26.11.1952
Sameinað þing: 16. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 250 í D-deild Alþingistíðinda. (2681)

123. mál, olíuskip Þyrils

Flm. (Lúðvík Jósefsson):

Herra forseti. Ég flyt hér á þskj. 177 þáltill. um lækkun farmgjalda olíuskipsins Þyrils. Aðalefni þessarar till. er það, að ríkisstj. leggi fyrir Skipaútgerð ríkisins að lækka nú þegar farmgjöld á olíu, sem flutt er til innlendra aðila með olíuskipinu Þyril. Rökin fyrir því, að fram á þetta er farið, eru fyrst og fremst þau, sem flestum hv. þm. eru í rauninni kunn, að verð á olíum úti á landi er allmiklu hærra, en verð á olíum hér í Reykjavík. Þetta kemur sér mjög illa í sambandi við ýmsan rekstur úti á landi, og stappar nærri því, að ýmsar rekstrargreinar fái ekki borið sig þar, á sama tíma sem þær ættu að geta borið sig sæmilega hér.

Hér fyrir Alþ. liggur nú frv. til l. um verðjöfnun á olíu, og standa að flutningi þess allmargir þm. úr hv. Nd. Alþingi hefur áður samþ. till., sem fara í þá átt að leiðrétta nokkuð þetta mikla misræmi, sem er á olíuverðinu hér við Faxaflóa og olíuverðinu úti á landi. Þörfin fyrir að lækka hið háa olíuverð úti á landi er mjög knýjandi. En það hefur hins vegar ekki leynt sér, að það er allmikil andstaða ýmissa aðila í landinu gegn því, að verðjöfnun á olíu nái fram að ganga. Og mér sýnist allmargt benda til þess, að enn einu sinni eigi að koma í veg fyrir það, að samþykkt verði gerð hér í lagaformi á þessu þingi, sem gæti tryggt framgang þessa máls.

Ég hef því viljað freista þess að fá nokkra leiðréttingu á þessu efni með flutningi þessarar till. Mér er að vísu ljóst, að það fengist ekki fullt jafnrétti í þessu, en þetta tel ég þó vera fyrsta sporið í rétta átt, að ríkissjóður sjálfur lækki þau farmgjöld, sem sannanlega eru of há í sambandi við flutninga á olíu með þessu olíuflutningaskipi ríkisins til hafna úti á landi. Reikningar þessa skips, Þyrils, fyrir síðast liðið ár sýna, að gróði á rekstri skipsins er 1 millj. og 100 þús. kr., og rúmlega það þó. Gróði skipsins hefur árlega á undanförnum árum verið nokkuð á aðra millj. kr. Þessi rekstrarafkoma skipsins sýnir glögglega, að það er haldið uppi alveg óþarflega háum frögtum og olíuverðið úti á landi af þessum ástæðum gert allmiklu hærra, en þörf er á. Það er t. d. rétt að benda á það, að ríkissjóður annast á sama tíma allmikla vöruflutninga út á land með öðrum skipum, og það þykir ekki annað fært, en að haga þeim rekstri þannig, að allmikið tap er á rekstri skipanna á hverju ári, en þetta skip, sem flytur eingöngu olíu, er hins vegar rekið árlega með svona miklum gróða eins og reikningarnir sýna. Þetta tel ég að sé með öllu óverjandi, eins og þessum málum er komið, og það beri að lækka farmgjöldin, að minnsta kosti svo sem rekstur skipsins þolir, eins og gert er ráð fyrir í till. minni.

Ég vil í þessu efni alveg sérstaklega benda á þann mikla vanda, sem komið hefur nú fram í þessu efni varðandi rekstur togara frá höfnum úti á landi. Verðmismunurinn á olíu þeirri, sem togararnir nota, er allmiklu meiri en verðmismunur á annarri olíu, þegar borið er saman verðlag hér í Reykjavík og verðlagið úti á landi. Hvert tonn af olíu, sem togararnir nota, er um 140 kr. hærra í verði á höfnum úti á landi heldur en verðið er hér í Reykjavík. Þetta þýðir það, að þeir togarar, sem reknir eru frá höfnum úti á landi og leggja upp afla sinn þar til atvinnuaukningar á sínum stöðum, hafa rekstrarútgjöld aðeins vegna olíukostnaðarins í kringum 30 þús. kr. hærri á hverjum mánuði heldur en skipin, sem leggja upp afla sinn hér við Faxaflóa. Af þessu leiðir eðlilega það, að skipin, sem heima eiga úti á landi, fá allmiklu lakari rekstrarafkomu heldur en skipin, sem rekin eru héðan, og einnig að þau seilast mjög til þess, þessi skip, að leggja upp afla sinn hér og fá hér hina ódýru olíu, en forðast í ýmsum tilfellum að koma til sinna heimahafna og leggja þar upp aflann til atvinnuaukningar, eins og þeim var þó í rauninni ætlað, vegna þess, hvað olíuverðið þar er miklum mun hærra en hér.

Ég skal nú ekki orðlengja mikið um þetta hér að sinni. Ég vænti, að flestir hv. alþm. þekki meginatriðin úr þessum gögnum, sem gerð eru nokkru fyllri skil í grg. till. En hér er um þannig réttlætismál að ræða, að það verður að teljast mjög hart, ef ekki er hægt að fá samþ. hér á Alþ. þessa takmörkuðu leiðréttingu, sem hér er farið fram á í þessum málum, eins mjög og það er orðið aðkallandi fyrir allan atvinnurekstur úti á landsbyggðinni.

Ég leyfi mér svo að vænta þess, að málið fái nú góða fyrirgreiðslu hjá n. þeirri, sem fær það til athugunar, og óska eftir því, að því verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. fjvn.