09.10.1952
Sameinað þing: 4. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 161 í D-deild Alþingistíðinda. (2580)

23. mál, atvinnuleysistryggingar

Flm. (Haraldur Guðmundsson):

Herra forseti. Megintilgangur allra almannatrygginga er sá að tryggja starfsorkuna, að tryggja mönnum ákveðnar lágmarkstekjur, þó að starfsorkan bregðist, hvort sem það er vegna sjúkleika, slysfara, elli eða af öðrum almennum ástæðum. Starfsorkan er það eina verðmæti, sem allur þorri fólks hefur yfir að ráða.

Ef hún bregzt eða verður verðlaus, þá er skammt til örbirgðar og margháttaðra erfiðleika. Það er því fullkomlega eðlilegt, að þegar um slíkar tryggingar er rætt, þá séu þær ekki aðeins látnar ná til þeirra tilfella, þegar starfsorkan fellur niður, heldur einnig ef starfsorkan verður eiganda hennar verðlaus, þ. e. a. s., ef maðurinn getur ekki selt vinnu sína, ekki aflað sér viðurværis með starfsorku sinni. Enda er það svo, að í öllum okkar nágrannalöndum eru atvinnuleysistryggingar einn veigamikill þáttur í almannatryggingum. Starfsorkan er ekki tryggð, ef hún er ekki tryggð fyrir því, að hún sé gerð verðlaus og einskis nýt, en það er hún þeim manni, sem getur ekki átt þess kost að nota krafta sína til þess að vinna fyrir sér og sínum.

Þegar unnið var að undirbúningi löggjafarinnar um almannatryggingar á árunum 1945 og 1946, þá var ráð fyrir því gert af þeirri nefnd, sem að þessu vann, að samtímis löggjöfinni um almannatryggingar yrði einnig sett löggjöf um atvinnustofnun ríkisins. Þeirri stofnun var ætlað að hafa ýmis verkefni með höndum, fyrst og fremst vinnumiðlun almennt, til þess að sjá um, að ekki gæti það komið fyrir í þjóðfélaginu, að menn gengju atvinnulausir á einum stað í landinu, meðan annars staðar vantaði verkafólk, en það er tilgangur og meginhlutverk allrar vinnumiðlunar; í öðru lagi sérstakar ráðstafanir til þess að sjá þeim fyrir atvinnu við hæfi, sem af ýmsum ástæðum, örorku, æsku eða öðrum ástæðum, væru ekki fullgildir á hinum almenna vinnumarkaði, og í þriðja lagi, ef ekki dygðu þær ráðstafanir aðrar, sem atvinnuleysisstofnuninni var ætlað að vinna að, til þess að sjá öllum fyrir nægri vinnu, þá skyldi heimilt að greiða ákveðnar lágmarksbætur, atvinnuleysisbætur til þeirra, sem þrautreynt var, að þrátt fyrir góðan vilja og starfsgetu gátu ekki fengið vinnu fyrir sig. Þessi löggjöf náði ekki fram að ganga. Því var haldið fram af valdaflokkum þingsins, að hér væri ekkert atvinnuleysi og að það væri neyðarúrræði, vandræðalausn, að greiða mönnum styrki eða bætur fyrir að gera ekki neitt, eins og það var orðað. Það væri sjálfsagt — það var viðurkennt í orði — að einbeita kröftum þjóðfélagsins að því, að allir, sem vildu vinna og gætu unnið, fengju nægan starfa. Og það skal fullkomlega viðurkennt og undirstrikað, að það er sú eðlilega, sjálfsagða og æskilega lausn á þessum vanda, að ekki þurfi til atvinnuleysisbóta að taka, að svo sé háttað stjórn atvinnu- og fjármála í landinu, að hver maður, sem vill vinna og getur unnið, eigi þess kost að nota krafta sína til að vinna fyrir sjálfan sig og sína fjölskyldu og sínu þjóðfélagi gagn. Þáverandi ríkisstj. lýsti því einnig yfir, að hún skoðaði það meginverkefni sitt sem ríkisstjórnar landsins að sjá svo um, að allir, sem vildu vinna og gætu unnið, hefðu nægilegt að starfa. Með þessum rökum og þessum yfirlýsingum var till. um að stofna til atvinnustofnunarinnar, atvinnuleysistrygginga í því sambandi, bægt frá.

