðunum og hljóðaði á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta: „Fjárhagsráð hefur því óskorað vald um ráðstöfun gjaldeyris, þ. á m. að heimila útflytjendum öllum eða einhverri sérgrein útflytjenda að hafa frjáls umráð gjaldeyris síns að öllu eða einhverju leyti til innflutnings almennt eða bundið við sérstakar vörutegundir, sbr. bátalistann. Þeim, sem fá þennan ráðstöfunarrétt, er heimilt að notfæra sér hann á hvern þann hátt, er ekki brýtur í bága við fyrirmæli fjárhagsráðs, þ. á m. að selja gjaldeyrinn með hagnaði í einu formi eða öðru, ef slík sala er heimiluð af fjárhagsráði“ — þessi yfirlýsing viðskmrh. brýtur algerlega í bága við l. um fjárhagsráð, 13. gr. Þar með er augljóst orðið, að hæstv. ríkisstj. hefur gefizt upp við að reyna að finna nokkurn lagagrundvöll fyrir þessum aðgerðum, sem sé fyrir bátaútvegsgjaldeyrinum svo nefnda. Hæstv. ríkisstj. reynir ekki að halda því fram, að hann styðjist við nokkur íslenzk lög, og seinasta, sem hæstv. viðskmrh. flýr til í öngþveiti sínu, var að reyna að segja: Ja, einu sinni í stjórn, sem Sjálfstfl. og Framsfl. sátu í áður, þá komu þeir á einhverju svipuðu þessu — og nú hefur það haldreipi líka verið hrakið og slitið fyrir honum af hv. þm. Hafnf. Það stendur ekkert eftir, ekki einu sinni það að reyna að vitna í, að þeir hafi sjálfir einhvern tíma áður brotið lög í einhverjum miklu minni mæli og undir allt öðrum kringumstæðum. Hæstv. ríkisstj. stendur uppi sem lögbrjótur, sem hefur heimilað ákveðnum aðilum á Íslandi, sem hafa engan lagalegan rétt, hvorki til að fá gjaldeyristekjur né til að selja gjaldeyri, að leggja á almenning nú á annað ár meira en 100 millj. kr. og innheimta þetta hjá almenningi með dýrum innheimtulaunum, án þess að nokkur lagabókstafur sé þessu til stuðnings. M. ö. o.: Hæstv. ríkisstj. hefur látið einstaka aðila í landinu seilast niður í vasa almennings og taka fé úr vasa almennings, án þess að þeir eða ríkisstj. hafi til þess nokkra heimild, og ég þarf ekki að segja, hvað slíkur verknaður er kallaður.

Nú vil ég leyfa mér, fyrst hæstv. ríkisstj. treystir sér nú ekki lengur til að halda uppi vörnum og finna neinn lagalegan grundvöll fyrir sínum aðgerðum, að koma fram með þá fyrirspurn, hvort hæstv. ríkisstj. hafi verið það ljóst, áður en hún lagði í þessar ólöglegu aðgerðir, að þær væru ólöglegar. Ég hef áður lesið hér upp auglýsinguna um innflutningsréttindi bátaútvegsmanna frá 7. marz 1951, sem var gefin út af fjárhagsráði, og ég minnti á það og lagði sérstaka áherzlu á, hve einkennilega þessi auglýsing byrjaði. Hún byrjaði þannig, með leyfi hæstv. forseta: „Samkvæmt ósk ríkisstjórnarinnar og með tilvísun til samkomulags, sem hún hefur gert við Landssamband ísl. útvegsmanna, er hér með gefin út eftirfarandi auglýsing.“

