22.10.1952
Sameinað þing: 6. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 189 í D-deild Alþingistíðinda. (2603)

46. mál, samskipti varnarliðsmanna og íslendinga

Flm. (Rannveig Þorsteinsdóttir):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera hér fram ásamt hv. þm. N-Þ. till. til þál. á þskj. 46, en sú till. er um takmarkanir varðandi samskipti varnarliðsmanna og Íslendinga.

Ég þarf ekki að rekja það hér, hvílíkt alvörumál það er, hve tíðar og fjölmennar heimsóknir varnarliðsmanna hafa verið til Reykjavíkur undanfarið. Er þetta mikið áhyggjuefni, enda þýðir ekki fyrir okkur að loka augunum fyrir þeirri hættu, sem af því stafar fyrir jafnfámenna þjóð og okkur að hafa náin samskipti, sérstaklega ungs fólks, við mikinn fjölda erlendra manna. Nú er því þannig farið, að við höfum komizt í sambýli við aðra hér í okkar landi, sambýli, sem æskilegt væri að ætti sér sem allra skemmstan aldur, en það voru ætíð taldir möguleikar á því, að þrátt fyrir þetta sambýli mundi hvor aðili geta verið án mikilla samskipta við hinn, þar sem líka ákveðið var, að varnarliðið yrði á fáum alveg afmörkuðum stöðum. Það voru allar horfur á því fyrst í stað, eftir að varnarliðið kom hingað, að svo gæti orðið, því að þá komu hermenn liðsins hingað nánast sem ferðamenn, gengu um og skoðuðu bæinn og voru horfnir héðan kl. 10 að kvöldi. En svo breyttist þetta skyndilega. Hermenn varnarliðsins tóku að vera hér öllum stundum og á öllum tímum sólarhringsins, og bar sérstaklega mikið á þessu á s. l. sumri. Bæði á götum bæjarins og á skemmtistöðum voru þessir menn oft svo yfirgnæfandi, að fyrir erlenda ferðamenn leit út eins og Reykjavík sjálf væri herstöð. En það hefur ekki aðeins verið þannig, að þessar ferðir varnarliðsmanna hafi sett sinn eigin óæskilega svip á höfuðborgina á ytra borðinu, heldur er það fyrst og fremst samneyti varnarliðsmanna við íslenzkt æskufólk, sem er stórkostlegt áhyggjuefni. Þannig sækja hermenn varnarliðsins alla mögulega skemmtistaði, þar sem íslenzkt æskufólk er saman komið, og vita það þeir, sem sækja kaffihús og veitingastaði, hversu mikið hefur borið á hermönnum varnarliðsins á þessum stöðum. Einnig hafa þessir menn algerlega óátalið sótt skemmtanir Íslendinga, þannig að fólk hefur getað búizt við því, hvar og hvenær sem var, að hermenn varnarliðsins væru meðal þeirra, sem sæktu skemmtanir, nema þá að þær væru bundnar alveg við sérstök félög.

Á stríðsárunum, meðan landið var hernumið, voru skemmtanir Íslendinga venjulega algerlega fyrir þá eina og voru lokaðar fyrir hermönnum. En nú hefur þessu verið sleppt lausu. Er auðsætt, að ekki er síður ástæða til þess nú en var á stríðsárunum að ganga þannig frá, að Íslendingar hafi sínar skemmtanir fyrir sig og að varnarliðsmenn eigi þar engan aðgang. Í sambandi við þetta mætti geta þess, að á stríðsárunum var mjög takmarkað, hverjir gátu átt aðgang að eftirsóttasta skemmtistað borgarinnar, þ. e. Hótel Borg, en nú gilda engar takmarkanir um aðgang hermanna þangað.

Ekki alls fyrir löngu var frá því skýrt í blöðum Reykjavíkur, að hermenn varnarliðsins hefðu á leigu herbergi til lengri og skemmri tíma, og jafnvel munu þeir hafa haft íbúðir á leigu. Þetta þýðir þó ekki það, sem auðvitað er, að leigjendur þessa húsnæðis séu búsettir í Reykjavík, heldur hitt, að hið leigða húsnæði var staður, sem margir menn höfðu eða hafa aðgang að til skiptis með þann félagsskap, sem þeir hafa hverju sinni, og það fólk, sem býr í húsum þeim, sem þannig hafa verið leigð út, veit vel, að þarna er dvalið fram á nætur og heilar nætur, og það veit líka stundum, að sumir varnarliðsmennirnir hafa dvalið á þessum stöðum meira en einn sólarhring í senn, þ. e., að það viðgengst, að sami maðurinn sé ekki aðeins fram á kvöld og ekki aðeins einn sólarhring, heldur lengri tíma samfleytt að skemmta sér utan bækistöðva sinna.