Segja má, að fram til ársins 1950 hafi ekki verið um neitt atvinnuleysi að ræða hér á landi, a. m. k. ekki neitt að ráði hjá mönnum, sem höfðu bæði vinnugetu og vinnuvilja, en síðan hæstv. núv. ríkisstj. tók við, hefur mjög hallazt á ógæfuhlið í þessu efni. Nú dettur engum í hug að neita lengur hinni hræðilegu staðreynd, að atvinnuleysi er, á vissum tíma árs a. m. k., orðið landlægt. Ástandið í þessum efnum á s. l. vetri var slíkt, að algerlega er ósæmilegt og óviðunandi, og fyllstu horfur eru á því, að sá vetur, sem nú fer í hönd, verði enn þá þyngri í skauti fyrir almenning. Óbein viðurkenning liggur fyrir í þessu efni frá hæstv. ríkisstj. Hún hafði skipað n. til þess að gera till. um úrbætur á árstíðabundnu atvinnuleysi. Mér er kunnugt um, að sú n. hefur nokkuð unnið að athugunum undanfarnar vikur eða mánuði, og ég hygg, að n. sé sammála um það, að hér sé miklu stærra viðfangsefni en látið er heita í bréfi því, sem segir fyrir um skipun n. Það þarf ekki einasta að líta til árstíðabundins atvinnuleysis, þó að það geti verið nægilega erfitt og ískyggilegt, heldur einnig að gera sér ljósa þá staðreynd, að atvinnuleysi er mestan tíma ársins orðið landlægt hér á fleiri eða færri stöðum í landinu. — Ég þarf ekki að taka það fram, að ég harma mjög, að svo er komið. Ég er alveg sammála þeim rökum, sem ég nefndi áðan fyrir því, hversu miklu æskilegra það sé að sjá fólki fyrir vinnu heldur en að greiða atvinnuleysisbætur. En það er ekki til neins að berja höfðinu við steininn, það er ekki til neins að loka augunum fyrir staðreyndunum. Staðreyndirnar eru þær, að annað er ekki sjáanlegt en að á næsta vetri verði þúsundir manna, sem ekki eiga þess nokkurn kost að nota starfsorku sína til þess að vinna fyrir sér og sínum og koma fram gagnlegum störfum. Það er hörmulegt að verða að játa það, að ástandið sé svona, en það verður ekki úr því bætt með því að neita staðreyndum.

Ég þarf ekki að benda á það, hversu mikil skammsýni það var á árinu 1946 og þar í kring að bægja frá öllum till. til ráðstafana gegn þessu böli. Ef þá hefði verið samþ. um þetta löggjöf, skipuleg vinnumiðlunarstarfsemi og önnur störf, sem atvinnustofnuninni voru ætluð, tekin upp og jafnframt safnað nokkru fé í sjóði til þess að mæta atvinnuleysistímabilum, þegar þau kæmu, þá hefðum við staðið betur að vígi til að mæta þeim vanda, sem nú ber okkur að höndum. En það tjáir ekki að sakast um orðinn hlut. Menn verða að horfast í augu við ástandið eins og það nú er og gera það, sem líklegast er til þess að bæta úr því.