Hver einasta reglugerð eða auglýsing, sem ríkisstj. gefur út, byrjar almennt með eftirfarandi formúlu: Samkvæmt lögum nr. þetta og þetta, dags. þennan og þennan dag, þetta ár, gefur ríkisstjórnin út svo hljóðandi reglugerð — eða ef um auglýsingu er að ræða: Samkvæmt reglugerð um þetta og þetta. — M. ö. o.: Fjárhagsráð hefur látið gefa út þessa reglugerð eða þessa auglýsingu. Það treystir sér ekki til þess að vitna í nokkur íslenzk lög, og nú vil ég spyrja: Fór fjárhagsráð fram á það við hæstv. ríkisstj., að hún vitnaði í ákveðin lög í þessu sambandi? Og ég vil, svo framarlega sem svo undarlega kunni við að bregða, að hæstv. ríkisstj. treysti sér ekki til þess að svara þessu, og af því að ég er með mína seinustu ræðu, sem ég hef rétt til þess að halda í þessu máli, leyfa mér hér að halda því fram, að fjárhagsráð hafi, þegar því var fyrirskipað að gefa út þessa auglýsingu, mótmælt þessari aðferð með tilvísun til þess, að hún styddist ekki við lög. Ég vil leyfa mér að halda því hér fram, að fjárhagsráð hafi séð, að þetta var ólöglegt, og hafi mótmælt þessu og þess vegna sé sett þarna í byrjun: „Samkvæmt ósk ríkisstj.“ M. ö. o.: Það er sett yfir á ríkisstj. öll ábyrgð af útgáfu þessarar auglýsingar. Þá fer yfirlýsing hæstv. viðskmrh., sem ég vitnaði hér í áðan, að þýða svolítið annað. Hann sagði þar, að fjárhagsráð hefði óskorað vald um ráðstöfun gjaldeyris og fjárhagsráð mætti m. ö. o. leyfa hvaða aðilum sem væri að selja gjaldeyri með hagnaði, 50%, 60%, 100% eða hvað sem væri, m. ö. o. gæti fjárhagsráð tekið, ef það vill, allan gjaldeyri landsmanna og látið selja hann á því verði og með þeim hagnaði, sem því þóknaðist. Þessi yfirlýsing ráðherrans fer þá að þýða, að hæstv. ríkisstj. hafi rétt til þess, hvað sem fjárhagsráð áliti, að fyrirskipa fjárhagsráði gegn þess vilja að leyfa ákveðnum mönnum í landinu að selja gjaldeyrinn með þeirri álagningu, sem þeim þóknaðist. Þá fer að verða enn þá eftirtektarverðara, hvers vegna hæstv. ríkisstj. treystir sér ekki til þess að ræða þetta mál hér og hve hættuleg sú yfirlýsing, sem viðskmrh. hér hefur gert, er. M. ö. o.: Á rúmu ári hafa verið teknar 100 millj. kr. án nokkurs lagagrundvallar af almenningi. Samkv. þessari yfirlýsingu getur ríkisstj. fyrirskipað að taka 200 millj. kr. eða hvað sem vera skal sem álagningu á gjaldeyri, sem selst.

