19.11.1952
Sameinað þing: 14. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 235 í D-deild Alþingistíðinda. (2658)

79. mál, iðnaðarframleiðsla

Forseti (JPálm):

Í tilefni af aðfinnslu hv. þm. Hafnf. vil ég taka þetta fram:

Þessi till., sem hér er um að ræða, hefur verið fjórum sinnum á dagskrá, og engin mál, sem síðar hafa komið fram, hafa verið tekin fram fyrir hana. Hins vegar má segja, að það hafi verið of fáir fundir haldnir að þessu, en það er sameiginlegt álit okkar forseta þingsins, að löggjafarstarfið, frv. og meðferð þeirra, eigi að sitja fyrir þáltill., og hingað til hefur verið nægilegt verkefni aðra daga vikunnar, en á miðvikudögum til að sinna frv. Hins vegar er það kunnugt, að það er heldur illa séð meðal hv. þm. að halda kvöld- og næturfundi fyrri hluta þings, en ég hafði hugsað mér, þegar kæmi fram yfir næstu helgi, að byrja þá á þeim sið, hvað sem öðru líður, að fara að halda kvöld- og kannske næturfundi til þess að koma þeim málum áfram, sem hafa ekki fengizt afgreidd að þessu.

Varðandi það, að ráðh. séu hér sjaldan viðstaddir, þá veit hv. þm. það, að forseti hefur það ekki á valdi sínu að fyrirskipa hæstv. ráðh., að þeir séu viðstaddir. Annars hafa nú verið miklu minni brögð að því í Sþ. heldur en í hv. Nd., að ráðherrarnir væru ekki viðstaddir, og m. a. á þessum fundi hafa 5 ráðh. mætt. — Að öðru leyti skal ég svo ekki fjölyrða um þessar aðfinnslur frá hv. þm. Hafnf.