05.11.1952
Sameinað þing: 10. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 215 í D-deild Alþingistíðinda. (2626)

56. mál, endurskoða orlofslögin

Flm. (Stefán Jóh. Stefánsson):

Herra forseti. Ég sé ástæðu til að víkja örfáum orðum að þeim ræðum, sem nú hafa verið haldnar af tveimur þm. varðandi þá till., sem hér liggur fyrir til umr.

Ég hefði að vísu hálfpartinn búizt við því, að hinn reglulegi 1. landsk. yrði kannske kominn á þingfund, úr því að málið hefur dregizt svo lengi, og varamaður hans mundi ekki standa hér upp til þess að gera nánari grein fyrir hans fyrri afstöðu til orlofslöggjafarinnar og orlofslagaframkvæmdarinnar yfirleitt. Og þar sem hv. raunverulegi 1. landsk. er nú kominn til landsins af hinu merka og stóra þingi kommúnistanna í Moskva, eftir að hafa látið í ljós hrifningu sína og síns flokks yfir hinum mikla kommúnistaflokki Rússlands og hinum ástsæla foringja hans, Stalín, þá gerði ég jafnvel ráð fyrir því, að hann mundi nú ekki þurfa að vera hér lengur í bænum, áður en hann kæmi til hins litla Alþingis, og gæti þá verið með í þessum umr. En það hefur nú ekki orðið. Í stað þess hefur varamaður hans, ritstjóri Þjóðviljans, lesið hér upp eina tvo, þrjá dálka, sem hann er búinn að skrifa í Þjóðviljann. Og það er full ástæða til þess að treysta því, að þeir muni þar á þrykk út ganga, þessir dálkar, sem hann flutti hér áðan úr þessum ræðustóli. En það má segja um þá dálka, eins og margt annað hjá þessum þm. og sumum flokksbræðrum hans, að þegar þeir minnast á Alþfl. og afstöðu hans til félagsmálalöggjafarinnar yfirleitt, þá er eins og þeir umsnúist og sjái — ja, ég vil ekki segja rautt, það sjá þeir nú aðallega þegar þeir eru suður í Moskva, en svart þegar þeir sjá Alþfl. á Íslandi og baráttu hans fyrir félagsmálalöggjöfinni á Íslandi. Þessi sami hv. þm. var að tala um það háðulegum orðum, hversu óviðeigandi það væri yfirleitt að skipa nefndir til þess að undirbúa merk málefni fyrir Alþingi. Alþfl. hefur nú fyrir sitt leyti ekki oft fundizt það óviðeigandi og staðið að því með nokkuð miklum árangri. Sú Alþýðutrygginga- og almannatryggingalöggjöf, sem í landinu gildir, var undirbúin áður mjög gaumgæfilega af nefndum, sem Alþfl. fékk skipaðar í þessu skyni. Orlofsl. voru undirbúin mjög gaumgæfilega af n., sem Alþfl. fékk skipaða í þessu skyni. Má kannske nokkuð af því ráða, að vinnubrögð Alþfl. til þess að undirbúa mál fyrir Alþingi með nefndarskipunum séu ekki til þess gerð að drepa málunum á dreif, heldur til þess miklu fremur að undirbúa þau svo rækilega, að það verði sem bezt og bitrust vopn í höndum forsvarsmanna málanna á Alþingi. Alþfl. mun ekki blygðast sín fyrir það og mun nú halda áfram, hvað sem dálkar Þjóðviljans, hvort sem þeir standa hér í ræðustól á Alþingi eða uppi á ritstjórnarskrifstofu, segja um þessi mál. Hann mun standa jafnréttur eftir sem áður.

