22.10.1952
Sameinað þing: 6. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 197 í D-deild Alþingistíðinda. (2606)

46. mál, samskipti varnarliðsmanna og íslendinga

Magnús Kjartansson:

Herra forseti. Á síðasta fundi í sameinuðu þingi lýsti hæstv. dómsmrh. yfir því, að 100 stúlkur væru nú komnar á svartan lista hjá lögregluliði því, sem gæta á almenns velsæmis á samningssvæði bandaríska hersins á Keflavíkurflugvelli. Hæstv. ráðh. skýrði ekki nánar frá málum þessara ungu stúlkna, en það leiðir af líkum, að þær hafa verið skráðar fyrir misferli það, sem á sér sérstakt friðland á Keflavíkurflugvelli, saurlifnað, drykkjuskap og annað þess háttar athæfi. Það gefur einnig auga leið, að lögreglan hefur aðeins náð hluta þessara stúlkna, sem brotlegar hafa gerzt, á lista sinn, og þegar maður þekkir röggsemi íslenzkra yfirvalda í viðskiptum við hernámsliðið, efast maður ekki um, að þetta muni vera minni hluti. Samt voru stúlkurnar hundrað. Og þetta voru sem sagt aðeins þær stúlkur, sem lögreglan hefur staðið að verki á Keflavíkurflugvelli; um hitt gat hæstv. ráðh. ekki, hvort lögreglan í Reykjavík hefði samið sérstakan lista yfir þær stúlkur, sem lotið hafa í lægra haldi fyrir skipulögðum árásum hernámsliðsins á Reykjavík.

Það vakti alveg sérstaka athygli mína, að hæstv. ráðh. virtist birta þessar tölur sem sönnun þess, að það væri ástæðulaust að hafa hátt út af siðferðislegum afleiðingum hernámsins, enda kom hún sem lokaatriði í langri afsökunarræðu fyrir hönd hinna erlendu gesta ríkisstj. og stuðningsmanna hennar í þingflokki Alþfl. Hundrað ungar stúlkur á svörtum lista fyrir ýmiss háttar siðferðisafbrot, það finnst hæstv. ráðh. ekki mikið. En mér finnst það mikið, geigvænlega mikið, og ég veit, að svo er um meginhluta íslenzku þjóðarinnar. Þessar hundrað stúlkur munu flestar vera á aldrinum 15–25 ára og búsettar í Reykjavík og á Suðurnesjum, og ég hygg, að ef reiknað væri út frá því, yrði hlutfallstalan geigvænlega há.

Það eru fleiri þjóðir en við, sem búa nú við bandarískt hernám, og menn eru víðar áhyggjufullir út af siðferðislegum afleiðingum þess. T. d. er nú þegar fjöldi bandarískra herstöðva í Bretlandi og Frakklandi. Hundrað stúlkur á svörtum lista hér samsvarar því, að upp undir 40 þúsundir væru skráðar á svartan lista þar, aðeins fyrir misferli innan sjálfra herstöðvanna. Ég býst við, að slíkar tölur þættu fréttir þar í löndum, og raunar heimsfréttir líka, og að ráðamenn þessara þjóða mundu ekki birta þær þingum sínum með stakasta jafnaðargeði og sem sönnun þess, að allt væri með felldu og vel það.

En hverjar eru þá ástæðurnar til þessara miklu og alvarlegu afleiðinga? Að mínu viti eru þær fyrst og fremst tvennar, fyrir utan sjálft upphafið, þegar þm. þriggja flokka settust á leynifundi í Reykjavík og buðu innrásarhernum heim, þvert ofan í ákvæði stjórnarskrárinnar og þvert ofan í heit sín við íslenzku þjóðina. Að þeim verknaði frömdum hygg ég að ástæðurnar séu annars vegar furðulega siðlaust framferði hins erlenda liðs og augljós fyrirlitning þess á íslenzku þjóðinni og hins vegar einstæð þjónustusemi stjórnarvaldanna og blaða þeirra, sem stóðu að hinu löglausa hernámi.

