12.11.1952
Sameinað þing: 12. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 168 í D-deild Alþingistíðinda. (2590)

27. mál, smáíbúðarhús

Forsrh. (Steingrímur Steinþórsson):

Herra forseti. Ég tel rétt að segja örfá orð út af þessari þáltill. á þskj. 27. Það er rétt, sem hv. fyrri flm. till. segir, að það er langt síðan hún var borin fram, — hún kom fram snemma á þessu þingi. En þrátt fyrir það var þó það mál afgert áður, en þessi þáltill. kom fram. Það var þá búið að semja um þann ágreining, sem var um rishæð á vissum tegundum smáíbúðarhúsanna, milli fjárhagsráðs og ríkisstj., enda reglugerðin um það gefin út fáum dögum síðar, þannig að hvað það atriði snertir, þá hefur till. út af fyrir sig ekki neina þýðingu, þar sem þetta atriði, sem er meginatriði till., var þá afgert. Annars kom nokkur misskilningur fram í ýmsu því, sem hv. flm. sagði um þetta mál, og tel ég rétt, að gefln sé hér skýrsla um það, hvernig þær reglur eru, sem fjárhagsráð setti og hefur farið eftir um gerð þessara húsa og annað í sambandi við það.

Eftir því sem hv. 7. landsk. talaði, þá virtist það þannig, að allir þeir 900 menn, sem hann taldi að nú væru að reisa sér smáíbúðir hér í Reykjavík eða í nágrenni við Reykjavík, hefðu verið í illindum við fjárhagsráð út af húsum sínum, en það er langt frá, að þetta sé rétt túlkað. Það var aðeins viss flokkur manna, sem hafði valið sér eina sérstaka teikningu, sem þarna kom til greina, en það var ekki nema lítið brot af þeim fjölda manna, sem hér er um að ræða. Þetta er nú það fyrsta, sem rétt er að taka fram varðandi þetta. Og það er alls ekki rétt, að fjárhagsráð hafi haft mikil afskipti af útliti húsanna eða gerð þeirra, eins og nú skal skýrt með því að lesa upp þær reglur, sem farið er eftir, því að í því efni höfðu þeir, sem byggðu, frjálsar hendur að miklu leyti. Með reglugerðinni, sem fjárhagsráð gaf út 10. sept. 1951 og var gerð í samráði við ríkisstj., var mönnum heimilað að reisa sér smáíbúðir, ef vissum skilyrðum væri fullnægt, og þau skilyrði voru þessi:

1) Að hvert hús sé ekki stærra að flatarmáli en 65 m2 auk 15 m2 kjallara, en allt að 80 m2, ef húsið er kjallaralaust. Rúmmál hússins sé ekki yfir 260 m3, og það er aðalatriðið. Það er aðalatriði, sem fjárhagsráð hefur alltaf litið svo á að takmarkaði þetta, en hins vegar væru þeim, sem reisa húsin, gefnar frjálsar hendur um að haga þeim að öðru leyti eftir því, sem þeir óskuðu eftir, en auðvitað séu þó teikningar af þeim viðurkenndar hér í Reykjavík af byggingarnefnd. En þessi stærð, 260 m3, var það, sem átti að vera aðalatriðið í þessu máli.

2) Að teikning sé samþ. af fjárhagsráði til tryggingar því, að ekki sé farið yfir þessa stærð.

3) Að húsin séu gerð úr steinsteypu eða hlaðin úr steini, nema sérstakt leyfi fjárhagsráðs komi til, að öðruvísi sé byggt, t. d. úr timbri.

4) Að einstaklingur standi að byggingu hússins og lýsi því yfir, að hann reisi það til afnota fyrir sig og sína fjölskyldu, en ekki til þess að leigja það út eða ráðstafa því til annarra á annan hátt.

5) Að viðkomandi aðili hafi tryggt sér lóð, sem bæjar- eða sveitarfélag samþykki fyrir slíkt hús.

