22.10.1952
Sameinað þing: 6. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 221 í D-deild Alþingistíðinda. (2633)

59. mál, vegagerð úr steinsteypu

Flm. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Vegir hér á landi eru flestir aðeins moldar- eða malarvegir. Þannig gerðir vegir eru ekki góðir til lengdar, nema umferð sé lítil og tíðarfar gott. Allar samgöngur á landi hér byggjast á bifreiðaakstri eftir hinum slæmu og löngu vegum. Hér eru engar járnbrautir til þess að létta á flutningaþörfinni eftir vegunum. Er því skiljanlegt, að umferð um þá vegi, sem liggja um þéttbýlustu héruðin, sé nú of mikil og viðhald á moldarvegunum verði of dýrt.

Reynslan hefur sýnt, að þótt árlega sé varið um 20 millj. kr. til viðhalds þjóðveganna, þá nægir það engan veginn, og eru vegirnir þrátt fyrir það mjög slæmir. Reynslan hefur einnig sýnt, að þar sem umferð er mikil á vegunum, duga ekki nema steinsteyptir vegir, sbr. veginn hérna fyrir innan bæ, inn undir Elliðaár. Þeir vegir eru dýrir í byrjun, en ódýrir í viðhaldi. Vegagerð úr steinsteypu er það dýr, að langur tími mun líða, þangað til vegakerfi landsins verður þannig uppbyggt, en aðalvegirnir verða að byggjast þannig á næstu árum. Það má því ekki dragast lengi úr þessu, að hafizt verði handa og byrjað að steypa vegina, eftir því sem fjárhagur og geta leyfir.

Þegar sementsverksmiðjan byrjar að starfa, þarf ekki erlendan gjaldeyri fyrir sement. Væntanlega rís sementsverksmiðjan af grunni fljótt. Hún skapar atvinnu í landinu og kemur til með að framleiða nægilegt sement á samkeppnishæfu verði. Með sementsverksmiðjunni munu skapast nýir möguleikar til vegagerðar í landinu. Óskir manna um betri vegi mættu því uppfyllast fyrr, en ýmsir hafa búizt við.

Till. mín fer fram á það, að ríkisstj. láti fara fram athugun á þessu máli. Athugun er nauðsynleg til þess að fá rökstutt álit sérfróðra manna um þetta mál. Þar sem gera má fyllilega ráð fyrir, að álitið verði jákvætt, er líklegt, að það leiði til þess, að byrjað verði, þótt í litlu sé fyrst í stað, að gera vegi úr varanlegu efni. Slit á ökutækjum og öll sú eyðsla, sem vondir vegir hafa í för með sér, ætti að nægja til þess að gera flestum ljóst, að við höfum ekki efni á að notast við hina frumstæðu vegagerð til langframa.

Ég vil leyfa mér að fara fram á það, að þessari till. verði vísað til 2. umr. og allshn.