22.10.1952
Sameinað þing: 6. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 206 í D-deild Alþingistíðinda. (2621)

56. mál, endurskoða orlofslögin

Flm. (Stefán Jóh. Stefánsson):

Herra forseti. Ég vildi fyrst leyfa mér með örfáum orðum til viðbótar því, sem segir í grg. fyrir þessari þáltill., að minnast á aðdragandann að setningu þeirrar löggjafa,r, sem gildir nú um orlof á Íslandi.

Þegar það mál hafði verið undirbúið nokkuð af þáverandi félmrn., var borin fram á Alþ. 1941 till. til þál. um skipun nefndar til þess að undirbúa setningu löggjafar um orlof. Var þar farið fram á að leggja grundvöllinn að þessari löggjöf með nokkuð svipuðum hætti og hér er lagt til að verði við áframhald og endurbætur á þessari löggjöf. Þessi till., sem borin var fram á Alþ. 1941 og flutt var af þm. Alþfl., vakti engan sérstakan styr á þingi, og var hún umræðulítið samþ. með 26 shlj. atkv., en 6 þm., sátu hjá. Eftir að þessi till. hafði verið samþ., var nefnd skipuð, er síðan vann vel og rösklega að því að semja frv. til laga um orlof. Er það frv. var fram komið, var það flutt af Alþýðuflokksþm. á fyrra þinginu 1942, og má þá segja, að ekki hafi verið of góðar né sérstaklega skilningsgóðar undirtektir sumra þm. um þessi nýmæli í íslenzkri löggjöf. Um þetta frv., sem þá var lagt fyrst fyrir Ed., sagði hv. núverandi 1. landsk. (BrB), að „þetta, sem frv. gerir ráð fyrir, er erfitt í framkvæmd og allt töluvert margbrotið“. Og síðar í sömu ræðu: „Þetta orlof er náttúrlega ákaflega lítilfjörlegt hjá verkamönnum á atvinnuleysistímum.“ Síðan segir þessi sami hv. þm. í annarri ræðu á sama þingi, fyrra þinginu 1942: „Ég sé ekki ástæðu til að halda hér langar ræður fyrir þessari hv. samkomu um það, hve frv. þetta sé fullkomið.“ Og enn heldur sami þm. áfram: „Viðvíkjandi Dagsbrún og þeim samningum, sem það félag hefur haft um þetta efni, vil ég segja það, að þau ákvæði eru til ákaflega lítils gagns, og ég held, að það sé einróma skoðun núv. stjórnar þess félags, að það hafi verið ákaflega lítið í það varið að fá þau fram. Þau eru ákaflega erfið í framkvæmd og einnig lítilfjörleg fríðindi, enda þótt framkvæmdin væri sæmileg, og enn þá lítilfjörlegri fríðindi heldur en verða mundu eftir þessu frv., ef samþykkt væri.“

Ég minni á þessi atriði úr ræðu Brynjólfs Bjarnasonar alþm. fyrir þær sakir, að því hefur verið haldið fram, að verkamannafélagið Dagsbrún hafi í raun og veru unnið einhverja sigra í þessu máli. En hann, sem var talsmaður þessa félags á Alþ., lýsir yfir því, sem nú hef ég vitnað til, þar sem hann taldi samningsatriði þau, sem Dagsbrún hefði fengið fram, og notaði orðið „ákaflega“ lítið til gagns, oftar en einu sinni og sagði, að það yrði enn þá minna gagn að því heldur en frv., sem þá lá fyrir, og erfitt í framkvæmd. — Þetta voru nú eiginlega höfuðundirtektirnar á haustþinginu 1942 undir þetta frv. En það vill nú verða svo með mörg góð mál, að tréð fellur ekki við fyrsta högg. Frv. var síðan borið fram á síðara þinginu 1942 og náði þá fram að ganga eftir nokkurt þjark og nokkrar ýfingar af hálfu einstakra þm.

