22.10.1952
Sameinað þing: 6. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 205 í D-deild Alþingistíðinda. (2617)

50. mál, útvarpsrekstur á Keflavíkurflugvelli

Flm. (Jónas Árnason):

Herra forseti. Till. þessi var flutt á seinasta þingi, en fékkst ekki afgreidd; var ekki einu sinni tekin til umr. Þó er hér vissulega ekki á ferðinni svo þýðingarlaust mál, að það eigi ekki skilið annað en sinnuleysi og þögn af hálfu hv. Alþ. Þvert á móti munu nú fá mál þýðingarmeiri að því er snertir viðhald þjóðernis okkar og verndun sjálfstæðis okkar á þessum alvarlegu tímum.

Því var spáð í grg. með till., þegar hún var flutt í fyrra, — það var fáum dögum eftir að bandaríska útvarpsstöðin á Keflavíkurflugvelli tók til starfa, — að meiri hluti unga fólksins hér í Rvík og nágrenni mundi gera þessa stöð að sinni stöð, þ. e. a. s. hlusta að staðaldri á hana, en hætta að hlusta á útvarp sinnar eigin þjóðar. Nú hefur þetta sannazt. Eins og nánar er að vikið í grg. með till., fylgist unga fólkið hér í Rvík og nágrenni nákvæmlega með því, sem gerist í hermannaútvarpinu, en — manni liggur við að segja — forðast eins og heitan eldinn að stilla viðtæki sín á íslenzka útvarpið. Sem betur fer munu vera minni og sennilega mjög lítil áhrif þessarar stöðvar í öðrum landshlutum, en hér suðvestanlands, sem stafar af því, að styrkleiki hennar er enn ekki orðinn svo mikill, að í henni heyrist greinilega víðar. En vegna þess að Reykjavík er aðalmenntasetur þjóðarinnar, hér starfa allir helztu skólar landsins, flykkist hingað æskufólk hvaðanæva að, enda er það svo, að yfir vetrarmánuðina dvelst hér meira en helmingur allrar íslenzkrar æsku. Og þetta fólk er undir linnulausum áhrifum frá hernámsstöðinni. Það elst bókstaflega upp í hinu útlenda andrúmslofti hennar. Skal ég ekki tefja fundinn á langri lýsingu á því, hvers eðlis það andrúmsloft er, en vísa um það til þess, sem segir í grg. Dagskrárefni bandaríska útvarpsins, það sem ekki er helber hégómi, er yfirleitt menningarfjandsamlegur og siðspillandi sori. Og í þessu menningarfjandsamlega, útlenda andrúmslofti er sem sagt að mótast andlegt viðhorf stórs hluta íslenzkrar æsku. Sú staðreynd hlýtur að vera mönnum ærin sönnun þess, að hér er um hið alvarlegasta mál að ræða.

Við aðhyllumst allir þá skoðun, að fyrir áhuga þann á þjóðlegum bókmenntum okkar, sem ein kynslóð tók í arf frá annarri, hafi menning okkar lifað; þessi áhugi hafi verið krafturinn, sem bjargaði þjóðerni okkar gegnum hætturnar. Nú miða flestir hlutir að því að slæva þennan áhuga hjá hinni uppvaxandi kynslóð og varpa henni á vald útlendum áhrifum. Ég hygg, að það sé ekki ofmælt, að stofnun eins og bandaríska útvarpsstöðin á Keflavíkurflugvelli geti á fáum árum gert að engu það þjóðernisþrek, sem bókmenntum okkar tókst að halda við og jafnvel efla gegnum aldirnar. Ef til vill kann einhver að segja í þessu sambandi, að æskulýðnum sé þetta vorkunn og eðlilegt, að hann leggi þar frekar eyrun við, sem dagskrárefni er léttara og fjörugra en í íslenzka útvarpinu; og sjálfsagt mun það rétt, að íslenzka útvarpið geri sér ekki nógu mikið far um að ná eyrum yngri kynslóðarinnar, vanræki þá tegund léttara efnis, sem eðlilegt er að glöð og heilbrigð æska sækist eftir. Það má vissulega ofbjóða ungu fólki með eintómri hámenningu. En þetta er bara annað mál og breytir engu um réttmæti þeirrar kröfu, að stöðvaður sé rekstur hinnar erlendu útvarpsstöðvar, sem er að beygja andlegt líf æskunnar undir yfirráð sín. Mestu skiptir þó kannske það gagnvart löggjafanum, að krafa þessi byggist á lagalegum fyrirmælum. Rekstur bandarísku útvarpsstöðvarinnar er brot á lögum landsins, sem mæla svo fyrir, að ríkisstjórnin ein hafi rétt til að reka útvarp á Íslandi. Þessi till. felur þannig í sér áminningu um, að ríkisstj. gæti þess, að íslenzkum lögum sé hlýtt, eins og henni að sjálfsögðu ber öðrum fremur skylda til. Sú staðreynd ein út af fyrir sig ætti að vera hv. Alþ. ærin hvöt til að samþykkja till. sem allra fyrst.