En af því að hv. 1. landsk. kastaði fram þeirri fullyrðingu, að vitnun mín til umræðna á Alþingi varðandi orlofslöggjöfina og þá sérstaklega úr ræðu Brynjólfs Bjarnasonar, hins raunverulega 1. landsk. þm., væri fölsuð og rifin út úr samhengi, þá vildi ég nú gefa hv. þm. kost á því, — að sjálfsögðu þarf hann undirbúning til þess að skrifa þá dálka Þjóðviljans, sem hann flytur svo hér í ræðustólnum, en hann á þann kost einan að koma með einhverja nýja dálka, skrifaða, hér upp í ræðustólinn og færa einhverjar sönnur á þessa sleggjudóma sína hér áðan, sem hann viðhafði. En til þess nú að skýra það enn þá betur, þá skal ég aftur lesa upp orðréttan kafla úr ræðu Brynjólfs Bjarnasonar á fyrra þingi 1942 varðandi bæði orlofslagafrv., sem fyrir lá, og þá einnig — og vík ég því til hv. 6. þm. Reykv. (SG) — varðandi samninga Dagsbrúnar, sem þá voru nýgerðir, um, að hans áliti, Brynjólfs Bjarnasonar, mjög lítilfjörleg og ófullkomin orlofsréttindi. Þessi kafli úr ræðu hans er tekinn upp alveg orðréttur, og gef ég hv. 1. landsk. þm. kost á því, áður en hann skrifar næstu ræðu sína og næstu Þjóðviljadálka, að athuga þetta og fletta upp í þingtíðindunum og bera saman, áður en hann les upp næstu dálkana hér úr ræðustólnum. — En Brynjólfi Bjarnasyni fórust svo orð á fyrra þinginu 1942:

„Ég sé ekki ástæðu til að halda hér langar ræður fyrir þessari hv. samkomu um það, hve frv. þetta sé fullkomið“. — Svo heldur hann áfram: „Viðvíkjandi Dagsbrún og þeim samningum, sem það félag hefur haft um þetta efni, vil ég segja það, að þau ákvæði eru til ákaflega lítils gagns, og ég held, að það sé einróma skoðun núverandi stjórnar þess félags, að það hafi verið ákaflega lítið í það varið að fá þau fram. Þau eru ákaflega“ — í þriðja sinn ákaflega, svo mikla áherzlu leggur þm. á að lýsa — ja, allt að því fyrirlitningu sinni á þessum gerðum Dagsbrúnar, að hann notar orðið ákaflega þrisvar sinnum með stuttu millibili í þessu sambandi — „erfið í framkvæmd og einnig lítilfjörleg fríðindi, enda þótt framkvæmdin væri sæmileg, og enn þá lítilfjörlegri fríðindi heldur en verða mundu eftir þessu frv., ef samþykkt væri.“

Þetta eru ófölsuð orð, ekki rifin út úr neinu samhengi, tekin úr ræðu þessa hv. þm. og standa þar sem góður minnisvarði yfirleitt um afstöðu hans flokks til þeirra umbótamála, sem Alþfl. hefur barizt fyrir á Alþ. fyrr og síðar. Það er allt ákaflega lítilmótlegt. Það er allt ákaflega lítilfjörlegt, þegar verið er að berjast fyrir því. En þegar svo er búið að fá það fram, þá er talið, að þessi flokkur hafi að því staðið með baráttu sinni á vettvangi löggjafarþingsins og verkalýðsmálasviðinu að reyna að knýja þessi áhugamál fram og að Alþfl. geri ekki annað, en að tefja fyrir með látlausum nefndaskipunum. Ég vildi enn þá einu sinni skjóta því til hv. 1. landsk., sem hér talaði áðan, að segja til, hvað er falsað í þessum ummælum, hvað er rifið út úr samhengi. Geti hann það ekki, þá neyðist ég til að segja það, að þessi orð og enn þá fleira í ræðu hans hafi verið ómerkilegt fleipur. Nú getur hann sett sig niður og skrifað og reynt að flytja það aftur hér úr ræðustól Alþ.

