19.11.1952
Sameinað þing: 14. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 224 í D-deild Alþingistíðinda. (2642)

68. mál, síldarleit

Sigurður Ágústsson:

Herra forseti. Á þskj. 77 hef ég leyft mér að bera fram brtt. við till. til þál. um síldarleit fyrir Norður- og Norðausturlandi á þskj. 71. Legg ég þar til, að tillgr. orðist svo, með leyfi hæstv. forseta:

Alþ. ályktar að fela ríkisstj. að útvega hentugt skip til að annast síldarleit við strendur landsins á næsta ári, þá mánuði, sem síldveiðar standa yfir. Kostnaður við leitina greiðist úr ríkissjóði.“

Fyrirsögn till. breytist í samræmi við þessa brtt. mína þannig: „Till. til þál. um síldarleit.“ Ég vil þakka hv. flm. fyrir að hafa flutt þáltill. um síldarleit. Hins vegar tel ég, að till. þeirra nái of skammt, þar sem í henni er aðeins gert ráð fyrir, að síldarleit verði framkvæmd fyrir Norður- og Norðausturlandi. Eins og nú er komið, er fyrirsjáanlegt, að taka verður þessi mál fastari tökum, en verið hefur til þessa. Átta aflaleysisár á síldveiðum fyrir Norðurlandi hafa fært oss heim þau sannindi, að ekki hafi verið gerðar nægilegar ráðstafanir til þess að láta síldveiðiskipin fá upplýsingar um göngu síldarinnar eða aðra aðstoð í sambandi við veiðarnar. Raunar hafa síldarverksmiðjur ríkisins og aðrir eigendur síldarverksmiðja norðanlands og austan ásamt síldarútvegsnefnd og fiskimálasjóði staðið undir kostnaði við síldarleit með flugvélum fyrir Norður- og Norðausturlandi undanfarin sumur. Þessi síldarleit hefur oft gefið góða raun og leiðbeint skipunum á þá staði, þar sem síldin hefur haldið sig.

Þó er þessi tegund síldarleitar ekki einhlít. Vér verðum að afla oss nægilegrar þekkingar um göngu síldarinnar, á hvaða dýpi hún heldur sig, og finna leiðir til að geta veitt hana, þótt hún vaði ekki, sem kallað er. Vér getum ekki lengur haldið áfram ár eftir ár að senda um eða yfir 200 síldveiðiskip til Norðurlandsins og látið þau dvelja þar í 60–70 daga án þess að fá nokkra veiði, sem talizt geti, og það jafnvel þótt vitað sé, að nægileg síld sé fyrir hendi, ef leitað væri dýpra á miðin og nægileg leiðbeiningarstarfsemi væri höfð með höndum til aðstoðar síldveiðiflotanum. Vér vitum, að norskir útvegsmenn og sjómenn hafa notið mikils stuðnings við síldveiðarnar, bæði heima fyrir og hér við strendur Íslands, með þeim upplýsingum, sem hafrannsóknaskip þeirra hefur látið þeim í té. Tel ég, að ekki verði ráðin bót á því erfiða ástandi, sem við Íslendingar eigum við að búa í sambandi við síldveiðarnar, nema hæstv. ríkisstjórn hafi um það forustu, að „Fanney“ verði útbúin fullkomnustu tækjum til síldarleitar og að hún verði einvörðungu yfir síldveiðitímann notuð til að aðstoða síldveiðiskipin, hvort heldur þau eru að veiðum norðanlands eða sunnan, eftir því sem reynslan sker úr um þörfina á hverjum tíma.

Síldveiðarnar hér sunnanlands eru orðnar og hafa reyndar verið um langt árabil stór atvinnugrein. Fleiri og fleiri skip hafa tekið þátt í reknetjaveiðunum hér í flóanum á undanförnum árum. Á Breiðafirði hefur sama og engin síldveiði verið stunduð fyrr en nú á þessu ári. Á hafnir við Breiðafjörð voru lagðar á land um 30 þús. tunnur síldar í sumar og haust, og fór sú síld bæði til frystingar, söltunar og í bræðslu. Geri ég ráð fyrir, að hv. flutningsmenn og aðrir hv. alþm. geti orðið mér sammála um þær smávægilegu breytingar, sem ég hef hér flutt við þáltill. á þskj. 71.