10.12.1952
Sameinað þing: 24. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 259 í D-deild Alþingistíðinda. (2705)

141. mál, byggingakostnaður í kaupstöðum og kauptúnum

Flm. (Rannveig Þorsteinsdóttir):

Herra forseti. Ég flyt hér ásamt hv. þm. V-Húnv. á þskj. 207 till. til þál. um rannsókn á byggingarkostnaði í kaupstöðum og kauptúnum.

Eitt af því, sem veldur mjög miklu um verðlag og dýrtíð hér á landi, er hinn hái byggingarkostnaður, einkum í kaupstöðum og kauptúnum. Hár byggingarkostnaður hefur auðvitað fyrst og fremst þýðingu fyrir þá, sem ráðast í að koma upp húsum fyrir sig á hverjum tíma, en jafnframt hefur hár og hækkandi byggingarkostnaður þýðingu fyrir verð á leiguhúsnæði, þar sem leiga á húsnæði er venjulega við það miðuð að meira eða minna leyti, hvað það kostar að byggja á þeim tíma, sem húsnæði er leigt út, hvað sem byggingin kann að hafa kostað, þegar hús það var byggt, sem verið er að leigja.

Yfirleitt er gengið út frá því, að byggingarkostnaður íbúðarhúsa sé um eða yfir 700 krónur teningsmetrinn, en mun þó þekkjast lægri í byggingarfélögum verkamanna. Nú í sumar gerðist það, að byggð voru á Sauðárkróki hús til útrýmingar heilsuspillandi íbúðum. Var af húsameistara ríkisins gerð áætlun um kostnað við byggingu húsanna samkv. því, sem algengast er. En þá brá svo við, að byggingarkostnaðurinn varð í reyndinni hér um bil helmingi lægri, en húsameistari ríkisins hafði áætlað, og hefur félmrn. skýrt frá þessu opinberlega í blöðum, gefið skýrslu um stærð og gerð húsanna og verð þeirra. Verktakar þeir, sem unnu að húsunum, töldu sig að vísu hafa gert helzt til lágt tilboð í þau, en það munaði mjög lítilli upphæð, þannig að byggingarkostnaður húsanna var nálega helmingi lægri en gerist, þótt verktakarnir hefðu þann hagnað af verkinu, sem þeir töldu sig þurfa.

Þetta meðal annars gefur tilefni til þess að ætla, að mikið megi lækka byggingarkostnað í kaupstöðum og kauptúnum, miðað við þær aðferðir, sem notaðar eru við byggingar nú. Er sjálfsagt, að það verði upplýst með rannsókn, hvað veldur þeim mismun, sem er á byggingarkostnaði, og jafnframt hvernig megi lækka þá liði, sem um er að ræða, þar sem þeir eru of háir. Enn fremur er mikið verkefni óleyst á sviði byggingariðnaðarins að því er varðar ný og lítt notuð byggingarefni, einkum innlend. Einn þáttur þeirrar rannsóknar, sem hér er gert ráð fyrir, hlýtur að beinast að því að fá úr því skorið, hvort ekki sé hægt að spara með því að nota slík byggingarefni og þá hve mikið er hægt að spara með því að taka upp notkun nýrra byggingarefna. Sama má segja um nýjar aðferðir, sem nú er farið að nota t. d. á Norðurlöndum og sagt er að lækki byggingarkostnað þar um allt að því 1/3 hluta. Nokkrar tilraunir hafa verið gerðar hér á landi um nýjungar á þessu sviði, t. d. með hús úr hlerum, sem síðan eru slegin upp á staðnum; en þær aðferðir hafa ekki verið fullreyndar, og margt er órannsakað og óupplýst einnig í þeim efnum, sem þó hafa verið gerðar einhverjar tilraunir með hér.

Að vísu hefur það verið svo fyrr, en með Sauðárkrókshúsin, að vitað hefur verið um, að byggingarkostnaður er mjög misjafnlega hár hér á landi, en það hafa ekki fyrr verið gefnar út um það opinberar upplýsingar, og er það einn aðalþáttur þessa máls að fá slíkar upplýsingar fram, þannig að almenningur eigi að þeim greiðan aðgang og geti lært af þeim, hvað hægt er að spara í kostnaði við byggingar og hvernig er hægt að gera það.

Við Íslendingar höfum á örfáum árum byggt meira af íbúðarhúsum heldur en gert var hér á löngu tímabili þar á undan. Þjóðin var alin upp við lélegt húsnæði. En hún hefur fundið það æ betur, að gott húsnæði er það, sem hún þarfnast öðru fremur. Enn þá býr margt fólk við óviðunandi húsnæði, vegna þess að það hefur ekki ráð á betra. Byggingarkostnaðurinn er of hár til þess, að þetta fólk geti byggt yfir sig. Og opinberir aðilar, sem ættu að styrkja þá efnaminnstu — og vilja gera það — til þess að koma upp yfir sig mannsæmandi húsnæði, finna, að jafnvel háar upphæðir verða allt of fáum að gagni, þegar byggingarkostnaðurinn er svo gífurlega hár sem hann nú er. Rannsókn sú, sem hér er gert ráð fyrir, ætti að verða fyrsta skrefið í áttina að lækkuðum byggingarkostnaði í þessu landi, a. m. k. hjá þeim, sem ekki gera aðrar kröfur til húsa sinna en þær, að þau séu sæmilegar og mannsæmandi íbúðir. — Ég legg til, að till. þessari verði að lokinni umr. vísað til hv. allshn.