20.11.1952
Sameinað þing: 15. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 154 í D-deild Alþingistíðinda. (2572)

15. mál, viðbótarsamningur við Norður-Atlantshafssamninginn

Finnbogi R. Valdamarsson:

Herra forseti. Í fyrra var samþykktur hér á hv. Alþ. viðbótarsamningur við Norður-Atlantshafssamninginn frá 1949, og var sá samningur um það, a.ð Grikkland og Tyrkland yrðu tekin inn í tölu þeirra ríkja, sem væru í Norður-Atlantshafsbandalaginu. Þá voru alþm. beðnir að samþykkja, að Íslendingar gengju í hernaðarbandalag við Grikki og Tyrki, tækju ábyrgð á landamærum þeirra ríkja og skuldbyndu sig til þess, að ef til árekstra kæmi á landamærum þeirra ríkja, sem þau teldu árás á sig, þá litu Íslendingar einnig á það sem árás á Ísland. Átti í þessu, að því er talið var, að felast mikið aukið öryggi fyrir Íslendinga. Nú liggur hér fyrir nýr viðbótarsamningur við Atlantshafsbandalagssamninginn, og er ekki að efa, að hér finnist enn nógu margir menn til þess að samþykkja hann, því að reynslan hefur sýnt, að það virðast vera hér nógu margir til þess að samþykkja hvað sem hæstv. utanrrh. leggur fyrir þingið, ef það er talið afleiðing af því, sem gert var árið 1949, þegar Ísland var tekið inn í Atlantshafsbandalagið. Menn virðast ætla, að það verði að taka öllum afleiðingum af því, sem þá var gert, með því að samþykkja allt, sem þetta bandalag gerir, en það er alkunnugt, að í því bandalagi eru það Bandaríkin ein, sem ráða stefnunni, og svo er um þennan viðbótarsamning og það, sem bak við hann felst.

Af hálfu hv. stjórnarflokka hér hefur alltaf verið reynt að láta líta svo út sem það séu aðeins tvær stefnur uppi í heiminum, stefna Bandaríkjanna og hins vegar stefna Ráðstjórnarríkjanna og þeirra bandamanna. En einmitt í sambandi við umræður um þessa samninga og þá stefnu, sem á bak við þá felst, hefur komið í ljós, að þetta er alls ekki svo. Úti í Evrópu eru mjög sterk öfl, sem standa á móti þeirri stefnu, sem felst í þessum viðbótarsamningum. Þingflokkur brezka Verkamannaflokksins hefur t. d. samþykkt að berjast af alefli gegn því, sem felst í þessum viðbótarsamningum og er aðalatriði þeirra, en það er endurhervæðing Vestur-Þýzkalands. Og sú stefna þingflokks brezka Verkamannaflokksins var rækilega staðfest af nýafstöðnu flokksþingi hans. Þýzkir jafnaðarmenn hafa árum saman barizt af alefli gegn endurhervæðingu Þýzkalands undir forustu hins nýlátna foringja síns, Schumachers, og nýafstaðið flokksþing þýzka Sósíaldemókrataflokksins tók af öll tvímæli um það, að sá flokkur mun enn halda áfram þeirri baráttu, sem háð hefur verið af hans hálfu gegn því, að þessi viðbótarsamningur og þeir samningar, sem standa í sambandi við þennan viðbótarsamning, sem hér liggur fyrir, verði staðfestir af vestur-þýzka þinginu í Bonn. Það er þess vegna allsendis óvíst, að það, sem er skilyrði og forsenda þess, að þessir viðbótarsamningar gangi í gildi og verði að veruleika, eigi sér stað. Og hvað sem verður um þessa innlimun Þýzkalands í Atlantshafsbandalagið og endurhervæðingu þess, hvort sem það tekst nú að fá það fram á því þingi, sem nú er í Vestur-Þýzkalandi, eða ekki, þá er hitt víst, að þýzkir jafnaðarmenn gera sér vonir um það, að í kosningum, sem eiga að fara fram í Þýzkalandi innan eins árs, muni þeim takast að auka mjög áhrif sín og fylgi. Þeir hafa lýst því yfir, að þeir muni þá hiklaust afturkalla þá samninga, sem gerðir hafa verið af núverandi ríkisstjórn Vestur-Þýzkalands í þessu efni.

