03.12.1952
Sameinað þing: 20. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 127 í D-deild Alþingistíðinda. (2526)

41. mál, eftirlitsbátur fyrir Norðurlandi

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Ég vildi aðeins nota tækifærið til þess að þakka hv. fjvn. fyrir undirtektir hennar við þetta mál. Hér er um að ræða, eins og hv. frsm. n. hefur að vikið, mjög mikið hagsmunamál fyrir sjómenn og útveg allan á Norðurlandi og því mikils um vert, að hægt sé að leysa þennan vanda. Það hefur oft leitt af sér mikla hættu, að ekki skyldi vera neitt skip norðanlands, sem hægt væri að leita til fyrir sjómenn, sem lent hafa í hrakningum af ýmsum ástæðum á bátum sínum, og því er hér um að ræða mál, sem er ákaflega mikilvægt, að hægt sé að leysa og að þar verði um að ræða varanlega lausn. Ég fagna þess vegna þeim upplýsingum, að gert sé ráð fyrir því, að hægt sé að hafa þetta eftirlitsskip nyrðra nú í vetur og næsta vor, og vænti þess jafnframt, að þannig verði frá þessum málum gengið, að þar geti verið eftirlitsskip að staðaldri á næstu árum a. m. k., þar til hægt verður að koma upp sérstöku björgunarskipi fyrir Norðurlandi.