Mér þótti rétt að drepa á þessi atriði sérstaklega út af forsögu lagasetningarinnar, ekki hvað sízt fyrir þær sakir, að í umræðum hefur verið nokkuð minnzt á mikinn áhuga einstakra manna og flokks fyrir þessu máli og þá sérstaklega um afrek það, sem Dagsbrún hafi í öndverðu unnið, þó ekki fyrr en frv. kom fram, en því afreki var lýst með þeim orðum, sem nú hef ég vitnað til í ræðu Brynjólfs Bjarnasonar á sínum tíma. En það hefur farið svo með þessa löggjöf eins og marga aðra, að þótt hún í öndverðu hafi sætt of litlum skilningi og of lítilli vinsemd, þá hefur löggjöfin þó orðið á þann veg, að ég veit, að launastéttirnar og þá ekki hvað sízt hin skipulagsbundnu alþýðusamtök mundu berjast eins og ljón gegn því, að slík réttindi væru af þeim tekin, og meira en það.

Verkalýðssamtökin telja nú og það af eðlilegum ástæðum rétt, eftir að lög þessi hafa nú verið í gildi tæplega 10 ár, að þörf sé á endurbótum á þeim og viðaukum í samræmi við það, sem gerzt hefur hér í nágrannalöndunum. Eins og oft vill verða, ekki hvað sízt í íslenzkri félagsmálalöggjöf, þá er það svo, að við höfum getað litið til Norðurlandanna sem að mörgu leyti mikilla fyrirmynda í upphafi að setningu félagsmálalöggjafar. Við höfum stuðzt við þá reynslu og þekkingu, sem komið hefur í ljós við undirbúning slíkra mála á þjóðþingum á Norðurlöndum, og hefur það orðið að miklu liði í baráttunni fyrir endurbættri og góðri félagsmálalöggjöf hér á landi. Og svo mikið hefur verið eiginlega stolt Íslendinga í þessum efnum, að þótt þeir hafi fegins hendi tekið þeirri reynslu og notað sér til styrktar þann þekkingarforða, sem komið hefur fram í undirbúningi málanna á Norðurlöndum, þá hafa þeir ekki viljað ganga skemmra, þegar til hefur átt að taka, heldur en Norðurlöndin yfirleitt í félagsmálalöggjöfinni, og hefur það á sumum sviðum heppnazt vel. Mér er mjög minnisstætt, þegar samið var um setningu almannatryggingal., að áður en stjórn Ólafs Thors tók við völdum, 1944, þá var því heitið af honum, sem þá var að reyna að mynda stjórnina, eftir kröfu Alþfl., að það skyldi vera eitt af stefnuskrármálum þeirrar ríkisstj. að koma á svo fullkominni almannatryggingalöggjöf sem yfirleitt þekktist hér í nágrannalöndunum. Og það heit var haldið af þáverandi ríkisstj., og voru sett á árinu 1946 — en þau lög tóku gildi 1947 — almannatryggingalögin, sem á þeim tímum gengu mjög langt og voru í fremstu röð almannatryggingalaga, eins og þau þekktust hér a. m. k. í þessari álfu. En löng um — og ég vil geta þess hefur Ástralía verið þar einna efst á blaði með framkvæmdir í félagsmálalöggjöfinni, og svo var líka lengi hvað snertir almannatryggingalöggjöfina. En ég get þessa einmitt út af því, að ég tel, að það verði að heyja þolgóða og kannske nokkuð langa baráttu hverju sinni, þegar á að fá fram endurbætur á íslenzkri félagsmálalöggjöf, og að það megi ekki gefast upp frekar en gert var á árunum 1941–1942 með setningu orlofsl., og það megi ekki heldur gefast upp núna hvað snertir endurbætur á þessum l., þó að ekki kunni byrlega að blása.

