03.12.1952
Sameinað þing: 20. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 255 í D-deild Alþingistíðinda. (2695)

130. mál, veiting prestakalla

Flm. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Það hefur áður legið hér fyrir Alþ., oftar en einu sinni, frv. til l. um breyt. á l. um veitingu prestakalla, þar sem lagt hefur verið til, að þeirri gildandi venju væri hætt að kjósa presta, heldur skyldu þeir skipaðir sem aðrir embættismenn ríkisins. Þessi frv. hafa ekki náð fram að ganga og engin breyting verið gerð á þeirri tilhögun, sem gilt hefur um veitingu prestakalla. Frv. það, sem hér var til meðferðar á Alþ. í fyrra varðandi skipun prestakalla, segir ekkert um það, hvernig háttað skuli veitingu þeirra, og eru því þær reglur áfram óbreyttar.

Ástæðan til þess, að ég hef hér ásamt tveim öðrum hv. þdm. leyft mér að bera fram till. til þál. um endurskoðun l. um veitingu prestakalla, er þó ekki fyrst og fremst byggð á því, að æskilegt sé að breyta þessari tilhögun og taka upp þá reglu að skipa presta eins og aðra embættismenn, heldur er það einnig orsök þessarar till., að núgildandi l. um veitingu prestakalla eru með öllu óhæf. Þau eru orðin svo úrelt, enda sett árið 1915, að þar eru margar reglur í sambandi við framkvæmd prestskosninga, sem ekki er hægt að framkvæma og hefur ekki verið gert að undanförnu. Hins vegar vantar þar einnig mörg ákvæði, sem óumflýjanlegt er að hafa í slíkum l. Þetta veldur því, að það er ekki lengur hægt að skjóta því á frest að endurskoða þessi l., hvað sem líður því atriði, hvort eigi að afnema þessa tilhögun um veitingu prestakalla, sem verið hefur.

Ég vil því leggja höfuðáherzlu á þá hlið málsins, að hvað sem líður skoðunum manna á því atriði, þá verður ekki gengið fram hjá því lengur að endurskoða þessi l. En hins vegar töldum við flm. rétt, að í sambandi við þá endurskoðun yrði tekið til mjög alvarlegrar yfirvegunar, hvort talið yrði heppilegt að breyta núgildandi skipun um þetta efni og hætta kjöri presta, en skipa þá sem aðra embættismenn eða skipa þá með einhverju öðru móti; það mætti ef til vill setja einhver sérstök ákvæði um, hvaða reglum skyldi um það fylgt. En það er þó ekki slegið föstu í þessari till. neinni afstöðu um það efni, hvort þetta væri heppilegt eða ekki. — Í grg. er á það bent, að æskilegt sé, að þetta komi til álita prestastéttarinnar og almenns kirkjufundar. Þetta mun nú að vísu hafa verið tekið þar til meðferðar nokkuð og verið um það skiptar skoðanir, og hafa verið birt með frv. um þetta efni hér allt þessara aðila. En ég hygg, að það verði ekki með góðu móti hægt að láta þetta svo ganga áfram og því sé mikilvægt að reyna að fá einhverja niðurstöðu í málinu sem allra fyrst. Það út af fyrir sig má segja, að ekki sé nein knýjandi nauðsyn að breyta þeirri skipan á vali presta, sem nú er, að þeir verði áfram kjörnir eins og verið hefur. En hitt stendur óhaggað, að það er mikil nauðsyn, að endurskoðun þessara l. um veitingu prestakalla fari fram, og mun það vera almenn skoðun þeirra safnaðarnefnda, sem hafa þurft að sjá að undanförnu um framkvæmd prestskosninga, að þetta verði gert, því að mörg atriði eru þar svo óljós og mörg atriði vantar þar algerlega, þannig að það er illmögulegt að framkvæma prestskosningu án þess að eiga á hættu, að það valdi deilum og kærum eftir á.

Ég vildi mjög mega vænta þess, að hv. þm. vildu á það fallast, að þessi endurskoðun fari fram. Hér er ekki um nein útgjöld að ræða fyrir ríkissjóð á neinn hátt, heldur aðeins að greiða fyrir því, að framkvæmd þessara mála geti orðið á lögformlegan hátt og ekki valdið neinum deilum.

Ég vil leyfa mér að leggja til, ef ástæða þykir til, að þessi till. fari til hv. allshn. til athugunar.