Nú á Alþingi Íslendinga að verða fljótt til og samþ. fyrir sitt leyti þessa viðbótarsamninga, áður en það er séð, hver verður niðurstaðan af þeirri hörðu baráttu, sem verður háð um þá stefnu, sem í þeim felst, en sú barátta mun fara fram á þingum aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins hinna helztu, eins og Bretlands og ekki sízt í Þýzkalandi sjálfu. Það má vera, að hér finnist ekki þeir jafnaðarmenn, sem vilji vekja athygli á baráttu jafnaðarmanna úti í Evrópu gegn þessari stefnu, sem Bandaríkin eru að knýja fram gegn mótmælum allra frjálslyndra afla, sem nú eru til í stjórnmálum Evrópu. En það er ekki vafi á því fyrir þá, sem fylgjast með baráttu jafnaðarmanna í Bretlandi og Þýzkalandi gegn þessari stefnu og þeim möguleikum, sem eru á því, að þeir flokkar fái aukin áhrif í náinni framtíð, að það er enn sem komið er mjög hæpið, að þessi stefna Bandaríkjanna nái fram að ganga. Brezkir og þýzkir jafnaðarmenn líta svo á, að þetta ríkjabandalag, sem Bandaríkin eru að reyna að koma upp og kallað hefur verið litla Evrópubandalagíð og Þýzkaland á að vera eitt ríki í, muni verða undir mjög miklum áhrifum Bandaríkjanna og verða stjórnað af mestu afturhaldsöflunum, sem eru til í þessum löndum. Það er þeirra stefna og þeirra vilji, sem Bandaríkin eru hér að knýja fram.

Ég átti ekki sæti hér á hv. Alþingi, þegar sú ákvörðun var tekin, að Ísland gerðist aðili að Atlantshafsbandalaginu. En ég var því eindregið andvígur og ég lít svo á, að þó að það spor hafi verið stigið, þá sé alls ekki þar með sagt, að Ísland eigi að taka hverju, sem að því er rétt í áframhaldi af því.

Í fyrra urðum við að taka við erlendu herliði. Var það fengið fram með því, sem ég tel hiklaust falskar forsendur og blekkingar, en þá var talið, að það væri rökrétt og óhjákvæmileg afleiðing af þátttöku okkar í Atlantshafsbandalaginu. En jafnvel þeir menn, sem greiddu atkv. og börðust hér á Alþingi gegn Atlantshafssamningnum, virtust í fyrra líta svo á, að það væri ein af nauðsynlegum, óhjákvæmilegum afleiðingum þátttöku okkar í því, að við tækjum hér við erlendu herliði þvert ofan í þær yfirlýsingar og þær skýringar, sem voru gefnar á eðli þess samnings, þegar hann var gerður. Nú er ársreynsla fengin af því, og það virðist eins og ýmsir þeirra, sem í fyrra töldu sig ekki geta staðið á móti því, að erlent herlið kæmi hingað, vegna þess að það væri bein afleiðing af þátttöku okkar í Atlantshafsbandalaginu, séu nú farnir að hugsa sig um á ný, og tel ég það vel farið, ef þeim reyndist fjölga, sem sæju, að ýmsar afleiðingar þess geta orðið háskalegar fyrir Íslendinga. En ég vona líka, að þeim fjölgi, sem gera sér það ljóst, — eins hér eins og úti í löndunum, sem ræða rækilegar þessa stefnu í alþjóðamálum og þessa samninga, sem nú eru lagðir hér fyrir, — að þó að Bandaríkin séu að vísu voldug þjóð og virðingarverð um margt, þá er ekki þar með sagt, að það sé allt viturlegt og rétt, sem reynt er að koma fram af þeirra hálfu. Það er svo með þessa samninga, að það er ekki, eins og ég sagði áður, séð enn, hversu mikils sú mikla mótstaða verður megnug, sem hefur komið fram úti í Evrópu gegn þeirri stefnu, sem í þeim felst. En það er alveg víst, að þeirri baráttu verður haldið áfram og henni mun aukast fylgi. Ég mun ef til vill síðar við tækifæri gera nánari grein fyrir því, hvers vegna ég mun hiklaust greiða atkv. á móti þessum samningum og þeirri þáltill. um fullgildingu þeirra, sem hér liggur fyrir.