21.10.1952
Neðri deild: 12. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 133 í B-deild Alþingistíðinda. (264)

49. mál, laun forseta Íslands

Forsrh. (Steingrímur Steinþórsson):

Herra forseti. Frv. þetta á þskj. 49 er borið fram til staðfestingar á brbl. um breyt. á l. nr. 37 frá 1944, um laun forseta Íslands. Þessi brbl. voru gefin út 20. marz s.l. vetur. Í röksemdum fyrir brbl., sem prentaðar eru hér sem fskj., er skýrt frá; hvernig stendur á því, að þessi brbl. voru sett. Mætti í raun og veru vitna til þess, sem þar er tekið fram, en ég vil þó leyfa mér að láta fylgja aðeins örfá orð.

Tildrög þessa máls eru þau, að þegar laun forseta Íslands voru ákveðin árið 1944 og voru þá ákveðin 50 þús. kr., þá giltu ákvæði um það, að greiða skyldi verðlagsuppbót einungis á hluta grunnlaunanna. Í þessu tilfelli var þá greidd verðlagsuppbót á tæpar 10 þús. kr. Síðar var tekið í lög að greiða fulla verðlagsuppbót á embættislaun, en fyrrverandi forseti Íslands, herra Sveinn Björnsson, tók samt áfram laun eftir gömlu reglunni, og stóð svo þangað til á miðju síðasta ári, árinu 1951. En frá þeim tíma fékk forseti greidda fulla verðlagsuppbót á öll launin, og urðu þau þá, með þeim uppbótum öllum, um 17 þús. kr. á mánuði í stað 6 þús. kr. áður. Það var sameiginlegt álit ríkisstj. og herra forsetans, að þessu þyrfti að breyta, og var það algerlega í samráði við vilja fyrrverandi forseta, að launakjörunum yrði breytt eins og gert er hér með brbl. En þegar fráfall forseta bar að höndum og vitað var, að nýr forseti yrði kjörinn, áður en Alþ. kæmi saman nú á þessu hausti, þá varð ekki hjá því komizt að leysa launamál forsetans með brbl., þar eð launakjörum forsetans verður ekki breytt til lækkunar á kjörtímabilinu samkv. þeim ákvæðum, sem gilda. Út frá þessu var það, sem ríkisstj. ákvað að setja þessi brbl. og varð ásátt um að ákveða grunnlaunin 85 þús. kr. á ári, auk þeirrar verðlagsuppbótar, sem nú er lögskipuð, og verða þá mánaðarlaun forseta alls rétt um 10 þús. kr. eins og nú er, ef til vill aðeins rösklega það. Það má sjálfsagt alltaf um það deila, hvort þetta séu hæfileg laun eða ekki, en á það má benda, sem öllum hv. alþm. er kunnugt, að auk launa hefur forseti fríðindi, sem aðrir þjóðfélagsborgarar hafa ekki, eins og ókeypis bústað, ljós og hita, ýmis fríðindi í sambandi við þjónustufólk og hefur fengið greiddar 70 þús. kr. árlega vegna risnu, sem að vísu má ekki blanda neitt saman við launaspursmálið. En auk þess greiðir hann svo hvorki útsvar né skatta. — Ég sé ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta frv. Tildrög þess eru þau, sem hér eru fram tekin, og leyfi ég mér að leggja til að, að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til hv. fjhn.