Ég skal ekki draga það í efa að í hernámsliði Bandaríkjanna séu yfirleitt sómasamlega innrættir menn að eðlisfari og að mæðrum þeirra þyki vænt um þá, eins og komizt hefur verið að orði. En því miður hafa þeir ekki flíkað sóma innrætis síns mikið hér á landi, heldur þvert á móti lagt sérstaka rækt við þá þætti, sem lakastir mega teljast. Að sumu leyti er þetta alkunnugt fyrirbæri samkvæmt kennisetningu vísunnar: „Þar sem enginn þekkir mann, þar er gott að vera“. En að mun meira leyti mun þetta stafa af því, að það er einn þáttur í sálfræðilegri hervæðingu Bandaríkjanna að innræta íbúum og sérstaklega æskulýð landsins, að þeir séu herraþjóð og að allar aðrar þjóðir standi á lægra stigi og séu til þess ætlaðar að þjóna undir þá. Þegar við þetta bætist, að ruddamennska og siðleysi er að verða megineinkenni bandarískra kvikmynda og þeirra sérstæðu bókmennta, sem mest eru lesnar af almenningi þar vestra, er ekki von að vel fari. Og afleiðingarnar þekkja allir. Þær birtast í hinum geigvænlegu tölum svarta listans, sem vikið var að áðan, og þær birtast í fjölmörgum atvikum, sem allir þekkja, þótt stjórnarvöldin og málgögn þeirra hafi reynt að þagga þau niður. Og það, sem er sérstaklega ískyggilegt er, að hinn erlendi her leggur á það sérstakt kapp að hafa áhrif á ungar stúlkur og raunar telpur, kenna þeim drykkjuskap, gera fyrstu kynni þeirra af sambúð karla og kvenna óhrein og ruddaleg, halda að þeim hvers kyns spillingu og brjóta að sjálfsögðu jafnframt niður allar heilbrigðar siðgæðishugmyndir, stolt og eðlileg lífsviðhorf æskunnar.

Þetta hefur tekizt vel, allt of vel. Og það hvílir þung ábyrgð á íslenzkum stjórnarvöldum. Með stefnu sinni í atvinnumálum hafa þau búið vel í haginn fyrir árás herliðsins á íslenzkan æskulýð. Í stað þess, að hér rísi upp æska, sem sér möguleika opnast á hverju leiti og finnur, að dugnaður og atorka eru þeir eiginleikar, sem duga henni bezt, eru stjórnarvöldin nú að loka flestum brautum fyrir ungu fólki. Það er að verða mjög torvelt fyrir alþýðuæskuna að sækja skóla. Á henni bitnar atvinnuleysið sárast, og hvarvetna sér hún blasa við niðurlægingu og lokuð sund. Það er verið að bjóða þessari æsku upp á örvæntingu og þau viðbrögð, sem henni eru samfara. Um leið er svo lagt á það ofurkapp að benda á bandaríska hernámsliðið sem hina glæstu fyrirmynd, sem boði framtíðina. Á Keflavíkurflugvelli eru staddar hetjur nútímans, ungir menn, sem hafa tekið sig upp um langan veg, ekki aðeins til að vernda frelsi og sjálfstæði Íslendinga, heldur jafnframt til að vernda lýðræðið í öllum heiminum og allar aðrar fagrar dyggðir.

Þessi ósköp hafa hljómað yfir íslenzkri æsku í ræðum ráðamanna þjóðarinnar og birtast daglega í blöðum þeirra flokka, sem að hernáminu stóðu. Dráp og tortímingar eru allt í einu orðin öndvegisafrek í þessum blöðum og ólánssamir unglingar, sem hafa fengið glýju í augun og látið hafa sig til að taka þátt í miskunnarlausustu drápstyrjöld veraldarsögunnar, eru allt í einu orðnir hetjur og látnir birta hinar fáránlegustu afrekasögur yfir almenningi. Þjónustusemi þríflokkablaðanna er svo alkunnug, að óþarfi er að rekja það í einstökum atriðum, en því miður hefur málgagn þeirra hv. þm., sem að þáltill. þeirri standa, sem hér er til umr., tekið þar forustuna margsinnis á einstaklega ósmekklegan hátt. Og seinast í gær las ég í öðru blaði, Alþýðublaðinu, að það væri kennsla í dónaskap að halda því fram, að ungar stúlkur ættu ekki að umgangast hernámsliðið og ekki að dansa við það á skemmtunum. Ég endurtek: Þetta var kennsla í dónaskap. Og á næstu síðu lýsti svo einn af þm. Alþfl. áhuga sínum á þjóðernisbaráttu Íslendinga.

Á þennan hátt hafa íslenzkir ráðamenn og íslenzk blöð reynt að laða íslenzka æsku að hernámsliðinu. — Og kenningin um það, að á Keflavíkurflugvelli væri að finna framtíðina, hefur einnig verið studd öðrum rökum. Á Keflavíkurflugvelli eru að rísa upp þau hús, sem íslenzkri æsku er bannað að byggja. Þar eru stofnuð þau heimili, sem íslenzkt æskufólk hefur engin tök á að stofna. Þar er herraþjóðinni borgað margfalt hærra kaup en Íslendingar fá, þegar þeim er leyft að vinna. Og þangað eru atvinnuleysingjarnir látnir mæna í von um handtak, þegar skorturinn býst til að verða heimilisfastur hjá þeim.