Ég hef nú þann óljósa grun, að núverandi hv. stjórnarflokkar séu ekki sérstaklega ginnkeyptir fyrir því að ljá lið þeim umbótatill., sem Alþfl. flytur á Alþ., og kann það ekki allt að vera af slæmum vilja í garð þessara till., heldur telja þeir sér það hentugra, að Alþfl. fái ekki að þeirra áliti nein sérstök blóm í hnappagatið áður en gengið er til kosninga á vori komanda. En vera má, að kjósendur kunni að átta sig á því, að Alþfl., vegna þess að hann er í stjórnarandstöðu og ekki stærri flokkur en menn vita, fái skilning manna fyrir það að berjast fyrir góðum málefnum, og að þeir, sem leggjast gegn þeim, fái fyrir það lítið þakklæti, eins og vera ber fyrir það að leggjast gegn góðum málefnum.

Þá skal ég víkja örlítið að till. sjálfri, eins og hún liggur hér fyrir á þskj. 56, og er þar farið fram á að skipa þriggja manna nefnd, þar sem einn nefndarmanna sé tilnefndur af Alþýðusambandinu, annar af Vinnuveitendasambandinu og þriðji án tilnefningar af ríkisstj., til þess að endurskoða orlofslögin. Og það er gert nokkuð meira í þessari till. Það er vakin sérstök athygli á þrem atriðum, sem þörf sé á að taka fyrir til yfirvegunar í sambandi við endurskoðunina. Það er í fyrsta lagi um lengingu orlofstímabilsins úr tveimur vikum upp í þrjár. Í öðru lagi að reyna að koma á föstu skipulagi, t. d. með samningum við Ferðaskrifstofu ríkisins eða á annan hátt, til tryggingar því, að komið verði á skipulagsbundnum orlofsferðum fyrir það fólk í landinu, sem nýtur orlofsfjár eða annarra orlofsfríðinda, og að þessar skipulögðu og um leið ódýru orlofsferðir verði ekki aðeins miðaðar við, að þær verði innanlands, þó að það yrði væntanlega aðallega, heldur einnig til útlanda. Og ég vil geta þess, að hér t. d. á Norðurlöndunum öllum starfa ferðafélög alþýðusamtakanna þar í löndum, sem hafa náin samskipti sín á milli og vinna að því ekki hvað sízt, að það fólk, sem nýtur orlofsréttinda, geti átt þess góðan kost að fá ódýr og hentug ferðalög. Ég er ekki í nokkrum vafa um það, að Ferðaskrifstofa ríkisins gæti t. d. náð sambandi við slík samtök hér á Norðurlöndum, sem mundu greiða fyrir orlofsferðum héðan til þeirra landa, ódýrra, hentugra og með ódýrri dvöl þar í löndum. Og ef orlofstíminn yrði lengdur úr tveimur vikum í þrjár, er þess góður kostur, eins og nú er háttað samgöngum, milli Íslands og annarra landa, að þeir menn, sem geta notið orlofsins í þrjár vikur, gætu, ef verkast vildi og þeir treystu sér til, tekizt orlofsferðir á hendur einnig til útlanda. Í þriðja lagi er varðandi endurskoðunina bent á það atriði, að nauðsynlegt sé að tryggja betur en gert er, að orlofsféð sé raunverulega greitt sem slíkt, en ekki sem hluti af kaupi, óaðgreindur frá venjulegu kaupi og renni þannig í sjóð manna óaðgreindur og samtímis kaupinu, t. d. vikulega, og verði þá oft að eyðslueyri, og þegar til á að taka, þá njóti fólkið ekki þess að hafa sparað sér upp orlofsfé, þegar kemur að þeim tímabilum, að orlofsferðir eru hentugastar. Að vísu er í núgildandi lögum gert ráð fyrir því yfirleitt, að orlofsfé sé greitt með orlofsmerkjum, en ég hef ríka ástæðu til þess að ætla, að á framkvæmd þessarar löggjafar hafi orðið nokkur misbrestur og það sé alltítt, að þessi venjulegu 4% séu lögð ofan á vinnulaunin, t. d. vikulega, og þannig afhent þeim, sem þeim veita viðtöku. Orlofsréttindin eru frá öndverðu ekki hugsuð sem kauphækkun, heldur sem fríðindi til fólksins, sem þeirra nýtur, til að eiga þess kost að geta fengið sumarleyfi eða vetrarleyfi með uppspöruðu fé, sem það hefur geymt til þess tíma, að nota á það í því skyni að taka sér orlof. Og orlofsféð yfirleitt eða orlofsréttindin eru hugsuð sem einn þátturinn í því að efla menningu og víðsýni launtakanna í löndunum, verkamannanna og annarra, gefa þeim færi á að hleypa heimdraganum, komast í burtu úr sínu daglega umhverfi, annaðhvort einir eða þá með einhverri náinni fjölskyldu eða kunningjum á staði, þar sem er hægt að njóta betur friðar og hvíldar, og þá staði, sem kannske hugur þeirra hefur stefnt til að sjá langa lengi, en þeir ekki átt þess kost að fá uppfylling þessara óska sinna. Orlofslögin og framkvæmd þeirra eru einn þátturinn í baráttunni fyrir menningu alþýðunnar í löndunum. Það er ekki kaupgjaldsspursmál í sjálfu sér, heldur menningarbarátta, og ég ætla, að orlofsréttindin víða um lönd hafi einnig orðið til þess að víkka sjóndeildarhring alþýðunnar og gefa henni kost á betri hvíld og heppilegri en ella hefði orðið.

