12.11.1952
Sameinað þing: 12. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 180 í D-deild Alþingistíðinda. (2593)

27. mál, smáíbúðarhús

Forsrh. (Steingrímur Steinþórsson):

Hv. flm. kom í þessari síðustu ræðu sinni inn á nauðsyn þess, að þessari till. yrði vísað hér til n. í Alþingi til athugunar. Ég held þá, að það ætti að breyta till. Það er nú byggt fleira en þessi smáíbúðarhús hér á þessu landi. Ef hið háa Alþingi ætlar að fara sjálft að ákveða svo að segja hverja einustu teikningu í sveitum og bæjum hér á landi, þá færi það nú að verða dálítið einkennilegt, álit ég.

Það er ekki í fyrsta skipti nú, að deilt er um, hvort byggingarlag á húsum sé rétt eða ekki. Þetta er eitt af mestu vandamálum, sem til eru. En það virtist mér beint hlægilegt, ef Alþingi ætlaði að fara sjálft að athuga um teikningar og annað slíkt fyrirkomulag. Og það er ekkert annað, sem hér er um að ræða, því að re.glur fjárhagsráðs sjálfs fjalla aðeins um stærðina á íbúðunum. Hitt er allt annað mál aftur, hvernig því er fyrir komið, teikningum af þessu. Og eins og ég tók fram og hv. flm. mótmælti ekki heldur, þá eru einu mistökin, sem þarna hafa átt sér stað, að mínum dómi, að leyfa ekki stærri byggingar að rúmmáli en þarna var gert ráð fyrir, en leyfa svona mikinn grundvöll. Ef það hefði ekki verið gert, þá hefði allt verið byggt á annan hátt og þá hefði öll þessi deila ekki komið fyrir.

Ég álít því, að það sé ástæðulaust, eins og mín rökstudda dagskrá ber með sér, að þetta mál fari til n. Ég álít, að það sé að fullu upplýst nú, og ég skil ekki í, að Alþingi fari að athuga einhver sýnishorn af teikningum og skipa svo fyrir um það með l., að í þessu formi einu megi reisa smáíbúðir, bæði hér í Rvík og úti um land, sem reistar verða samkv. þessum reglum nú á næstunni. En það eitt virtist mér geta vakað fyrir hv. flm., að það ætti að gera það hér.

Ég er því sama sinnis og áður, að það sé ástæðulaust, eins og þetta mál er komið nú, annað en að vísa því frá með rökstuddri dagskrá, eins og hér er lagt til. Hitt skal ég endurtaka, sem ég sagði í minni fyrstu ræðu, að meðan Alþingi situr, þá skal það fá að fylgjast með, hvað er að gerast um reglur þessar í fjárhagsráði, þannig að Alþingi geti fylgzt alveg með því.