05.02.1953
Sameinað þing: 37. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 149 í D-deild Alþingistíðinda. (2565)

159. mál, hafnarsjóður Ísafjarðar

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Það er algerður misskilningur af hendi hv. form. fjvn., að ég hafi nokkuð sakað fjvn. fyrir að hafa tafið málið eða legið á því. Hitt sagði ég, að afleiðing þess, að Alþ. tæki nú ekki efnislega afstöðu til málsins og afgreiddi það ekki á þessu þingi, yrði sú, að ekki yrði hægt að hefjast þarna handa fyrr en að rannsókn lokinni, þ. e. a. s. fyrr en eftir mitt sumar. En strax á næsta vori hefði þurft að hefja byggingu mannvirkja í þjónustu atvinnulífsins á Ísafirði á uppfyllingunni við þennan hafnarbakka. Og það er þessi dráttur, sem ég lýsti áðan, sem kemur til með að verða mjög bagalegur og dýr Ísafjarðarkaupstað, af því að Alþ. fæst ekki til að taka efnislega afstöðu til málsins nú og þykir nauðsyn á rannsókn.

Hins vegar tel ég það líka alveg að tilefnislausu hjá hv. form. fjvn. að koma hér sérstaklega til þess að lýsa því yfir, að fjvn. hafi ekki gefið nein loforð um að bæta það tjón, sem hér hafi á orðið. Það hafði enginn hermt neitt slíkt loforð upp á hv. fjvn., því að hún hefur enga þá rausn sýnt í þessu máli, og var þess vegna alveg að tilefnislausu fram tekið. Hitt er vitanlegt, að úr því að rannsókn á að fara fram, þá bíður það þangað til sú rannsókn hefur legið fyrir, að hæstv. ríkisstj. eða Alþ. kannske næst taki afstöðu til málsins efnislega.

Ég sé svo ekki ástæðu til að orðlengja frekar um málið, en tel, að oft hafi nú Alþ. að fengnum ófyllri og lakari upplýsingum, en hér liggja fyrir í grg., sem eru útdrættir úr fundargerðabókum hafnarnefndar frá því að verkið hófst og þangað til á s. l. hausti, tekið ákvarðanir um jafnvel stærri mál, en þetta. Þetta þýðir í raun og veru það, að farið var fram á 400 þús. kr. mótframlagslausa greiðslu úr ríkissjóði, sem ríkissjóður samkv. hafnarlögum kæmi undir öllum kringumstæðum til að borga 2/5 hluta af, og þá er þetta um eða innan við 200 þús. kr., sem gæti komið á ríkið að borga meira, ef Alþ. gerði sérstaka ályktun um að borga þetta tjón án mótframlags af hendi hafnarsjóðs Ísafjarðar.