03.12.1952
Sameinað þing: 20. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 252 í D-deild Alþingistíðinda. (2686)

128. mál, fiskileitarskip á djúpmiðum

Flm. (Lúðvík Jósefsson):

Herra forseti. Ég flyt hér á þskj. 182 till. um, að ríkisstj. láti efna til skipulagðrar fiskileitar með vel útbúnu skipi til þess að stunda slíka fiskileit, einkum á djúpmiðunum við Ísland.

Hin síðari ár hefur það komið æ betur í ljós, að það er aðkallandi nauðsynjamál, að Íslendingar kanni betur, en hingað til hefur verið gert fiskimiðin í kringum landið og þá alveg sérstaklega fiskimiðin á djúpmiðunum. Hin algengari fiskimið okkar upp við strendur landsins eru sæmilega kunnug landsmönnum, og það hefur eflaust ekki mikið að segja að efna til mikillar fiskileitar á þeim slóðum, en víðáttumikil fiskimið eru við landið víða á útmiðunum, sem enn hafa ekkert verið notuð eða eru sáralítið kunnug landsmönnum. Þetta hefur mjög greinilega komið fram í sambandi við fiskveiðar togaraflotans. Þar sem algengt var, að íslenzkir togarar veiddu hér á landgrunninu á dýpi, sem var í kringum 100–150 faðmar, þá má segja það, að nú sé að verða algengast hjá þeim að veiða á dýpi, sem er 150 og jafnvel rétt fyrir neðan 200 faðma, eða að þeir eru sem sagt, íslenzku nýsköpunartogararnir, komnir út af hinu eiginlega eða venjulega landgrunni okkar, sem miðað hefur verið við 200 faðma dýptarlínu. Þegar þangað út kemur, þá er yfirleitt reynslan sú, að öll kortlagning af þessum svæðum er ákaflega ófullkomin og erfitt fyrir okkar skipstjóra að stunda þarna veiðar. Nú t. d. seinustu árin hafa þessi skip okkar verið að leggja undir sig ný og ný veiðisvæði, alveg sérstaklega í sambandi við hinar miklu karfaveiðar okkar. Stór og víðáttumikil veiðisvæði hafa orðið Íslendingum kunnug, og þeir hafa tekið þar upp mikinn afla af karfa, sem íslenzkum fiskiskipstjórum var algerlega ókunnugt um að hægt væri að stunda veiðar á fyrir örfáum árum. Æði oft hefur þetta orðið svo, að íslenzku veiðiskipin verða að fara á þessar slóðir samkvæmt upplýsingum frá erlendum veiðiskipum. Ég hirði ekki um það nú að þessu sinni að tilgreina í þessu efni einstök veiðisvæði, sem á þennan hátt hafa bætzt við veiðisvæði íslenzkra veiðiskipa, en þau eru mörg. En það mun vera almennt álit íslenzkra togaraskipstjóra, að víða sé enn svo ástatt í kringum Ísland, að þar séu þýðingarmikil veiðisvæði, sem íslenzki togarflotinn gæti notað og veitt á mikið, en hins vegar hafa enn ekki orðið tök á því að afla nægilegra upplýsinga um þessi mið, því að slíkt kostar vitanlega talsverða tilraunastarfsemi og allmikil útgjöld.

Nú er það meining mín með þessari till., að ríkisstj. geri ráðstafanir til þess að taka á leigu um nokkurn tíma vel útbúið skip, sem gæti stundað slíkar tilraunaveiðar víða hér á djúpmiðunum í kringum landið. Þetta gera fjöldamargar aðrar fiskveiðaþjóðir í allríkum mæli og miðla síðan veiðiskipunum af reynslu sinni og spara á þann hátt mikið í rekstri skipanna, sem nú verða iðulega hjá okkur að annast þessa leit sjálf, en okkar veiðiskip eru vitanlega allt of dýr í rekstri og óhagstæð til þess að ætla að hafa kannske nærri því allan flotann meira og minna í leit að nýjum fiskimiðum. Þetta verður líka enn þá meira aðkallandi fyrir okkur, þegar svo er komið, að veiðifloti okkar verður að auka ferðir sínar og það í stórum stíl til enn þá fjarlægari fiskimiða heldur en djúpmiðin eru í kringum Ísland. Nú gerist það sem sagt sífellt algengara, að togarafloti okkar leitar til norðurstrandar Noregs, í Hvítahafið, að Bjarnareyjarmiðum og á fiskimið í kringum Grænland, en ef svo kynni nú að reynast, eins og margir búast við, að víða í kringum Ísland sé að finna enn þá þýðingarmikil og góð og auðug fiskimið, sem jafnvel fyllilega samsvara þessum miðum á vissum tímum árs, þá er það sannarlega ómaksins vert að leggja í nokkurn kostnað við að gera út fiskileitarskip, sem rannsaki þessi mið. Ég vil taka það skýrt fram, að hér er ekki átt við sams konar rannsókn eins og þegar rætt hefur verið um sérstakt fiski- eða hafrannsóknaskip, sem rannsakar göngur fisksins og uppeldisskilyrði frá náttúrufræðilegu sjónarmiði, heldur er hér fyrst og fremst átt við fiskileitarskip, fiskveiðaskip, sem getur stundað veiðar á nýjum miðum og rannsakað þar botnlag og aðstöðu til veiða.

Ég hef gert ráð fyrir því í þessari till., að verði efnt til þessarar rannsóknar, þá fari hún fram í nánu samstarfi við starfandi togaraskipstjóra á íslenzka veiðiflotanum. Það er alveg ábyggilegt, að togaraskipstjórarnir hafa margir hverjir í huga mjög ákveðin svæði í þessu efni og mundu geta gefið í þessu efni mjög góðar upplýsingar, og er vitanlega sjálfsagt að notfæra sér þeirra þekkingu, þeirra kunnáttu í þessum efnum og haga leitinni sem mest eftir því, sem þeir legðu til. Enn fremur er gert ráð fyrir því, að öllum upplýsingum, sem fengjust, yrði komið jafnhliða svo að segja til íslenzku veiðiskipanna til þess að gera afrakstur þeirra sem beztan.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að ræða frekar um þessa till. á þessu stigi málsins, en óska eftir því að, að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til fjvn. — líklega frekar en til allshn. — annars geri ég ekki það að atriði, til hvorrar nefndarinnar till. yrði vísað.