6) Að viðkomandi bæjar- eða sveitarfélag hafi lýst því skriflega yfir við fjárhagsráð, að það beri ábyrgð á, að þessum reglum verði fylgt.

Eins og þessar reglur sýna, þá er ekkert minnzt á rishæð þessara húsa sérstaklega, einmitt vegna þess, að þarna gátu komið til greina fleiri gerðir af húsum, og það var hvorki tilgangur ríkisstj. né fjárhagsráðs að vera að setja allt of þröngar eða strangar reglur um það atriði út af fyrir sig, heldur er það rúmmál þeirra, sem er ákveðið, og menn frjálsir að því, hvernig þeir haga risi, ef fylgt er reglum um stærð hússins að öðru leyti.

Nú er það, að ein teikningin, sem gerð var að þessum smáíbúðarhúsum og allstór hópur manna valdi til þess að byggja eftir og mun hafa verið sérstaklega verðlaunuð af byggingarnefnd Reykjavíkur eða mælt með, var af húsi með 80 m2 grunnfleti og mjög lágu risi, og það þótti svo lágt, þegar farið var að athuga það, að þá var talið rétt, að leyft væri að hækka risið nokkuð. Á þessum teikningum var því leyft að hækka risið á húsunum upp í 2 m, en það var ekki ætlazt til, að það væri íbúðarhæft ris, enda var alls ekki gengið út frá því í upphafi, því að grunnflötur þessara húsa er nægilegur, miðað við stærð þessara íbúða. Það var ekki meiningin með þessu, að ætti að fara að byggja einhverjar villubyggingar. Sumir virðast tala um þetta mál svo, að það hefðu engar takmarkanir átt að vera, heldur leyfa mönnum alveg að ráða því sjálfir, hvar, hvernig og hve stórt þeir byggðu. En svo þegar búið er að leyfa ris af þessari hæð, upp í 2 m, sem þótti hæfilegt af byggingarfróðum mönnum — hæfilegra en 1 m ris, til þess að það væri góður vatnshalli o. s. frv., þá auðvitað sjá þeir, sem eru að reisa húsin, að þarna vantar ekki svo mikið á, að hægt sé að fá pláss í risinu til þess að hafa þar íbúðarherbergi. Þá er það, sem krafan kemur frá þeim um að breyta þessu. Það er aðeins þessi deila, sem hefur átt sér stað, milli þessa hóps manna, sem þessar byggingar höfðu, um þetta atriði. Það er rétt, að fjárhagsráð stóð á móti þessu og ber það fyrir sig, að þegar búið sé að byggja þannig tvær hæðir, þá sé 160 m2 gólfflötur og þá sé ekki um smáíbúð að ræða, í raun og veru sé hér komin býsna mikil íbúð, töluvert miklu stærri en reiknað hafi verið með, þegar þetta var ákveðið, og það er aðeins þetta atriði, sem hér hefur verið deila um. Þetta lagaðist svo, og varð samkomulag um það milli ríkisstj. og fjárhagsráðs að leyfa þessa hækkun, og ég álit, að það sé rétt, að það komi fram, að ríkisstj. leit svo á, að það ætti að gera það. Ég hafði ekki hugmynd um þetta mál, fyrr en það var risin upp deila um það og það fóru að koma menn í rn. og tala um þessa hluti. Ég fylgdist ekki með því, hvernig teikningar væru af hverju einstöku húsi hvað þetta snertir. En þetta er það rétta í málinu, og það er því að mínum dómi ekki rétt að áfellast fjárhagsráð í þessu efni. Það setur reglur í upphafi, sem það að sjálfsögðu reynir að fylgja, og það hefur ekki verið nein almenn óánægja með þær. Sumir byggja þarna hús, sem eru 60 m2 að flatarmáli, og þá er hátt ris á þeim húsum, enda var svo til ætlazt frá upphafi. Það hefur engin óánægja risið út af þessum gerðum húsa. En þegar búið er að stækka þessi 80 m2 hús með því að hækka ris þeirra í 3 m, þá erum við komnir yfir það rúmmál, sem talið var hvað þetta snertir að heppilegt gæti talizt.