Á þessu þingi eru fram komnar tvennar till., sem viðurkenna þá staðreynd um atvinnuleysið, sem ég hef drepið hér á. Annað eru till. nokkurra sjálfstæðismanna um stofnun sérstaks sjóðs til þess að halda uppi atvinnubótavinnu. Mér finnst þessi hugmynd góð, og ég álit sjálfsagt að athuga vel þá leið, sem þar er bent á, og leggja verulegt á sig í því efni. Ég er alveg sammála því, að rétt sé og sjálfsagt að beina fyrst orkunni að því að sjá mönnum fyrir vinnu. En eins og það frv. er nú úr garði gert, eru engar líkur til, að það nægi til þess að bægja atvinnuleysinu frá. Betur, að svo væri. En eins og horfurnar eru nú, eru engar líkur til þess, að það verði fullnægjandi í þessu efni, enda er þar öðrum þræði lögð áherzla á það, sem er líka eðlilegt frá því sjónarmiði, sem liggur á bak við þetta frv., að þær framkvæmdir, sem þar er unnið að, séu fyrst og fremst miðaðar við að undirbyggja framtíðaratvinnu, sem er rétt og eðlilegt, en erfitt í mörgum tilfellum að samrýma því að bæta úr stundaratvinnuleysi. — Hitt frv. er um að styrkja sérstaka atvinnuleysissjóði, sem einstök verkalýðsfélög komi sér upp. Eins og ástandið er nú, er næsta eðlilegt, að þetta komi fram. En að minni hyggju er sá galli á þessu frv., að það yrði sennilega að minnstu gagni og að litlu gagni þar, sem þörfin er mest, því að með þeim tekjuöflunarákvæðum, sem þar eru, er ekki sýnt, að þeir staðir, sem vera eru settir, fái gegnum þá löggjöf neitt fé að ráði hlutfallslega við þá þörf, sem þar er fyrir hendi, til þess að bæta úr atvinnuleysisbölinu með styrkjum eða á annan hátt.

Sannleikurinn er sá, að það er ekki auðvelt mál að semja svo löggjöf um atvinnuleysistryggingar, að hvort tveggja náist í senn: að tryggja þeim mönnum bætur, sem ekki verður á annan veg bjargað, og jafnframt að sjá svo um, að ekki séu möguleikar til misnotkunar einn veg eða annan gegnum slíka lagasetningu. Ég álít því, að slíka löggjöf þurfi að undirbúa mjög vel. Því legg ég til í þessari þáltill., sem hér er borin fram, að sérstakri n. verði falið þetta verkefni og að hún sé skipuð eins og í till. segir, þannig að Alþýðusambandið og Vinnuveitendasamband Íslands tilnefni sinn manninn hvort, svo að fram komi sjónarmið beggja þessara aðila, atvinnurekenda annars vegar, — sem ættu að réttu lagi sízt að hafa minni áhuga á úrbótum í þessu efni heldur en aðrir, — og verkamanna og samtaka þeirra hins vegar. Þá yrði enn fremur einn maður tilnefndur af Sambandi íslenzkra sveitarfélaga og einn maður af Tryggingastofnun ríkisins, sem þessi mál óbeint varða mjög miklu, og loks yrði svo oddamaðurinn skipaður af ríkisstj. sjálfri. Ég hygg, að með slíkri nefndarskipun kæmu öll þau sjónarmið fram, sem eðlilegt er að tekin séu til athugunar við setningu slíkrar löggjafar. Í sjálfu sér er það ekki mjög tímafrekt að semja slíka löggjöf, eftir að búið er að kynna sér til hlítar og meta og vega sjónarmið og rök hvers þeirra aðila, sem hér getur í sambandi við skipun n. Ég álít því, að þess megi vænta, ef hv. Alþ. hraðar afgreiðslu þessa máls svo, að n. mætti skipa innan skamms tíma, að hún gæti lokið störfum og lagt fram sínar till. áður en þessu þingi lýkur fyrir lok þessa árs. Í því trausti, að undirtektir hv. Alþ. í þessu efni verði þær, sem ég vona, og að málinu verði af hálfu hæstv. ríkisstj. hraðað svo, að unnt verði að leggja till. fram áður en þessu þingi lýkur, læt ég máli mínu lokið nú og leyfi mér að leggja til við hæstv. forseta, að till. verði vísað til allshn. að lokinni þessari umr.