Barnaverndarnefnd kærði út af leigu húsnæðis, og mun það mál vera í rannsókn, en sú spurning mun hafa komið fram í sambandi við rannsóknina, hvort hægt væri að líta á útleigu herbergja í sjálfu sér sem brot, þar sem t. d. ekki hefur verið um það að ræða, að stúlkur innan 16 ára hafi verið í fylgd með hermönnum á þessum stöðum. En það virðist full ástæða til þess, að settar hefðu verið og settar verði einhverjar reglur aðrar en þær, sem er að finna í dauðu ákvæði húsaleigulaganna, sem hindruðu það, að slík útleiga húsnæðis til varnarliðsmanna sem hér hefur verið rætt um, gæti átt sér stað. En þar sem engar slíkar reglur hafa verið til, hefur fólk ekki getað kært yfir þessari misnotkun húsnæðis, þótt það hafi viljað sem íslenzkir borgarar stemma stigu við ósómanum. Og Íslendingar, sem hafa búið í húsum, þar sem slík útleiga hefur átt sér stað, hafa ekkert getað að gert, hversu miklu ónæði og ergelsi sem þeir hafa orðið fyrir af þessum sökum. — Í sambandi við þessa leigu húsnæðis mætti á það minnast, að ekki sýnist vera útilokað, að teknar yrðu á leigu íslenzkar eignir til skemmtanahalds í stórum stíl fyrir varnarliðsmenn, og er það eitt af því, sem verður að koma í veg fyrir að geti átt sér stað.

Þá er það á almannavitorði, að hermenn varnarliðsins hafa haft á leigu hótelherbergi í Reykjavík. M. a. bar mikið á því s. l. sumar, að þessir menn tækju á leigu herbergi á stúdentagörðunum og dveldu þar. Ég ætla mér ekki að fara inn á það, sem almennt er sagt í sambandi við útleigu hótelherbergja til þessara manna, en aðeins nefna það, að það virðist vera harla undarleg ráðstöfun, þegar verið er — með réttu — að kvarta undan því, að við getum ekki veitt erlendum ferðamönnum fyrirgreiðslu vegna skorts á hótelum, þá skuli það litla rúm, sem til er, vera einmitt á þeim tíma, sem helzt væri ferðamanna von, fyllt af hermönnum, og það á sjálfum stúdentagörðunum, sem einmitt var verið að berjast við á s. l. sumri að gera að sæmilegum hótelum. Virðist engin ástæða til þess, að hermenn varnarliðsins hafi heimild til þess að leigja herbergi á hótelum í Reykjavík, hvorki til skemmri né lengri tíma, þar sem líka stöðvar hersins eru ekki það fjarri, að hægt sé að líta á þessa menn sem langferðamenn, sem veita þurfi beina af þeim sökum.

Ekki alls fyrir löngu hafa verið gefnar út nýjar og — að því er sagt er — strangari reglur um dvöl hermanna í Reykjavík og öðrum bæjum. Þetta, að tala hér um strangari reglur, gefur algerlega ranga mynd af því, sem hér hefur gerzt, því að hér giltu eitt sinn allstrangar reglur, en þær virðast hafa verið felldar úr gildi, án þess að nokkuð væri um það tilkynnt frá nokkrum aðila, svo að það nálgast blekkingu, hver sem ræður því, að hinar nýju reglur voru auglýstar á þann hátt, sem gert var. Það er ekki annað hægt að sjá við yfirlestur þessara nýju reglna, en að þar sé hver smugan annarri víðari til þess að fara í kringum þær. Það er þá fyrst, ef svo er, sem grunur leikur á, að fjöldinn allur af hermönnum varnarliðsins geti kallazt foringjar, að þá ná undanþágurnar til margra, og svo kemur það, að foringjarnir eru ekki bundnir og þeir geta fengið næturorlof, þegar þeir vilja, eða svo til. Einnig geta aðrir hermenn fengið næturorlof, auk þess sem dvalarleyfi venjulegra hermanna hafa verið lengd frá því, sem upphaflega var. Kann þó að vera, að í þessum nýju reglum felist einhverjar takmarkanir frá því, sem næst á undan var, en þó mun það algerlega byggjast á framkvæmdinni, hvort svo er. Og þá kemur sú spurning: Til hvers er verið að leyfa varnarliðsmönnum að fara óeinkennisklæddum í skemmtiferðir, ef ekki á beinlínis með því að fara í kringum reglurnar? En það er opinbert leyndarmál, að þetta hefur verið gert. Talið er, að herinn sé sjálfur ekkert hrifinn af því að láta hermenn ganga óeinkennisklædda, og hljóta því að vera fyrir því einhverjar sérstakar ástæður, þegar brotnar eru hinar ströngu reglur hers um þetta atriði. En það hefur einmitt vakið mikinn ugg hjá mörgum, að þetta skuli vera leyft, hjá þeim sem telja, að eitthvert aðhald felist í því, að það lýsi sér, hvenær hermaður er á ferð og hvenær ekki.