Nú gat ég þess áðan, að alveg á sama hátt eins og þegar íslenzka löggjafarvaldið lagði á vaðið með setningu orlofslöggjafarinnar eftir 1940, þá var fyrir nokkrum árum þar áður, eða rétt fyrir síðustu heimsstyrjöld, búið að setja lög á öllum Norðurlöndunum um orlofsréttindi. Ísland fór þar í kjölfarið og gerði það vel og dyggilega, því að orlofslöggjöfin, sem sett var 1942, var á margan hátt engu veigaminni, né náði skemmra, en þágildandi orlofslöggjöf á Norðurlöndum. En nú er svo komið einmitt upp úr heimsstyrjöldinni, að á Norðurlöndunum a. m. k. þremur, Danmörku, Noregi og Svíþjóð, er ýmist komið á eða er að komast á sumpart beinir samningar og sumpart lagaákvæði um lengingu orlofstímans úr tveimur vikum upp í þrjár. Í Danmörku var búið að semja raunverulega um þessa lengingu á milli heildarsamtaka verkamanna og atvinnurekenda, en það kom í ljós, að það var ekki fullnægjandi, því að það var hópur manna, ýmissa smærri „funksjonera“, ef ég má nota það orð, ýmissa starfsmanna þess opinbera, ýmissa þeirra manna, sem unnu að landbúnaðarstörfum, sem ekki nutu réttindanna eftir heildarsamningum verkalýðssamtakanna og atvinnurekendasambandsins, svo að það stendur til í Danmörku, að sett verði sem staðfesting á samningunum og einnig sem viðauki, er nái út yfir þær stéttir, sem sömdu um þessi réttindi sér til handa, lög, er tryggi þar öllum launamönnum yfirleitt þessi réttindi. Norðmenn riðu fyrstir á vaðið hvað þetta snerti rétt upp úr síðustu heimsstyrjöld. Þeir voru staðráðnir í því, eftir að taka við verulegum hluta af landi sínu í auðn eftir tortímingu stríðstímans, að byggja upp land sitt að nýju með sama þreki, sama þolgæði og þessi merkilega þjóð hafði sýnt á stríðsárunum í baráttunni við þýzku nazistana. En henni var það líka ljóst, að um leið og fólkið vildi leggja hönd á plóginn til þess að endurbæta það, sem aflaga hefði farið, til þess að gera Noreg að enn betra landi en hann áður hefði verið, þá þurfti líka að veita fólkinu réttindi og láta það finna, að það hefði gleði af að lifa í sínu landi. Þess vegna var sett löggjöfin um þriggja vikna orlofið þar fyrst af öllum Norðurlöndunum.