Þá vil ég enn fremur leyfa mér að spyrja hæstv. ríkisstj. að öðru í þessu sambandi. Hér hefur nokkuð verið um það rætt, að þetta sé ekki aðeins brot á íslenzkum lögum, en þó legg ég nú mest upp úr því. Hér hefur verið um það rætt líka, að þetta sé brot á samningi, sem Ísland hefur gert við alþjóðagjaldeyrissjóðinn, og að ríkisstj. hafi farið á bak við stjórn þess sjóðs, þegar ákvæðin um bátaútvegsgjaldeyrinn voru sett, og ég vil leyfa mér að spyrja hæstv. ríkisstj.: Gerði sá eftirlitsmaður, sem hér var á ferð í haust frá alþjóðagjaldeyrissjóðnum, athugasemd við þessar aðfarir, sem hér hafa verið hafðar í frammi? Það væri gott að fá upplýsingar um það. Þó vil ég segja það í því sambandi, að ég mundi nú ekki deila svo skarplega á ríkisstj., ef hún væri á einhvern hátt að reyna að fara á bak við alþjóðagjaldeyrissjóðinn og reyna að smokka sér undan einhverjum fjötrum, sem lagðir hefðu verið henni á herðar af þeim sjóði, ef hún væri með því að vinna gagn fyrir almenning hér á landi, en ef hún, um leið og hún brýtur alþjóðlegar samþykktir, sem hún hefur undirgengizt, er að brjóta íslenzk lög og vinna almenningi skaða, þá er öðru máli að gegna. — Ég vildi þess vegna leyfa mér að benda hv. þm. á, hver hætta er hér á ferðum. Ríkisstj. er að hrifsa til sín algert vald yfir að taka fé frá landsmönnum með því að selja gjaldeyri með hagnaði einstökum mönnum til handa án alls lagagrundvallar. Sá einkaréttur, sem er undirstaðan undir valdi þinga og undirstaða undir þingræði, einkaréttur Alþingis til þess að leggja álögur, skatta og tolla á landsbúa, er rofinn, ef ríkisstj. ætlar sér að innheimta slíkt af almenningi án nokkurra laga. Og ég verð að segja, að ég veit ekki, til hvers Alþingi er að samþykkja hér lög og heimila ríkisstj. með því að leggja ákveðna tolla, söluskatta og annað slíkt á almenning, ef ríkisstj. álítur sjálf, að hún geti tekið bæði sjálfri sér til handa og einstaklingum í landinu til handa eins mikið fé af almenningi og henni þóknast án nokkurra laga.

Svo vildi ég vekja athygli á öðru hættulegu í sambandi við þetta. Það er ástandið í réttarfarinu í landinu viðvíkjandi þessum hlut. Álagning bátagjaldeyrisins er ólögleg. En treystir nokkur maður í landinu sér að fara í mál við ríkisstj. út af álagningu þessa bátaútvegsgjaldeyrisskatts? Það hefur sýnt sig, að svo er ekki, og af hverju ekki? Af því að einn einstaklingur treystir sér almennt ekki að leggja út í langan og dýran málarekstur við ríkið, sökum þess að ríkisstj. virðist hafa dómstólana í landinu svo í hendi sér, að þeir þori ekki að dæma almenningi rétt, ef hagsmunir ríkisstj. eru á móti. M. ö. o.: Með því valdi og tökum, sem ríkisstj. virðist hafa á dómstólunum, er ekkert réttaröryggi orðið til í landinu fyrir því, að ekki sé hægt að leggja álögur á almenning ólöglega og heimta þær inn, og ég vil vekja athygli hv. þm. á því, að með álögur eins og þær, sem hér er um að ræða, þá háttar þeim þannig, að þó að einn maður færi í mál út af þessum málum og þó að einhver dómarinn yrði svo djarfur að dæma bátaútvegsgjaldeyrinn ólöglegan, hvað mundi þá hljótast af því? Jú, það mundi hljótast af því, að það ætti að greiða til baka bátaútvegsgjaldeyrinn. Og hvernig mundi það vera hægt? Það er búið að selja vörurnar með bátaútvegsgjaldeyrinum til almennings í landinu, og það er óhugsandi að ætla að greiða þetta aftur til þeirra .aðila, sem þetta hefur ranglega verið tekið af. M. ö. o.: Ef dómstólar kynnu að líta svo á, að hér hefði verið framinn þjófnaður, þá er ekki hægt að skila þýfinu til baka. Ég vona, að hv. þingmenn skilji, hvað þetta þýðir. Það þýðir, að þegar svona ólöglegur verknaður er framinn eins og álagning bátaútvegsgjaldeyrisins í þessu sambandi, þá er með því að fremja verknaðinn búið að ná þessum peningum fyrir fullt og allt af almenningi, jafnvel þó að verknaðurinn yrði dæmdur ólöglegur seinna. M. ö. o.: Það er verið að skapa algert lögleysisástand í landinu, verið að þurrka allt réttarfar út, verið að rífa grundvöllinn undan öllu þingræði og skapa gerræði til handa ríkisstj. til að leyfa einstökum mönnum að taka fé af almenningi eftir því, sem þeim þóknast, á sama hátt eins og t. d. franskir aðalsmenn fyrir stjórnarbyltinguna frönsku höfðu rétt til þess að innheimta skatta og tolla af almenningi í landinu, eftir því sem þeim þóknaðist. Þetta er það, sem nú er að gerast. Og með þessum aðferðum þykist ríkisstj. vera að leysa vandamál atvinnulífsins í landinu. Og haldist henni þessi lausn uppi, þá getur hún haldið áfram að leysa öll sín vandamál með þessu móti, að taka fé af almenningi alveg eins og henni þóknast, því að ef hún má taka það til handa útflytjendum ákveðinna fiskafurða, þá má hún líka taka það til handa ríkinu eða hvaða öðrum aðila sem er.