Um sjálft málið vildi ég segja það, að það var skýrt í fyrri framsöguræðu minni og tekið skýrt fram í grg., að Alþfl. hefði ákvarðað fyrir sitt leyti, áður en frv. það, sem flutt hefur verið í Ed. um breyt. á orlofslöggjöfinni, kom fram, að flytja þá þáltill., sem hér liggur fyrir. Það var skýrt tekið fram bæði í grg. og framsöguræðu minni, að Alþfl. gæti fyrir sitt leyti vel léð því frv. lið með vissum breyt. og viðaukum. Og á því mun ekki heldur standa. Hins vegar höfum við meiri trú á því, að ef meiri hluti Alþ. gengi inn á þá hugsun og viðurkenndi þar með réttmæti hennar að skipa sérstaka n. til þess að vinna að ákveðnum, tilteknum breyt. á orlofsl., þá mundi verða miklu líklegra, að sú breyt. næði fram að ganga á, Alþ. Það er okkar reynsla eftir þeim vinnubrögðum, sem við þekkjum til í sambandi við löggjafarmál og undirbúning þeirra fyrir Alþ. Og ég sagði það líka þá og segi það enn, að þótt ég hafi ekki mikla von um það, því miður, að þessi till. gæti náð svo fljótt fram að ganga hér á Alþ., að röggsamleg n., sem skipuð væri strax, gæti undirbúið málið áður en Alþ. lyki, þá teldi ég ekki með öllu útilokað, ef sú n. yrði sammála, að fá frv. fram um þetta efni jafnvel á þessu yfirstandandi Alþ. En ég segi það aftur og segi það enn, að það mun ekki standa á Alþfl., með breyt. og viðaukum, að fylgja því frv., sem flutt var af kommúnistum í Ed. Hann mun ekki hafa það á sama hátt og hv. 1. landsk., að ýfast við málum eins og þessu bara af því, að kommúnistar flytja það, þó að hann teldi fyrir sitt leyti, Alþfl., að það væri betra að viðhafa önnur vinnubrögð.

Svo vildi ég að lokum segja það, með vitnun til ræðu Brynjólfs Bjarnasonar og þess, sem ég hef áður sagt um þetta mál hvað snertir baráttu verkalýðsfélaganna um orlofsréttindi, að skriður komst enginn verulegur á það mál, fyrr en búið var að skipa n. af þáverandi ríkisstj. til að undirbúa orlofslagafrv. Og skriðurinn komst ekki enn þá heldur fullur á það mál fyrr en tilbúið frv. um þetta efni lá fyrir Alþ. og verkalýðsfélögin gátu í samningum sínum vitnað til þessa frv. og óskað eftir því a.ð fá samninga í samræmi við ákvæði þess. — Og enn þá eitt, að þótt samningar fengjust, ákaflega lítilfjörlegir að dómi 1. landsk. (BrB), hjá Dagsbrún 1941 eða 1942, þá er það eitt víst og rétt, — og veit ég, að hv. 6. þm. Reykv., jafngrandvar maður og hann er, muni viðurkenna það, — að verkalýðsfélögin sem heild hefðu átt þess engan kost að fá viðurkenndan með samningum fljótt og skelegglega allan þann rétt, sem orlofslöggjöfin fékk þeim í hendur, eftir að þau voru afgreidd á Alþ. Ég geri ráð fyrir því, að verkalýðsfélögin hefðu áfram barizt fyrir þessum orlofsrétti sínum, og það hefði verið eðlilegt. En það skorti mikið á, að sú barátta yrði sigurstrangleg, eins og högum var háttað. Og baráttan gat ekki fallið niður fyrr en búið var að setja orlofslögin, sem undirbúin voru af n. og þurftu að vera fyrir Alþ. tvisvar sinnum áður en þau náðu samþykki, en hafa náð samþykki, eru mikilsverð lög, sem þarf að breyta og bæta við. Og ég held, að þá væri ekki óheppilegt að viðhafa þau vinnubrögð enn að skipa nefnd til þess að undirbúa það mál. Ég held þess vegna, að það væri enginn meiri styrkur og gæfi engar meiri vonir um framkvæmd á samþykki Alþ. á viðaukum og endurbótum á orlofsl. fremur en það að skipa n. með líkum hætti eins og við Alþfl.-menn höfum lagt til og leggja þannig heilsteyptan vel undirbúinn grundvöll að baráttu þeirra manna á Alþ., sem áhuga hafa virkilegan fyrir þessu máli, og þeir munu áreiðanlega knýja það fram fyrr eða síðar. Það er síður en svo, að ég hafi nokkuð á móti því, að atkv. kommúnista komi til styrktar því máli. En ég veit það með vissu, að starfsaðferðir þeirra eru ekki líklegar til að koma heillamálum í höfn, hvorki þessu né öðrum.