Það voru sérstaklega þessar leiðréttingar, sem ég fyrir mitt leyti vildi láta koma hér fram hvað þetta snertir. Það er kannske rétt, að það komi hér fram álit húsameistara ríkisins til félmrn. um þetta mál. Það var leitað til hans, þegar þessi deila kom upp um rishæðina á þessum húsum. Óskað var eftir umsögn hans, þegar verið var að reyna að ná samkomulagi um málið. Hann segir svo um þetta — það er ekki lengi lesið — með leyfi hæstv. forseta:

„Upphaflega voru smáíbúðarhús þessi miðuð við gólfflöt 80 m2 og rúmflöt 260 m3, þ. e. a. s. þessi flokkur, og höfðu menn nokkuð frjálsar hendur um gerð húsa sinna innan þess ramma, og var því ýmist byggt 80 m2 gólfflötur og lágt ris, 1–1,5 m að hæð, eða minni gólfflötur og hátt ris með svefndeild uppi. Brátt fengu svo þeir, sem byggðu 80 m2 gólfflöt, risið hækkað upp í 2 m, en þá kom það fljótt í ljós, að sú hæð var mjög óhentug, þar eð ekki var hægt að innrétta nein herbergi í slíku risi, sem þó mun hafa verið meiningin hjá eigendum, og hefur því komið fram ósk um frekari hækkun. Álit mitt er það, að 2 m ris sé mjög óhentugt og því aðeins sé hægt að notfæra sér risið til þess að innrétta þar herbergi, að það sé allt að 3 m. að hæð. Hins vegar má geta þess, að ef til vill hefði ekki átt að ræða rishæðir í sambandi við þessi smáíbúðarhús, heldur halda fast við ákvæði fjárhagsráðs og leyfa mönnum að byggja eins og þeir óskuðu innan þessa setta ramma, því að sífelldar breytingar á áður settum ákvæðum eru mjög óheppilegar. Þá má og geta þess, að 80 m2 hús með háu risi og ef til vill hálfum kjallara getur varla talizt smáíbúðarhús í þeim skilningi, sem fyrst var til ætlazt með ákvæðinu um smáíbúðarhús, enda er rúmmál slíks húss um eða yfir 400 m3.“

Þetta er nú umsögn húsameistara um þetta. Eins og ég tók fram áðan, þá náðist, eftir að búið var að ræða þetta mál milli fjárhagsráðs og ríkisstj., alveg samkomulag um þetta, sem þessi hópur manna sætti sig við. Einhverjir voru þá búnir að byggja eftir hinu, með lægra risinu, höfðu ekki gert neinar kröfur, heldur sætt sig við þær almennu reglur, sem giltu um þetta, og tóku þær gildar. Af þessum ástæðum er það, að ég tel, að þessi þáltill. nú hafi ekkert erindi hér inn á þing til afgreiðslu út af fyrir sig, þar sem þetta mál er leyst.

Í niðurlagi þáltill. er sagt svo, að ríkisstj. skuli leggja fyrir fjárhagsráð að endurskoða þær reglur, sem hafa verið um stærð og gerð smáíbúðarhúsa. Ég vil taka það fram, að um leið og þetta deilumál var leyst, þá var einnig gengið frá því, að þessar reglur væru teknar til endurskoðunar, og þær eru í endurskoðun nú. Verður beðið með að veita ný leyfi, á meðan verið er að endurskoða reglurnar, sem sennilega liggja fyrir, áður en langt um líður. Það er því þegar búið að framkvæma það atriði einnig, sem er í niðurlagi þáltill., og verður vitanlega hægt fyrir Alþ. að fylgjast með því og fá upplýsingar um það, á hvaða stigi sú athugun er nú, og fylgjast með því, meðan þingið situr, hvað er að gerast í þeim efnum. — Þetta vildi ég einnig taka fram hvað þetta atriði snertir.

