05.12.1952
Sameinað þing: 21. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 138 í D-deild Alþingistíðinda. (2553)

119. mál, varahlutir til bifreiða

Steingrímur Aðalsteinsson:

Herra forseti. Ég hef því miður ekki fylgzt með þeim umr., sem hér hafa farið fram um þessa till., því að ég var rétt að koma hér inn, og veit ekki, hvað fram hefur komið í framsögu n., en í nál., sem áður hefur verið útbýtt, er lagt til, að þessari till. sé vísað til ríkisstj. Ég get því miður ekki verið hv. allshn. sérstaklega þakklátur fyrir þessa afgreiðslu, því að ég hefði talið fulla þörf á því, að till, hefði verið samþykkt og ráðstafanir gerðar til þess að nema þær vörur, sem hér er um að ræða, af bátagjaldeyrislistanum, því að eins og ég færði fullgildar sannanir fyrir í framsögu minni fyrir þessu máli á sínum tíma, þá er í skjóli þessa fyrirkomulags, sem er á sölumeðferð þessara vara, alveg óheyrilegt verð á þeim og hefur frá 1949 og fram á fyrri hluta þessa árs fjórfaldazt samkv. þeim verðlista, sem ég lagði fram frá einu fyrirtæki hér í bænum, sem verzlar með þessar vörur.

Hv. allshn. virðist kannast við það í sínu nál., að atvinnubifreiðarstjórar og aðrir, sem þurfa að sæta þessum kjörum, eigi í miklum erfiðleikum með atvinnurekstur sinn vegna þessa háa verðlags. en þykist hins vegar ekki geta fundið neina leið til þess að lagfæra þetta og telur ekki sanngjarnt, að þetta sé numið af bátagjaldeyrislistanum fremur en ýmsar aðrar vörur, sem þar séu. Auk þess virðist n. telja, að þær vörur, sem hér er um að ræða, séu í svo mörgum tilfellum ekki nauðsynlegar, að það einnig gefi ástæðu til þess að samþykkja ekki þessa till., en þykist hins vegar ekki finna neina leið til þess að greina á milli þess, sem nauðsynlegt sé, og þess, sem ekki sé nauðsynlegt. Ég geri ráð fyrir því, að n. hljóti að kannast við það, að þær bifreiðar, sem notaðar eru til mannflutninga, svo sem áætlunarbifreiðar, og auk þess a. m. k. verulegur hluti þeirra leigubifreiða, sem notaðar eru til mannflutninga, — það má kannske segja að það mætti fækka þeim, — en að verulegur hluti þeirra sé líka nauðsynlegur, þar sem bifreiðin er þó svo að segja eina samgöngutækið, sem við höfum til slíkra flutninga hér á landi, þ. e. a. s. landflutninganna. Auk þess held ég að ekki verði á móti því mælt, að vörubifreiðar, sem notaðar eru í mjög stórum stíl til vöruflutninga, séu líka nauðsynleg flutningatæki og þá sé líka nauðsynlegt hvað allar þessar bifreiðar varðar að hafa varahluta, svo að hægt sé að halda þessum bifreiðum í því lagi, sem óhjákvæmilegt er. Að þessu marki hljóta þess vegna varahlutar til bifreiða að vera alveg bráðnauðsynlegur varningur. Og það er með tilliti til þess, sem till. er flutt. Hinu er svo að sjálfsögðu ekki hægt að neita, að ýmsar bifreiðar í eigu einstaklinga, sem þeir nota sér til þæginda og í ýmsum tilfellum til gamans, eru minna nauðsynlegar. En ég held, ef það er þetta, sem vakir fyrir n., að hún vilji ekki hlynna að slíkri notkun bifreiða, þá væri hægt, ef vilji væri fyrir hendi til þess, að greina þar á milli með öðrum hætti, en þeim að hafa mismunandi verð á varahlutum til bifreiðanna eftir því, til hvers þær eru notaðar. Það væri t. d. mjög auðvelt með sérstökum skatti á þær bifreiðar, sem ekki væru taldar nauðsynlegar. Og það er nú svo, að einu sinni var gerður nokkur greinarmunur á þessu. Það var t. d. í sambandi við benzínskattinn og bifreiðaskattinn, eða sérstaklega þó í sambandi við bifreiðaskattinn. Þegar fyrst voru sett lög um hann, þá var hann til muna hærri á bifreiðum, sem kallaðar voru lúxusbifreiðar, heldur en atvinnubifreiðum. Síðar var þessu breytt, ekki á þann veg að gera frekari greinarmun á þessu, sem menn nú virðast vilja kalla óþarfar bifreiðar, og að þyngja álögurnar á þær, heldur á hinn veginn, að þetta var jafnað út, svo að skatturinn kom í það horf, að hann var settur jafnþungur, hækkaður á atvinnubifreiðum til jafns við það, sem var á einkabifreiðum, svo að það virðist ekki hafa hingað til verið hér á Alþ. sérstaklega mikill áhugi fyrir því að sýna nokkra andúð á því, sem mætti kalla lúxusbifreiðar eða bifreiðar, sem ekki væru nauðsynlegar. Nú virðist aftur komin hér fram sem röksemd fyrir því að samþ. ekki þessa till., að slíkar bifreiðar séu til og óþarfi sé að vera að undanþiggja varahluta til þeirra því álagi, sem sett hefur verið með bátagjaldeyrislistanum og íþyngt hefur bifreiðaeigendum almennt á þann hátt, sem ég áður hef lýst. Ég vil fyrir mitt leyti ekki taka þessa röksemd gilda, sízt af öllu eftir það, sem áður hefur gerzt í því efni hér á Alþ. Ég tel, að hún sé ekki frambærileg ástæða til þess að vísa þessari þáltill. hér frá á þeim grundvelli.

Það virðist vera, að n. hafi þótt nokkur vandi á höndum með það að vísa þessari till. frá eða drepa hana með öllu, og er ég ekkert hissa á því, því að rökin fyrir því að samþ. hana eru það sterk, og þess vegna hefur n. valið þá leið að ganga ekki alveg hreint til verks og leggja til, að till. yrði felld hér, heldur að henni yrði vísað til ríkisstj. Og þau vingjarnlegu ummæli, sem segja má að felist hér í þessu áliti n., má kannske skoða sem eins konar blóm á kistuna, og legg ég nú ekki mikið upp úr því út af fyrir sig. En í tilefni af þessari aðferð, sem n. viðhefur, þá vildi ég leyfa mér að spyrja hana, — ef til vill hefur komið eitthvað fram um það í framsöguræðu, mér er ekki kunnugt um það, af því að ég heyrði hana ekki, — en ég vildi leyfa mér að spyrja n. og hv. frsm., hvort nefndin hafi rætt þetta mál við hæstv. ríkisstj. og að hún hafi einhverja rökstudda ástæðu til þess að gera ráð fyrir því, að ríkisstj. aðhafist eitthvað í málinu til linunar á þessum skatti og til þess að greiða fyrir því, að atvinnubifreiðarstjórar og þeir eigendur bifreiða, sem teljast verða nauðsynlegar, fái einhverja leiðréttingu sinna mála, því að ef n. hefur ekki gert þetta og hefur ekki neina rökstudda ástæðu til þess að ætla, að eitthvað slíkt verði gert í málinu, þá hefði ég talið, að það hefði verið miklu hreinlegra af henni að leggja blátt áfram til, að till. yrði drepin hér strax.