Þegar nú svo er komið, að Norðurlöndin eru búin að afla sér þessara fríðinda, þá tel ég alveg sjálfsagt, að það verði einnig gert hér á Íslandi, og eins og segir í grg., þá er það gefið, að íslenzk alþýðusamtök una því ekki til lengdar að vera á þessu sviði hornreka samanborið við stéttarbræður þeirra á hinum Norðurlöndunum. Það kann að vera hægt að þvælast á móti þessu góða máli um skeið, eins og gert hefur verið um mörg önnur umbótamál. En menn skulu sanna til, að fyrr eða síðar vinnst sigurinn í þessu réttlætismáli, og þeim mun meiri sæmd er það fyrir Alþingi Íslendinga sem það fyrr skilur og áttar sig á, hvað hér er um mikið sanngirnismál að ræða, og ég vildi mega æskja þess og vona það, að Alþingi Íslendinga vildi nú afgr. þessa till., sem hér liggur fyrir, og þá mætti takast með góðum vilja stjórnarvalda, eins og bent er á í grg., að afgr. breyt. á orlofsl. áður en þessu þingi er lokið, jafnvel þótt það stæði ekki mjög langa hríð, því að ég er ekki í nokkrum vafa um það, að ef t. d. þessi þáltill. yrði samþ. endanlega, við skulum segja í þessum mánuði, og brugðizt yrði skjótt við með skipun nefndar, að sú n. eða þeir nm. mundu leggja stolt sitt í það að afgr. breyt. á orlofslöggjöfinni svo fljótt, að það gæti komið í hendur Alþ. áður en því lyki og svo tímanlega, að unnt væri að afgr. breyt. á l. Það er þess vegna í raun og veru ekki farið fram á, að með þessu sé málið ekki afgr. á þessu þingi, og ef það er vilji og ef það er skilningur fyrir því, að það sé eðlilegt og sanngjarnt að afgr. það á yfirstandandi Alþ., þá er það mjög hægt með samþykkt þessarar till., sem hér liggur fyrir. Það er með till. okkar ekki farið fram á neina frestun á þessu máli.

Seinast í grg. er á það bent, að eftir að ákvarðaður var flutningur þessarar þáltill., þá var lagt fram á Alþ. frv. til l. um breyt. á orlofslögunum, á þskj. 28. Að sjálfsögðu mundum við flm., ef þess væri kostur, líka vilja styðja að því, að sú lagabreyting, með nauðsynlegum breyt. þó, yrði samþ., en við teldum, að traustari og betri grundvöllur væri lagður að málinu, ef farið væri að því á þann hátt eins og við leggjum til og málinu væri hraðað á þann veg, sem unnt er og ég hef nú á bent.

Ég vil vona, að þessi till. nái fljótt fram að ganga, en eftir reglum þingskapa ber að hafa um hana tvær umr. Ég legg til, að eftir að þessari umr. er lokið, verði henni vísað til hv. allshn. Sþ., en vildi þá beina því til þeirrar n., að hún sýndi skörungsskap í afgreiðslu málsins, og endurtaka þau orð mín til þingheims sjálfs, að það er í sjálfu sér miklu betra, þegar sýnilegt er, að málefni er svo sanngjarnt og á sér svo mikinn hljómgrunn, að það verður samþ. fyrr eða síðar, að það sé ekki tafið að ástæðulausu, heldur láti nú þeir, sem einhverjar vomur eru á út af slíkum endurbótum, það ekki á sig fá, heldur hafi þetta í huga, að þótt þeir samþykki það ekki í dag, þá verður það samþ. á morgun, annaðhvort af þeim eða þá öðrum, sem taka fram fyrir hendurnar á þeim.