Þarna hníga margar ár að einum ósi, og það er óskemmtilegt að sjá þá sömu aðila, sem forsendunum valda, setja upp tilbúinn vandlætingarsvip á eftir. Öll þau varnaðarorð, sem sögð hafa verið í baráttunni gegn því, að Ísland yrði ofurselt bandarísku hernámi, eru nú að ásannast, illu heilli. Jafnvel þeir, sem á sínum tíma féllust á nauðsyn hernámsins í athugunarleysi, eru nú að öðlast nýjan skilning. Þegar þetta mál var rætt á þingi fyrir nokkrum árum, komst einn hv. þm. þannig að orði um hernámið, að „hið aukna öryggi, sem af því leiddi, mundi og hvergi nærri vega gegn þeirri gífurlegu hættu, sem slíkt hefði í för með sér fyrir sjálfstæði og þjóðerni Íslendinga, tungu þeirra og menningu“. Og það eru nú langtum fleiri, sem skilja þessa röksemd og finna, að jafnvel það aukna öryggi, sem þeir trúa enn á í blindni, er of dýru verði keypt.

Þótt ég hafi dregið upp dökka mynd af ástandinu og hún sé engan veginn of dökk, skyldi enginn ætla, að þessi orð séu mælt af svartsýni eða ótrú á íslenzka æsku og þrek hennar og þjóðarinnar allrar. Því fer víðs fjarri. Það er nú að vakna með þjóðinni og ekki sízt með íslenzkri æsku sú andstöðualda gegn hernáminu og afleiðingum þess, sem á eftir að valda úrslitum í íslenzkum þjóðmálum. Fleiri og fleiri skilja það, að það veltur á öllu, að öll heilbrigð öfl þjóðarinnar sameinist gegn spillingunni og niðurlægingunni, sem ráðamennirnir eru að leiða Íslendinga dýpra og dýpra út í. Og það er einmitt þessi harðnandi andstaða, þessi heilbrigðu viðbrögð íslenzkrar æsku og þjóðarinnar allrar, sem, veldur því, að hernámsmálin eru nú tekin til umr. á Alþingi af þeim, sem buðu herliðinu heim.

En því miður ber sú till., sem hér liggur fyrir, ekki með sér, að í þeim hópi sé um nokkur sinnaskipti að ræða. Hún hefur að vísu á sér fagurt yfirskin, en það er aðeins yfirskin. Upphaf hennar er á þessa leið: „Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að koma því til leiðar, að dvöl hermanna varnarliðsins verði framvegis takmörkuð við þá staði, sem liðið hefur til afnota“ o. s. frv. Ríkisstj. á sem sagt að koma því til leiðar. Í þessu orðalagi virðist felast viðurkenning flm. á þeirri kenningu hæstv. dómsmrh., sem hann flutti á síðasta fundi Sþ., að ferðir og vist hernámsliðsins væri ekki mál íslenzkra stjórnarvalda, heldur einvörðungu herstjórnarinnar sjálfrar. Hæstv. dómsmrh. lýsti yfir því, að allar reglur um þau efni hefðu verið settar af herstjórninni og yfirleitt án samráðs við íslenzk stjórnarvöld, og hann virtist telja þetta hið eðlilegasta ástand. En þessi túlkun er í ósamræmi við allar yfirlýsingar innlendra og erlendra valdamanna í sambandi við hernámið og við ákvæði hernámssamningsins sjálfs. Og það væri ákaflega alvarlegt, ef Alþingi samþykkti ályktun, sem felur í sér nokkra viðurkenningu á þessum háskalega skilningi. Alþingi Íslendinga á sannarlega ekki að fela ríkisstjórn sinni að fara neinn bónarveg að hernámsliðinu og mælast til þess, að það hagi sér á siðaðan hátt. Alþingi á þvert á móti að lýsa yfir afdráttarlausum skilningi sínum og fela ríkisstj. að framkvæma hann. Alþingi Íslendinga á ekki að biðja um neitt; það á að fyrirskipa.

Og hvað felst í orðinu dvöl? Er hægt að segja, að hernámsliðið hafi dvalizt hér í Reykjavík, þótt það hafi gert árásir á höfuðborgina nærfellt hvert kvöld og haldið þeim áfram fram á nætur? Varla er hægt að kalla slíkt dvöl samkvæmt almennri málvenju, og hvað felst þá efnislega í till. flm.?

Enn segir í till., að það eigi að takmarka ónauðsynlegar ferðir hernámsliðsins frá samningssvæðunum. Samkvæmt skilningi hæstv. dómsmrh. er það hernámsstjórnin ein sem ákveður, hvað eru ónauðsynleg ferðalög, og hún mun telja árásirnar á Reykjavík mjög nauðsynlegar. Hv. flm. virðast samkvæmt upphafi till. fallast á skilning hæstv. ráðh., en hvað er þetta þá annað en meinlaus orð?

Mér virðist því þessi þáltill. ákaflega gagnslaus og til þess fram borin að sýnast. Ég mun þó fylgja henni til n. í trausti þess, að þar komi fram till. um afdráttarlausari málsmeðferð. En hvernig sem þau málalok verða, tel ég það ánægjuefni, að þessi till. hefur komið fram, eins og þó er frá henni gengið. Hún sýnir, að einnig þeim, sem buðu hernámsliðinu heim, þvert ofan í loforð sín og ákvæði stjórnarskrárinnar, er að verða órótt af afleiðingum verka sinna. Og sá órói á eftir að aukast.