Í till. þeirri, sem hér liggur fyrir, er svo ráð fyrir gert, að dvöl hermanna varnarliðsins hér á landi verði framvegis takmörkuð við þá staði, sem liðið hefur til afnota, enda verði hindruð ónauðsynleg ferðalög hermanna utan þessara staða. Þá er í till. gert ráð fyrir því, að einnig verði komið í veg fyrir óþarfaferðir Íslendinga til bækistöðva varnarliðsins. Það vandamál, sem hér hefur skapazt við veru varnarliðsins, snertir menningu okkar og þjóðerni, auk þess sem það er stórkostlegt siðferðislegt vandamál. Þetta vandamál getur að mestu hætt að vera til, ef komið er í veg fyrir samskipti Íslendinga og varnarliðsmanna með þeim hætti, sem hér er gert ráð fyrir. En auðvitað er margt fleira hægt að gera en það, sem til er tekið í þessari till., og hægt að gera það jafnframt. Það hefur komið fram bæði hér á Alþ. og annars staðar, að á okkur öllum hvili mikil ábyrgð í þeim vanda, sem við erum, og er það rétt. En til þess að glæða þá ábyrgðartilfinningu þarf að gera ýmislegt, en í rauninni hefur ekkert verið gert. Tel ég, að ríkisstj. ætti einmitt að hafa sérstaka forgöngu um það að glæða þá ábyrgðartilfinningu með þjóðinni, t. d. með því að láta taka málið upp í skólum landsins og með öðrum hætti, sem handhægt þætti að leiðbeina unglingum og öðrum, sem slíkum leiðbeiningum vildu taka, til þess að fólk lærði að koma virðulega fram gagnvart þeim mönnum, sem í landinu eru, og með metnaði fyrir þjóðerni sitt og tungu. Það er vitað, að á hernámsárunum unnu t. d. skólarnir mikið og árangursríkt starf í þessa átt, og það er áreiðanlega full ástæða til þess, að það sé tekið upp á ný.

Till. sú, sem hér liggur fyrir, er ekki borin fram af neinni óvinsemd í garð varnarliðsins eða þess starfs, sem því hefur verið falið að vinna. Hún er þvert á móti borin fram af fullri vinsemd, en af skilningi á því, að ef því fer fram, sem verið hefur um hin miklu samskipti Íslendinga og varnarliðsmanna með öllum þeim afleiðingum, sem af því hljótast, þá er að því stefnt að gera óvinsælar þar ráðstafanir, sem gerðar voru til öryggis landsins og meiri hluti þjóðarinnar tvímælalaust var samþykkur. En ef það tekst á atriði eins og þessu, sem hefur ekkert í sjálfu sér með öryggi landsins að gera né heldur frelsi eða ófrelsi þeirra ríkja, sem við höfum gert samninga við, — ef það tekst með því að gera varnarráðstafanirnar óvinsælar með þjóðinni, þá er það vatn á myllu þeirra, sem hafa viljað láta landið vera varnarlaust og ekki óska þess, að þjóðin sé í neinum samtökum frjálsra þjóða. Þetta er rétt að liggi ljóst fyrir, og ef ekki er að gert í tíma, þá mun sú spurning risa upp hjá fjölda landsmanna, sem taldi varnarráðstafanirnar nauðsynlegar, hvort þær séu ekki óframkvæmanlegar, og það hljóta þær að verða frá íslenzku sjónarmiði, ef lengur er haldið áfram á sömu braut og verið hefur.

Það er ósk okkar flm., að sem mest samkomulag fáist um þessa till., og teljum við, að ályktun Alþ., eins og hér er gert ráð fyrir, muni geta orðið ríkisstj. til stuðnings, á hvern hátt sem hún vinnur að þessu máli, hvort sem það er með því að fá samkomulag um þær takmarkanir, sem hér er gert ráð fyrir, eða ef henni þykir það tiltækt, að hún setji einhliða reglur frá sinni hálfu.