09.10.1952
Sameinað þing: 4. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 124 í D-deild Alþingistíðinda. (2521)

41. mál, eftirlitsbátur fyrir Norðurlandi

Flm. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Till. sú, sem hér liggur fyrir, er flutt af mér og tveimur öðrum hv. þm., hv. 1. þm. Eyf. (BSt) og hv. þm. Ak. (JR). Svo sem tillgr. ber með sér, er tilgangur þessarar þáltill. sá að leggja á það sérstaka áherzlu við ríkisstj., að gerðar verði ráðstafanir til þess, að sérstakt eftirlitsskip geti orðið staðsett fyrir Norðurlandi á næstu vertíð eða á þessum vetri.

Orsakir þessa eru tvær. Í fyrsta lagi sú, sem augljóst er að gildir að sjálfsögðu jafnt þar sem annars staðar umhverfis landið, að stækkun landhelginnar hefur skapað verulega þörf á aukinni landhelgisgæzlu, þar sem hættan á ágengni á landhelgina hefur að sjálfsögðu aukizt að miklum mun. Má þess vegna gera ráð fyrir því, enda hafa komið fram till. og áskoranir áður á hinu háa Alþ. til ríkisstj. um það, að lögð verði áherzla á að auka landhelgisgæzluna víðs vegar við strendur landsins. — En það er einnig önnur ástæða, sem veldur því, að þessi till. er borin fram, og sú ástæða er ekki síðri en hin fyrri, en hún er sú, að mjög mikil nauðsyn er, að eitthvert skip sé norðanlands yfir veturinn, sem aðstoðað geti báta, ef þeir lenda í erfiðleikum eða neyð, og er þar um að ræða hið mesta nauðsynjamál og öryggismál fyrir sjómenn á þessu svæði. Svo sem hv. alþm. er kunnugt, hefur það verið mikið áhugamál Norðlendinga að fá sérstakt björgunarskip fyrir Norðurland, og vonir standa nú til, að skriður komist á það mál og framkvæmdir verði hafnar í því efni innan skamms. En það hlýtur þó að dragast, svo að á næsta ári a. m. k. eða næstu árum jafnvel verði slíkt skip ekki til staðar, en tvímælalaus nauðsyn og að því er við hyggjum óhjákvæmilegt að gera einhverjar ráðstafanir til þess, að skip verði þá fengið til bráðabirgða á þetta svæði, þar til björgunarskipið kemur, sem væntanlega mundi þá einnig taka við því starfi að annast að einhverju leyti landhelgisgæzlu á þessu svæði.

Bæði sjómenn og útvegsmenn nyrðra hafa lagt mikla áherzlu á það, að þetta mál kæmist í framkvæmd. Það er að vísu svo, að varðskip hafa verið nyrðra öðru hverju. En svo sem ég sagði í upphafi máls míns, þá er á það lögð mikil áherzla af þeim aðilum, sem hagsmuna hafa að gæta í sambandi við þetta mál, að það verði reynt að tryggja það, að eftirlitsskip geti verið staðsett nyrðra að öllu leyti allan næsta vetur eða yfirleitt verið þar að staðaldri.

Við lögðum þessa till. nú þegar fram í byrjun þingsins, til þess að hv. fjvn. gæfist kostur á að taka þetta mál til athugunar í sambandi við afgreiðslu fjárl. Kom fram till. um sama efni í fyrra á þingi, en sú till. náði þá ekki endanlegri afgreiðslu, og var að því vikið þá í umr. um það mál, að hún væri það seint á ferð, að ekki væru tök á því, miðað við þá fjárhæð, sem veitt væri til landhelgisgæzlu, að sinna því máli nema að takmörkuðu leyti. Það er því von okkar flm., þar sem þetta mál kemur svo snemma til meðferðar Alþ. nú, að hv. fjvn. gefist kostur á að taka það til rækilegrar athugunar, og við viljum vænta þess, að n. ljái málinu sitt liðsinni og að sá árangur fáist í málinu, sem til er stofnað með till.

Ég tel ekki þörf á að orðlengja þetta frekar, till. skýrir sig að öðru leyti sjálf, en vil leggja til, að henni verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. fjvn.