Ég álít, að með bátaútvegsgjaldeyrinum hafi verið framin alger lögleysa á Íslandi, sem dómstólarnir raunverulega ekki mundu ráða við, jafnvel þó að þeir reyndu að hafa hug til þess, sem ég því miður hef enga trú á að þeir mundu þora að hafa. Ég álít, að með þessu gerræði ríkisstj. sé skapað lögleysisástand hér á Íslandi, sem Alþ. verði að binda endi á, af því að það sé eini aðilinn í landinu, sem getur bundið endi á þetta ástand. Ef hér á að vera réttarríki, ef hér á að vera þingræði, þá er það Alþ., sem verður að grípa í taumana. Annars erum við að gefa hér ríkisstj. sams konar einveldi í hendur eins og konungar og einstakir aðalsmenn höfðu hér áður fyrr.

Ég hef áður sagt, að ef til vill væri réttast að láta þessa till. koma til atkv. strax og vísa henni ekki til n. Mér er að sumu leyti næst skapi, að hv. þingmenn fái strax að taka ákvörðun um þetta mál. Þó vil ég segja það, að ef til vill er hv. þm. stjórnarflokkanna nokkur vorkunn í þessu máli. Þeir hafa ef til vill gengið út frá því, að þeir mættu treysta á, að þeirra ríkisstj. gerði sig ekki seka um augljós og þaðan af síður vísvitandi lögbrot. Og til þess að gefa þeim tækifæri til þess að athuga sinn gang í þessu máli, mun ég nú gera till. um það, að málinu verði vísað til allshn.

Viðvíkjandi forminu á þessari till., þá álít ég, að allt sé í lagi með formið. Það er að vísu ákaflega sjaldgæft, að það þurfi að koma fyrir, að Alþ. fari að lýsa ákvarðanir, sem ríkisstj. hefur gert, ólöglegar, og að Alþ. álíti sig þurfa að taka fram fyrir hendur dómstólanna í landinu til þess að bjarga ástandinu í landinu frá opinberri hneisu og leiðrétta það réttleysi, sem verið er að koma á. Þær sérstöku kringumstæður, sem hér eru, gera þetta hins vegar óhjákvæmilegt. Sæi hins vegar hv. allshn., ef þetta mál fer til hennar, betri hátt um orðun þessarar þál., þá hef ég ekkert á móti því og þaðan af síður, ef hv. allshn. hefði forgöngu um það, að ríkisstj. kippti því í lag, sem hér hefur farið svo hræðilega illa hjá henni. Ég veit, að hæstv. ríkisstj. hefur meiri hluta hér í Alþ. að styðjast við og hún getur komið fram lögum, sem gera þennan bátagjaldeyri löglegan. En þá ber henni líka að gera það. Það nær vitanlega ekki nokkurri átt, að Alþ. láti það viðgangast, að meira en 100 millj. kr. séu innheimtar af almenningi í landinu, án þess að þetta sé löglegt, sem sé tekið af almenningi með ofbeldi, og þaðan af síður, þegar það kostar tugi millj. króna, sem almenningur verður líka að borga, að innheimta þetta ólöglega álag.

Ég leyfi mér því með þessari forsendu að leggja til, herra forseti, að þessari till. verði vísað til allshn.umr. lokinni.