05.11.1952
Sameinað þing: 10. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 214 í D-deild Alþingistíðinda. (2625)

56. mál, endurskoða orlofslögin

Sigurður Guðnason:

Herra forseti. Það voru aðeins nokkur orð, sem ég vildi segja um þessa þáltill., að gefnu tilefni af framsöguræðu hv. 8. landsk. Hann var mikið í upphafi ræðu sinnar að koma því að, að með orlofsl. hefði hlutur verkalýðsfélaganna og þá sérstaklega Dagsbrúnar verið þar ákaflega lítill, og eiginlega það mesta, sem hefði gerzt í því máli, hefði verið þegar hann sem félmrh. hefði skipað n. til þess að undirbúa málið undir þing, og eini þröskuldurinn eiginlega, sem hefði verið á leið þessa frv., hefði verið það, að hv. 1. landsk. þm. (BrB) í Ed. hefði lagzt á móti frv. og talið það einskis virði. Þessi ummæli eru nú þannig löguð, að það virðist vera, að hv. flm. hafi ekki verið kunnugur undirbúningi orlofsl. í upphafi. Orlofslögin, eins og undirstaðan öll var og formið á þeim, var búið að semja áður en þessi n. var sett. Ég held það hafi verið kringum 15. marz 1941, sem var samið við Reykjavíkurbæ um 6 daga orlof, sem var útfært þannig, að menn fengju hálfan dag fyrir mánuð. Og í október, á sama tíma og n. er skipuð hér á Alþingi, þá er Dagsbrún búin að semja um orlofslögin við Vinnuveitendafélagið. En ummæli hv. þm., Brynjólfs Bjarnasonar, áttu ekki við þetta. Við getum athugað það, að 1940 var sagt upp samningum, þegar kaup verkamanna var orðið það lágt, að það var eftir hagstofureikningum komið niður í 91 á móti 100 að kaupgetu frá því 1938. Árið 1941 var samið bæði við Reykjavíkurbæ og atvinnurekendur, án þess að samningum væri sagt upp, og þeir fengu þetta eitt, orlofssamninginn. Og það voru fleiri en hv. þm. Brynjólfur Bjarnason, það var fjöldi verkamanna, sem fannst þá vera linlega á sínum málum haldið, að fá aðeins þetta í staðinn fyrir að segja upp samningum og láta koma til stærri átaka eins og þá var komið, enda sýndi það sig 1942, þegar sagt var upp samningum. Þá gerir Dagsbrún samning við atvinnurekendur um átta tíma vinnudag, kaupið hækkar úr kr. 1,45 upp í kr. 2,10, og hún fær það samningsbundið, að orlofið skuli vera greitt eftir frv., sem liggi fyrir Alþingi og þá var orðið 14 daga, hvort sem frv. yrði að lögum eða ekki; það stendur í samningunum. Hvort þetta er ekki innlegg í málið, annað eins og þessi nefndarskipun, það læt ég aðra dæma um og mun ekki tala meira um það.

En viðvíkjandi þessari till., sem hér kemur fram, þá er gert ráð fyrir, að þungamiðjan í þessu máli sé það, að orlof verði þrjár vikur. Og það er mál, sem liggur nú hérna fyrir Alþingi í frumvarpsformi. Orlofslögin hafa yfirleitt reynzt vel, formið á þeim. Og það, sem hérna kemur fram gagnvart orlofsl., er að lögfesta það, að orlofsfé sé yfirleitt greitt í orlofsmerkjum. Nú er eftir orlofsl. beinlínis lögbrot bæði fyrir vinnuveitanda, sem hefur mann í lausavinnu, að borga honum þetta í peningum, og það er lögbrot fyrir verkamanninn að taka við þessu í peningum. Nú má kannske eitthvað herða þau atriði, en það er nú á öllum meiri háttar vinnustöðum og alls staðar hér um bil undantekningarlaust annaðhvort borgað í orlofsmerkjum, t. d. hjá Reykjavíkurbæ, þar er fært inn á vissum tímum í orlofsbækurnar. — Og svo er það þriðja atriðið í þessari till. að athuga samninga um orlofsferðir. Ég veit ekki til, að það sé nokkurs staðar í orlofsl. nokkur hlutur, sem bannar bæði félagsheildum og öðrum að semja um orlofsferðir við hvaða fyrirtæki sem er, og vafasamt hvort hægt er að koma því fyrir, að lögboðnar séu ferðir, sem menn eigi að fara í orlofi sínu. Ég sé ekki, að það sé neitt til í orlofsl., sem banni þetta. Og í þriðja lagi fannst mér, þegar þessi þáltill. kom fram, að við hefðum haft ákaflega raunalega sögu — sem hv. 1. landsk. lýsti þarna áðan — um togaravökulögin, og út úr þeirri n. fengum við ekkert annað en það, að tveir mennirnir voru með, tveir voru á móti, tveir voru hlutlausir — og mér finnst það vera það, sem við munum fá út úr þessari n. alveg eins, nema þar verður einn með, einn á móti og einn hlutlaus. Og þá held ég, að ekki verði nú langt farið áfram.