Ég ætla nú ekki, þótt til þess væri full ástæða vegna ummæla hv. flm., að koma nokkuð inn á almennar bollaleggingar um það, hvort rétt sé yfirleitt að beina lánsfé því, sem til umráða er, einhliða til smáíbúða, því að sjálfsögðu dregst það fé frá öðrum byggingum í staðinn. Það er sjálfsagt hægt að segja margt bæði með og móti. Mér hefur aldrei dottið í hug, að það kæmi til mála, að öllum byggingarframkvæmdum í þéttbýli væri veitt í þennan eina farveg; það álít ég að komi ekki til mála. Hitt er það, að eins og útlitið var og hefur verið, þá virtist þetta vera leið til þess að flýta fyrir, að fólk gæti komið yfir sig sæmilegum íbúðum með litlu fjármagni, að nokkru leyti með því að vinna sjálft að byggingunum. Þetta er allstór tilraun, sem hér er verið að gera, þar sem eru sennilega milli 1 og 2 þús. íbúðir, sem eru í byggingu á þennan hátt nú, og ég álít, að það sé einmitt alveg rétt eins og nú þegar er verið að gera, að endurskoða þetta mál í ljósi þeirrar reynslu, sem nú hefur fengizt, enda fer nú að sjást nokkuð, hvað þessi hús kosta. Nokkrir eru að enda við þau, og þá má fara að fá yfirlit yfir kostnað við slíkar byggingar í samanburði t. d. við það, þar sem byggðar eru stórar blokkir. Þetta þarf auðvitað allt að meta og er sjálfsagt, og ég ætla bara að taka fram, að það hefur alls ekki verið það, sem vakað hefur fyrir ríkisstj., að beina ætti byggingunum yfirleitt í þennan eina farveg. En henni virtist, að þetta væri sú helzta leið, eins og var ástatt í fyrra, til þess að hrinda af stað þó nokkuð miklum byggingum, eins og líka reynslan hefur sýnt. Það hefði ekki verið farið af stað með svona mikið öðruvísi en af því, að þetta var þó framkvæmt á þennan hátt, með jafntakmörkuðu fjármagni eins og þarna var um að ræða, því að þessi mjög svo takmarkaða upphæð út á 2. veðrétt í húsunum hefur gert það að verkum, að margir hafa treyst sér til að fara af stað, sem annars hefðu enga möguleika talið sig hafa til þess á neinn annan hátt, og einhvern veginn þá kraflað út á 1. veðrétt til aðstoðar.

Að öðru leyti ætla ég ekki að fara að ræða málið hér almennt nú, tel mig heldur ekki færan um það á þessu stigi, álít, að það eigi að bíða dálítið lengur, þar til við fáum nokkurn veginn glöggar upplýsingar um það, hvað svona hús virkilega kosta, þegar þau eru fullgerð. En af þessu, sem ég hér hef tekið fram, en það er ekki að neinu leyti í andstöðu við það, þótt þetta mál kæmi hér fram á Alþingi, því að hv. flm. mun ekki hafa vitað, að þessi deiluatriði voru leyst um það bil, sem till. kom fram, álít ég þess vegna ekki ástæðu til þess að vísa þessari þáltill. til n. Þessar umr., sem hér fara fram nú, ættu að geta nægt, og svo sá aðgangur, sem er að því að sjálfsögðu að fylgjast með því, hvað gerist í endurskoðun reglnanna um þessar byggingar yfirleitt.

Ég vil því leyfa mér að leggja til, að till. yrði vísað frá með svofelldri rökstuddri dagskrá, með leyfi hæstv. forseta:

„Með því að þegar hefur verið breytt reglum þeim, er fjárhagsráð setti á s. l. ári um stærð smáíbúða, og málið hefur þar með verið leyst á þann máta, sem þeir, er hafa slíkar íbúðir í smíðum, sætta sig við, telur þingið ekki ástæðu til þess að samþ. þáltill. þessa og tekur fyrir næsta mál á dagskrá.“